Míkhaíl S. Gorbatsjov í opinberri heimsókn í Póllandi: Skynsamlegt að haldinn verði samevrópskur leiðtogafundur Varsjá, Brussel. Reuter. MÍKHAÍL S.

Míkhaíl S. Gorbatsjov í opinberri heimsókn í Póllandi: Skynsamlegt að haldinn verði samevrópskur leiðtogafundur Varsjá, Brussel. Reuter.

MÍKHAÍL S. Gorbatsjov Sovétleiðtoga var ákaft fagnað í gær er hann kom í opinbera heimsókn til Póllands, fyrstur leiðtoga Sovétríkjanna frá árinu 1972. Fjöldi fólks hafði safnast saman á flugvellinum í Varsjá og meðfram götum borgarinnar og mátti sjá spjöld á lofti þar sem lýst var yfir stuðningi við umbótastefnu Sovétleiðtogans. Gorbatsjov lýsti yfir því við komu sína að vænta mætti stórbættra samskipta ríkjanna tveggja en hann mun dvelja sex daga í Póllandi auk þess að sitja fund leiðtoga ríkja Varsjárbandalagsins. Búist er við því að atburðir á árum síðari heimsstyrjaldarinnar setji mark sitt á heimsóknina en Samstaða, hin óleyfilega hreyfing pólskra verkamanna, hefur hvatt Gorbatsjov til að létta hulunni af ýmsum þeim málum sem spillt hafi fyrir samskiptum ríkjanna.

Í ræðu sem Gorbatsjov flutti í gær í pólska þinginu lagði hann tilað haldinn yrði samevrópskur leiðtogafundur í anda Reykjavíkurfundarins til að ræða fækkun hefðbundinna vopna. "Ef til vill væri skynsamlegt að halda sam-evrópsk an Reykjavíkurfund," sagði Gorbatsjov en hann hefur oftlega vitnað til mikilvægis leiðtogafundarins íReykjavík árið 1986. Gorbatsjov hvatti ríki Atlantshafsbandalagsins til að falla frá því að flytja 72 bandarískar herþotur til Ítalíu frá Spáni árið 1991 og kvaðst reiðubúinn til að fækka sovéskum herþotum austan járntjaldsins að því skapi. Manfred Wörner, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði í gær að ekki væri unnt að ganga að þessari tillögu þar eð ríkjum NATO væri fyrst og fremst umhugað um að ná fram fækkun herliðs á landi.

Gorbatsjov lagði einnig til að ríki Varsjárbandalagsins og NATO kæmu upp sameiginlegum eftirlitsstöðvum til að draga úr líkum á því að átök blossi upp milli austurs og vesturs.

Samstaða, hin óleyfilega verkalýðshreyfing Pólverja, hvatti Gorbatsjov á sunnudag til að skýra frá leyniákvæðum griðarsáttmála Sovétmanna og Þjóðverja árið 1939. Samtökin mæltust einnig til þessað birtar yrðu upplýsingar um morð á rúmlega 4.000 pólskum liðsforingjum í Katyn-skógi á árum síðari heimsstyrjaldarinnar en margir Pólverjar telja sovésku öryggislögregluna hafa borið ábyrgð á þeim.

Sjá einnig forystugrein á miðopnu og fréttir á bls. 30.

Reuter

Pólskir námsmenn efndu til mótmæla í miðborg Varsjár í gær og var myndin tekin skömmu áður en mennirnir voru handteknir. Á borðanum til vinstri segir: "Við krefjumst þess að sovéskar hersveitir verði kallaðar heim frá Póllandi" en á hinum: "Sjálfstæði tilhanda öllum þjóðum Sovétríkjanna."