Elísabet Þorkelsdóttir fæddist á Brjánsstöðum í Grímsnesi 14. nóvember 1918. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 20. nóvember 2018.
Hún var yngst 10 barna hjónanna Halldóru Pétursdóttur, f. 1. apríl 1877, d. 12. janúar 1957, og Þorkels Þorleifssonar, f. 18. júní 1868, d. 9. febrúar 1965.
Bræður hennar voru: Jón, Guðleifur, Ásbjörn, Pétur, Þórhallur og Sigurjón, en systur Lilja, Anna og Torfhildur.
Hinn 17. apríl 1937 giftist hún Bjarna Einarssyni vélsmíðameistari, d. 5. ágúst 1978. Börn þeirra eru: 1) Þorkell læknir, f. 24. apríl 1941, eiginkona hans er Ása Kristín Oddsdóttir, f. 14. apríl 1945. Börn þeirra eru a) Oddur Þór, f. 16. desember 1968. Eiginkona hans er Berglind Ósk Guðmundsdóttir, f. 1968. Synir þeirra eru Ingimar Örn, f. 1994, og Valtýr Snær, f. 1999. b) Elísabet Gerður, f. 20. september 1973. Eiginmaður hennar er Hallvarður Einar Logason, f. 1973. Börn þeirra eru Viktoría Rán, f. 2006, og Ása Þóra, f. 2009. Áður átti Elísabet Sóleyju Kristínu Harðardóttur, f. 1990. 2) Björgvin Ásbjörn læknir, f. 2. maí 1949, eiginkona hans er Kristjana Sigrún Kjartansdóttir læknir, f. 20. janúar 1949. Börn þeirra eru: a) Kjartan Bjarni, f. 9. júlí 1976. Eiginkona hans er Sylvía Kristín Ólafsdóttir, f. 1980. Börn þeirra eru Matthías Björgvin, f. 2009, og Kormákur Ólafur, f. 2012. b) Ingvar Orri, f. 10. apríl 1981. Eiginkona hans er Ragna Kjartansdóttir, f. 1980. Börn þeirra eru Bjarni Emil, f. 2009, og Jóna, f. 2016. c) Sverrir Pétur, f. 23. júlí 1984. Eiginkona hans er Álfheiður Hafsteinsdóttir, f. 1987. Börn þeirra eru Hafsteinn Björgvin, f. 2015, og Kristjana Guðrún, f. 2018. 3) Ólöf Halldóra læknir, f. 16. apríl 1958, eiginmaður hennar er Stefán Kristjánsson læknir, f. 1. janúar 1960. Börn þeirra eru: a) Unnur Elísabet, f. 11. júní 1988. Eiginmaður hennar er Haraldur Þórir Hugosson, f. 1988. Sonur þeirra er Hugo Steinn, f. 2016. b) Bjarni Kristján, f. 14. ágúst 1990, dóttir hans er Elísabet Anna, f. 2015.
Elísabet ólst upp hjá vandalausum og var einn vetur í Kvennaskólanum. Hún giftist Bjarna ung og sá um börn og bú. Í tugi ára prjónaði hún lopapeysur fyrir Íslenskan heimilisiðnað. Hún vann nokkur ár í Kjötbúðinni Borg og sá um heimilismatinn sem seldur var úr búðinni.
Útför Elísabetar fer fram frá Fossvogskapellu í dag, 10. desember 2018, klukkan 15.

Amma Beta, eins og við í fjölskyldunni kölluðum hana gjarnan, hefur fengið hvíld.  Hún lést 6 dögum eftir hundrað ár afmælið sitt.  Hún gat ekki notið þeirra merku tímamóta.

Við eignuðumst gullfallega mynd af henni ungri. Það var engin furða að Bjarni, sem hún  hafði lengi haft augastað á, sæi hvað hún var gott kvonfang og festi sér hana.

Amma Beta var afburðargreind en hafði ekki tækifæri til að stunda nám eftir eins árs setu í Kvennaskólanum. Hún lék sér að því að leysa erfiðar krossgátur og mátaði hámenntaða syni sína í skák.

