Jóhanna braut stjórnarskrána Jóhanna var ákveðin í mlisað sameina sveitarfélögin, hvað sem tautaði og raulaði, segir Haraldur Blöndal. Hana varðaði ekkert um lög og rétt.

Jóhanna braut stjórnarskrána Jóhanna var ákveðin í mlisað sameina sveitarfélögin, hvað sem tautaði og raulaði, segir Haraldur Blöndal. Hana varðaði ekkert um lög og rétt. HÆSTIRÉTTUR hefur nú dæmt, að úrskurður Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra, um kosningarnar í Helgafellssveit 16. apríl sl. var rangur. Ég er þeirrar skoðunar, að Jóhanna hafi kveðið þennan úrskurð upp gegn betri vitund, einungis til þess að ná fram pólitískum markmiðum sínum. Úrskurður Jóhönnu stangast á við stjórnarskrá Íslands, ­ og þessi gjörð hennar er ekki sú eina í sveitarstjórnarmálum, sem stangast á við stjórnarskrána. Þegar liggur fyrir, að vegna hennar athafna voru ólöglegar kosningar haldnar í fimm sveitarfélögum sl. vor, þ.e. í Stykkishólmi, Hólmavík, Dalabyggð, Ísafirði og Höfn í Hornafirði. Í dag er einungis löglega kjörin sveitarstjórn á Hólmavík. Jóhanna Sigurðardóttir hefði orðið að segja af sér vegna þessa dóms, sæti hún enn í embætti.

Stjórnmálamaður, sem vísvitandi brýtur stjórnarskrá landins til þess eins að svala metnaði sínum, getur ekki setið í ráðherraembætti, ­ og það er heldur ekki hægt að treysta honum til þess að fara með slíkt vald í framtíðinni.

Aðdragandinn

Samstarfsnefnd um sameiningu Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar lét kjósa um sameiningu þessara sveitarfélaga 16. apríl 1994.

Almennur framboðsfrestur rann út 30. apríl sl. vor. Til þess að kjósa mætti í nýju sameinuðu sveitarfélagi varð því að sameina sveitarfélögin fyrir 30. apríl og birta þá auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda, sbr. 118. gr. sveitarstjórnarlaga. Var Jóhönnu ljóst, "að eigi yrði hjá því komist að undirbúningur að kosningum til sveitarstjórnar hins nýja sameinaða sveitarfélags hæfist áður en búið var að birta auglýsingu um staðfestingu á sameiningu sveitarfélaganna." (Tilvitnun í bréf félagsmálaráðuneytisins til ríkislögmanns dags. 23. nóvember 1994, og lagt var fram í Hæstarétti við flutning Jóhönnumála.)

Hér er einfaldlega staðfest, að Jóhanna Sigurðardóttir ákvað að fara ekki eftir fyrirmælum 27. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir að birta eigi lög.

Kosningin var kærð 18. apríl. Hinn 23. apríl var félagsmálaráðuneytinu kunnugt um, að kosningin hafði verið kærð. Þar með var hverjum manni ljóst, að sameining gat ekki átt sér stað fyrr en eftir almennar sveitarstjórnarkosningar, því að útilokað var að afgreiða þessa kæru fyrir lok framboðsfrests. Þá þegar átti ráðuneytið að tilkynna, að ekki yrði kosið sameiginlega í sveitarfélögunum. Þar fyrir utan mátti hver maður sjá, að gegnsæir kjörseðlar hlutu að leiða til ógildingar kosninganna, og lá fyrir Hæstaréttardómur frá 1982 um slíkt efni. En þessu vildi Jóhanna Sigurðardóttir ekki una. Og raunar gerði hún grín að þessu á flokkþingi krata, þegar hún tapaði kosningu fyrir Jóni Baldvini Hannibalssyni. Það sáu landsmenn í sjónvarpi.

Í fyrrnefndu bréfi félagsmálaráðuneytisins frá 23. nóvember 1994 segir um þetta efni: "Með hliðsjón af upplýsingum sem ráðuneytinu (þ.e. Jóhönnu) bárust um niðurstöður atkvæðagreiðslunnar hinn 16. apríl 1994 strax að þeim loknum .... taldi ráðuneytið (Jóhanna) ekki ástæðu til að leggjast gegn því að kosið yrði í almennum sveitarstjórnarkosningum til sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi." Hins vegar ákvað Jóhanna að "fresta því að staðfesta formlega sameiningu sveitarfélaganna tveggja þar til niðurstaða í því kærumáli lægi fyrir".

Með öðrum orðum: Það átti að sameina, sbr. orðið "fresta", og búið var að ákveða niðurstöðuna án þess að sjá gögn og rökstuðning. Og segir enda í bréfinu: "Ráðuneytið (Jóhanna) taldi ennfremur, að þegar því bárust upplýsingar um að atkvæðagreiðslan hinn 16. apríl 1994 hefði verið kærð, þ.e. hinn 25. (sic) apríl 1994, hefði verið of seint að stöðva undirbúning að kosningum til sveitarstjórnar hins nýja sameinaða sveitarfélags, því hann var vel kominn á veg og m.a. má nefna að framboðsfrestur vegna almennra sveitarstjórnarkosninga vorið 1994 rann út hinn 30. apríl 1994. Þar af leiðandi hefði verið of seint að hefja undirbúning að kosningum til sveitarstjórna í hvoru sveitarfélagi fyrir sig þar sem aðeins 5 dagar voru eftir af framboðsfresti."

