Lífið Verkefni í starfi og áhugamál þau sömu, segir Hildur Sverrisdóttir.
Lífið Verkefni í starfi og áhugamál þau sömu, segir Hildur Sverrisdóttir. — Morgunblaðið/Eggert
„Stjórnmálin eru skemmtileg. Á þeim vettvangi hef ég fengið tækifæri til að sinna mismunandi hlutverkum, fyrst sem varaborgarfulltrúi, sem alþingismaður og nú sem aðstoðarmaður ráðherra.

„Stjórnmálin eru skemmtileg. Á þeim vettvangi hef ég fengið tækifæri til að sinna mismunandi hlutverkum, fyrst sem varaborgarfulltrúi, sem alþingismaður og nú sem aðstoðarmaður ráðherra. Í þessum störfum hef ég átt þesss kost að kynnast mörgu og gaman að fá tækifæri til að nálgast þennan vettvang frá svona mismunandi vinklum,“ segir Hildur Sverrisdóttir sem er fertug í dag. Hún er annar tveggja aðstoðarmanna Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra iðnaðar-, ferða- og nýsköpunarmála – og þessa viku og þá síðustu situr hún á Alþingi sem varaþingmaður.

„Það er frí á þinginu í dag þannig að ég verð í ráðuneytinu og ætli það sé þá ekki rakið að koma með eitthvað gott með kaffinu fyrir vinnufélagana. Svo finnst mér nauðsynlegt að hitta mömmu sína á afmælisdaginn og ég giska á að kærastinn minn gefi mér eitthvað mjög gott að borða,“ segir Hildur, sem er lögfræðingur að mennt og skrifaði pistla í Fréttablaðið um árabil.

Þegar tómstundir ber á góma segir Hildur að spurningar um slíkt vefjist gjarnan fyrir sér, enda séu verkefni sín í starfi og áhugamálin í raun eitt og það sama. „Mér finnst annars best að komast sem oftast í Vesturbæjarlaugina og ég trúi að hlaup á milli heitu og köldu pottanna sé allra meina bót. Svo finnst mér voða gott að rölta upp á hólana hér í nágrenni borgarinnar, Úlfarsfellið er til dæmis alveg mátulega hátt fyrir mig,“ segir afmælisbarnið að síðustu. sbs@mbl.is