Lífsbaráttan varð hörð.  Hjónin þurftu að flytja til ættingja í Landeyjum  fyrir stríð, því enga vinnu var að fá á mölinni.  Bjarni setti síðar upp járnsmíðaverkstæði við Bergstaðarstræti.  Beta sá um börn og bú. Hún var myndarleg húsmóðir og fór vel með.  Hún ræktaði kartöflur og rebbabara til heimilisins í kálgörðum, sem voru í Kringlumýri. Snemma fór hún að prjóna peysur á drengina sína. Þeir kunnu ekki að meta fínu handprjónuðu peysurnar.  Þá var eftirsóttara að eignast peysu úr búð.

Amma Beta prjónaði síðar óteljandi lopapeysur fyrir Íslenskan  Heimilisiðnað.

Elísabet Bretadrottning kom í búðina og dáðist þar að einni  peysunni ,sem hún fékk að gjöf. Henni var sagt, að nafna hennar hefði prjónað hana. Síðar kom bréf frá breska konungsembættinu með þakklæti fyrir peysuna, þar sem drottningin sagðist alltaf minnast Íslandsferðarinnar, þegar hún færi í  hana. Amma Beta og konurnar í Íslenskum Heimilisiðnaði voru mjög stoltar. Fjölskyldan naut einnig góðs af myndarskapnum og fengum við fallegar peysur frá henni, sem við kunnum vel að meta.

Þegar börnin voru orðin stálpuð fór hún að vinna í Kjötbúðinni Borg og reyndist þar góður starfskraftur. Beta og Bjarni komu sér upp sumarhúsi á gullfallegum stað í Grafningi við Þingvallavatn. Dvöldu þau þar nánast allar helgar á sumrin og nutu náttúrunnar.  Húsið, sem var nefnt Hytta, var ekki stórt, en tekið var á móti öllum með hjartahlýju og gestrisni. Við fórum þangað oft með börnin okkar. Beta lumaði alltaf á einhverju góðgæti og töfraði fram gómsæta kjúklinga á kolaofninum.

Eftir lát Bjarna fór Beta til Ólafar og Stefáns, sem voru í framhaldsnámi í Svíþjóð, til að hjálpa þeim við heimilishald og vera til staðar fyrir börnin þeirra tvö.

Hún bjó í íbúðinni sinni við Hrísateig, sem þau hjónin höfðu komið sé upp, eins lengi og hún gat. Hún var snillingur í pönnukökubakstri. Öllum, sem komu í heimsókn, var boðið upp á pönnsur. Bolludagsbollurnar með rjómasúkkulaði gleymast ekki.

Hún var lengi ern og hress.  Gekk hún iðulega frá Hrísateignum niður Laugaveginn og oft aftur til baka.

Þegar Ólöf og Stefán keyptu sér hús, fékk hún litla íbúð þar fyrir sig.  Þegar heilsan gaf sig fór hún á Eir og bjó þar til dauðadags.

Amma Beta tók mér vel, þegar eldri sonur hennar kynnti mig fyrir henni.  Ég var skólastelpa, sem kunni hvorki mikið um húshald né prjónaskap.  Hún var alltaf tilbúin til að leiðbeina mér, ef ég lagði í það að byrja að prjóna peysu eða sauma flík.  Reyndar dró hún mig oft að landi. Hún sleppti því alveg að að setja út á mig eða það, sem ég tók mér fyrir hendur og reyndi frekar að hjálpa til. Lengi hélt hún þeim sið að bjóða fjölskyldunni í mat á sunnudögum.  Eftir lát Bjarna sótti Þorkell hana  á laugardögum.  Þá var vaninn að aka niður Laugaveginn og minnast gamalla tíma áður en kvöldmaturinn var snæddur.

Þegar ég er að skrifa þessar línur á laugardegi, minnist ég og sakna heimsóknanna til hennar á Eir.  Hún var vel liðin þar eins og annars staðar.  Hún bjó yfir jafnaðargeði og var ekki gjörn á að kvarta.

Elsku amma Beta. Ég óska þér alls góðs á nýjum vegum og þakka fyrir samfylgdina hér. Megir þú ávallt vera umvafin kærleika Guðs.

Ása Kristín

Þorkell Bjarnason