Jón Rafnar Hjálmarsson fæddist 28. mars 1922 í Bakkakoti, Vesturdal í Skagafirði. Hann lést á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut 10. nóvember 2018.
Foreldrar hans voru Hjálmar Jónsson bóndi, f. 1889, d. 1922, og Oddný Sigurrós Sigurðardóttir, f. 1890, d. 1984. Seinni maður Oddnýjar var Stefán Jóhannesson, f. 1895, d. 1990. Systkini Jóns samfeðra voru Herborg, f. 1914, d. 1994, Sigurður Helgi, f. 1918, d. 2001, Helga, f. 1919, d. 2007, og Jón Rafnar, f. 1920, d. 1921. Systkini hans og börn Stefáns voru Aðalsteinn, f. 1923, d. 1929, Hjálmar Alexander, f. 1926, d. 2016, Sigrún Jóhanna, f. 1928, d. 1928, Aðalbjörg Sigrún, f. 1930, d. 2013, og Dagbjört Hrefna, f. 1933, d. 2011.
Jón ólst upp í Bakkakoti. Hann lauk búfræðiprófi frá Hólum 1942, stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1948, cand.mag.-prófi í ensku, þýsku og sögu frá Óslóarháskóla 1952 og cand.philol.-prófi í sagnfræði frá sama skóla 1954.
Hinn 25. september 1954 kvæntist Jón Guðrúnu Ólöfu Hjörleifsdóttur, f. 10. apríl 1927. Börn þeirra eru: 1) Halldóra, f. 1957. 2) Hjálmar Andrés, f. 1960, kvæntist Maríu Jónsdóttur, þau skildu. Börn þeirra eru Guðrún Andrea, f. 1990, sambýlismaður hennar er Máni Dagsson og þeirra dóttir er Saga Sólrún, f. 2016, Jón Rafn, f. 1992, og Valgerður Agla, f. 1994. 3) Hjörleifur Rafn, f. 1961, kvæntist Noru Taylor, þau skildu. Dætur þeirra eru Mána Hao, f. 1997, og Sóley Nai, f. 2001. 4) Oddný Sigurrós, f. 1963, gift Sveini Ingimarssyni, synir þeirra eru Ingimar, f. 2000, og Hjörleifur Örn, f. 2005. 5) Guðrún Helga, f. 1967, gift Þorvaldi Haraldssyni. Dætur hennar eru Andrea Rún Engilbertsdóttir, f. 1993, og Ólöf Freyja Þorvaldsdóttir, f. 2004.
Jón var skólastjóri Héraðsskólans í Skógum undir Eyjafjöllum 1954-1968 og frá 1970-1975 og skólastjóri við Gagnfræðaskólann á Selfossi 1968-1970. Hann var síðan fræðslustjóri á Suðurlandi frá 1975 til starfsloka árið 1990.
Jón og fjölskylda hans bjuggu um árabil á Selfossi en síðastliðin fimmtán ár hafa Jón og Guðrún búið í Reykjavík.
Samhliða skólamálum fékkst Jón við margskonar ritstörf. Eftir hann liggja fjölmargar bækur, þeirra á meðal kennslurit og bækur um sagnfræði og þjóðlegan fróðleik. Hann gerði einnig útvarpsþætti og tók viðtöl við fólk sem síðar komu út í bókarformi. Um árabil sinnti Jón leiðsögn með erlenda ferðamenn og seinna meir Íslendinga og fór í slíkar ferðir allt fram til 2017. Var hann heiðursfélagi í Félagi leiðsögumanna. Síðustu árin skrifaði Jón leiðsögurit með ýmsum fróðleik úr byggðum landsins. Ásamt Þórði Tómassyni safnverði í Skógum var Jón um langt árabil ritstjóri og útgefandi Goðasteins, héraðsrits Rangæinga. Einnig ritstýrði Jón Rotary Norden af Íslands hálfu. Jón hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1983 og var sæmdur Paul Harris Fellow-orðu Rótarýhreyfingarinnar 1986 og 1996. Jón var alla tíð mjög virkur í félagsstörfum.
Útför hans fer fram frá Neskirkju í dag, 19. nóvember 2018, klukkan 13.

