Deildarfundur félagsvísindadeildar: Hannes kennir ekki skyldunámskeið Á DEILDARFUNDI félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, sem haldinn var í gær, var samþykkt einróma tillaga fulltrúa nemenda um að Hannes Hólmsteinn Gissurarson, nýskipaður lektor í...

Deildarfundur félagsvísindadeildar: Hannes kennir ekki skyldunámskeið

Á DEILDARFUNDI félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, sem haldinn var í gær, var samþykkt einróma tillaga fulltrúa nemenda um að Hannes Hólmsteinn Gissurarson, nýskipaður lektor í stjórnmálafræði við deildina, kenni ekki skyldunámskeið á vetri komanda.

Deildarfundurinn gerði einróma samþykkt, þar sem ályktun deildarinnar frá 7. júlí er ítrekuð og einnig vísað til ályktunar háskólaráðs, þarsem ráðið segist munu athuga lagalega stöðu háskólans í málinu í því skyni að hnekkja stöðuveitingu ráðherra.

"Félagsvísindadeild minnir á að hún ákveður sjálf kennsluskrá sína, þ. á m. hvaða námskeið eru kennd og hver kennir hvert námskeið. Það má ljóst vera að deildin felur engum að kenna neitt það námskeið sem hún telur hann ekki hæfan til að kenna," segir í samþykkt fundarins. "Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefir ekki hlotið fullgildan hæfnis dóm til þess að gegna stöðu lektors í stjórnmálafræði og mun hann ekki kenna nein skyldunámskeið í greininni á vegum félagsvísindadeildar háskólaárið 1988-89," segja deildar menn.

Þórólfur Þórlindsson, forseti félagsvísindadeildar, sagði í samtali við Morgunblaðið að það yrði að ráðast hvaða námskeið Hannes yrði látinn kenna, þegar og ef hann kæmi til starfa við deildina. Þórólfur sagði bæði koma til greina að Hannes tæki að sér einhver þeirra valnám skeiða, sem þegar hefðu verið ákveðin í námsskrá, og að búin yrðu til ný valnámskeið. Þórólfur sagði að þótt væntanlega yrði að fá stundakennara til þess að annast kennslu skyldunámskeiðanna væri þó möguleiki að halda kostnaði deildarinnar vegna kennslunnar óbreyttum.

Birgir Ísleifur Gunnarsson, menntamálaráðherra, hefur enn ekki viljað tjá sig um ályktun háskólaráðs um ráðningu Hannesar. Að sögn Guðmundar Magnússonar, aðstoðarmanns menntamálaráðherra, er hinsvegar væntanleg ýtarleg greinargerð frá ráðuneytinu í dag, þar sem ályktun háskólaráðs verður svarað lið fyrir lið.