En: "Ráðuneytinu (Jóhönnu) var þó ljóst að réttarstaðan var ekki að öllu leyti skýr hvað þetta varðar."!! Nú er komið í ljós, að allt sem ráðuneytið gerði var rangt. Og Jóhanna Sigurðardóttir fylgdist með öllu og ber stjórnskiplega ábyrgð á þessu öllu saman.

Kosningin

Kjörstjórn Helgafellssveitar lýsir því svo í gerðabók, að kjörseðlar hafi verið " ... úr svo þunnum pappír að sjá mátti í gegnum hann ..." Kosning fór þannig fram: "Tveir kjósendur neituðu að setja atkvæðaseðil sinn í kjörkassann nema hann væri hulinn og aðrir tveir hikuðu við, kjörstjórn varð góðfúslega við því að skýla hjá við op kassans með kjörskrám sínum."

Úrslit voru þau, að með tillögu um sameiningu voru 24, á móti voru 22, en einn seðill var auður.

Ákváð kjörstjórn 18. apríl 1994, að kæra kosninguna. Úrskurður nefndar skv. 37. gr. sveitarstjórnarlaga, og í sátu þrír lögfræðingar, var kveðinn upp 5. maí 1994, og voru kosningarnar felldar úr gildi. Þessi úrskurður var kærður til félagsmálaráðuneytisins hinn 9. maí 1994. Efnislega var hér um að ræða svipað sakarefni og Hæstaréttur hafði dæmt um árið 1982, en þá taldi Hæstiréttur það leiða til ógildingar kosninga, að kjörseðlar væru gegnsæir.

Hinn 13. maí 1994 kvað Jóhanna Sigurðardóttir þáv. félagsmálaráðherra upp úrskurð sinn. Hún lýsir kjörseðlunum þannig: " ... er það niðurstaða ráðuneytisins að of þunnur pappír hafi verið í atkvæðaseðlum ..." Hún bætir svo við, að hennar mat sé, að "sá galli sé þó ekki slíkur að ætla megi að hann hafi haft áhrif á úrslit atkvæðagreiðslunnar." Hún skrifar sjálf undir úrskurðinn.

Niðurstaða Jóhönnu var þessi:

"Úrskurður úrskurðarnefndar, sem upp var kveðinn 5. maí 1994, er úr gildi felldur. Atkvæðagreiðsla sú sem fram fór í Helgafellssveit hinn 16. apríl 1994 um sameiningu Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar er gild."

Í framhaldi af þessu sameinaði Jóhanna sveitarfélögin og fór fram kosning 28. maí 1994. Sú kosning var kærð 3. júní, m.a. af Hólmfríði Hauksdóttur, formanni kjörstjórnar Helgafellssveitar. Kærunefnd skv. 37. gr. sveitarstjórnarlaga úrskurðaði kosningarnar ógildar 28. júní 1994 og sú niðurstaða var staðfest með úrskurði félagsmálaráðuneytisins 2. ágúst 1994. Niðurstaðan var byggð á því, að aðgerðir ráðuneytisins um sameiningu hefðu verið ólögmætar. Jóhanna Sigurðardóttir var ekki lengur félagsmálaráðherra, þegar þessi úrskurður var kveðinn upp.

Dómur Hæstaréttar

Hólmfríður Hauksdóttir skaut úrskurði Jóhönnu Sigurðardóttur til dómstóla, og var honum hnekkt með dómi Héraðsdóms Vesturlands 6. október 1994 og 8. desember staðfesti Hæstiréttur þann dóm að niðurstöðu til. Í dómi Hæstaréttar segir:

"Eins og greinir í héraðsdómi var kjörseðilinn þannig úr garði gerður, að skrift sést í gegnum hann, þótt hann sé brotinn saman. Hann fullnægir ekki áskilnaði 2. mgr. 26. gr. laga nr. 8/1986, (Sveitarstjórnarlaga, innsk.) sbr. 50. gr. laga nr. 80/1987. (Laga um kosningar til Alþingis, innsk.) Kjörseðillinn tryggir því ekki, að kosningin hafi verið leynileg skv. 14. gr. laga nr. 8/1986, sem er meðal grundvallarákvæða í íslenskum lögum um opinberar kosningar, sbr. 87. gr. og 91. gr. laga nr. 80/1987 og 31. gr. stjórnarskrárinnar. Brestur í þessu efni er í eðli sínu til þess fallinn að hafa áhrif á úrslit kosningar ..."

Þarf frekari orð um, að Jóhanna var ákveðin í að sameina sveitarfélögin, hvað sem tautaði og raulaði? Hana varðaði ekkert um lög og rétt.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.

Haraldur Blöndal