Það var í byrjun október árið 1960 að ég lagði af stað í fyrsta sinn til langdvalar fjarri bernskuheimili mínu, heimalningur austan úr Landbroti. Eftir fárra daga dvöl hjá frændfólki í Mýrdal lá leiðin út undir Eyjafjöll til að setjast í Héraðsskólann í Skógum. Þangað kom ég síðla dags og kom mér fyrir í heimavist þar sem mér var ætluð vetrardvöl, var þar einn því að flestir aðrir nemendur komu ekki í skólann fyrr en tveimur dögum síðar Næsta morgun fór ég snemma á stjá til að kynna mér aðstæður. Þennan haustdag var fagurt um að litast í Skógum, í lognbjartri sólkyrrð morgunsins. Ég var á rölti fyrir framan skólann þegar birtist maður, fremur grannvaxinn, vel farinn í andliti, dökk- og hrokkinhærður, kvikur á fæti og hafði hratt á hæli. Hann heilsaði mér hlýlega og bauð mig velkominn, innti eftir ætt og uppruna og lagði mér nokkrar lífsreglur af festu og vinsemd. Þarna hitti ég Jón Rafnar Hjálmarsson í fyrsta sinn. Í hönd fóru þrír merkilegir vetur við nám undir forystu og í umsjá Jóns R. og þess einvalaliðs kennara sem hann stýrði. Ekkert tímabil í lífi mínu er mér jafneftirminnilegt og veturnir 1960-1963 og kemur þar margt til. Jóni og félögum hans var afar ljós sú ábyrgð sem þeir báru og þeir öxluðu hana af mikilli alvöru, agi þótti stundum strangur og áminningu skólastjóra vildi enginn þurfa að hlíta. En umhyggja og velvild í garð nemenda og löngun og vilji til að koma þeim til þroska blasti líka við. Það var ekki að ástæðulausu að Héraðsskólinn Skógum hafði á sér hið besta orð á landsvísu og umsóknir um skólavist voru á hverju hausti miklu fleiri en unnt var að verða við.
Jón R. Hjálmarsson var skólastjóri Héraðsskólans í Skógum (og Gagnfræðaskólans á Selfossi í tvö ár) til 1975. Þá breytti hann til og gerðist fræðslustjóri Suðurlandsumdæmis en því starfi gegndi hann til 1990, var því virtur skólamaður alla sína opinberu starfsævi. En starfsgleði Jóns og starfsorka var miklu meiri en svo að það nægði honum. Hann var fræðari af lífi og sál til æviloka og afköst hans voru ótrúleg, í útvarpi, sjónvarpi, blöðum og tímaritum og bókum. Allt það var með sama hætti, forvitnilegt, aðgengilegt og áheyrilegt/læsilegt. Hann hafði til að bera snilli sem birtist, hvort sem hann talaði eða skrifaði, í því að manni fannst að orðin væru alltaf hæfilega mörg og alveg rétt valin til að koma til skila því sem hann vildi segja, á ljósan og skilmerkilegan hátt.
Byggðasafnið í Skógum er þekkt víða um lönd á sviði íslenskrar menningar- og atvinnusögu og þjóðfræða, fyrir snilli og atorku stofnanda þess og forstöðumanns lengst af, Þórðar Tómassonar. Jón R. var formaður safnstjórnar meðan hann var skólastjóri Skógaskóla og studdi ötullega að uppbyggingu safnsins. Mikill fengur var að því þegar þeir vinirnir stofnuðu tímaritið Goðastein og gáfu það út saman í 14 ár, stórmerkt rit á sviði sagnfræði og þjóðfræða.

Eftir Jón R. Hjálmarsson liggja vel á fjórða tug bóka. Ýmsar þeirra hafa margoft verið gefnar út, bæði kennslubækur í sérgrein hans, mannkynssögu, og fróðleiksbækur og uppsláttarrit af ýmsu tagi. Jón áttaði sig vel á þeim hraðfara breytingum sem urðu á íslensku samfélagi í heimsstyrjöldinni síðari og árunum eftir hana, og brýnni nauðsyn þess að halda til haga fróðleik um hverfandi veröld. Hann hóf því snemma að ræða við glögga og skilríka menn og fræðast af þeim um fyrri daga. Þessi viðtöl birtust í upphafi flest í útvarpi en síðan í allmörgum bókum. Til að gefa út bækur sínar og fleiri stofnaði Jón Suðurlandsútgáfuna og hefur rekið hana síðan.

Jón R. var einn af frumkvöðlum þess að fara um Ísland með ferðamenn, íslenska og erlenda, og kynna landið fyrir þeim, sögu þess og náttúru. Af því spruttu síðan bækur sem hafa notið mikilla vinsælda, þar sem Jón gerir grein fyrir sögu og þjóðfræði umhverfisins þar sem farið er um landið. Þekktar bækur Jóns á þessu sviði eru til dæmis Þjóðsögur við þjóðveginn, Þjóðkunnir menn við þjóðveginn og Draugasögur við þjóðveginn. Það var ánægjulegt þegar það fréttist til Íslands fyrir ári síðan að ítölsk útgáfa bókarinnar Þjóðsagna við þjóðveginn komst í 9. sæti á vinsældalista ítalskrar bókaverslunar í flokki fræði- og handbóka og sat þar um hríð. Það þarf nokkuð til!


Enn má nefna hnitmiðaða Íslandssögu, ætlaða útlendingum, sem kom í upphafi út á ensku en hefur nú birst á fleiri tungumálum og hlotið vinsældir.

Þá skal geta ítarlegrar sögu Héraðsskólans í Skógum sem er þeim mun mikilsverðari sem saga skólans er nú öll, og enn fleiri rit mætti sannarlega telja sem sýna fjölhæfni höfundar.
Ég hef verið svo lánsamur á síðari árum að eiga alloft félag við Jón R. Hjálmarsson og hans góðu konu, Guðrúnu Hjörleifsdóttur. Jón leit gjarnan til mín á vinnustað og líka kom ég stundum til þeirra á heimili þeirra við Dalbraut og naut gestrisni þeirra og glaðværðar. Ógleymanleg er ferð okkar með eldri borgara í Reykjavík inn á Fjallabaksveg syðri fyrir aðeins rúmu ári þar sem ég sat undir stýri en þau hjónin sátu við hlið mér og Jón fór á kostum sem fararstjóri sem oft áður í fegurð öræfanna. Ég bið honum Guðs blessunar og votta Guðrúnu og afkomendum þeirra samúð mína.

Helgi Magnússon