Evrópuráðið: Framkvæmdastjórinn í heimsókn Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, hr. Marcelino Oreja og frú komu hingað til lands á sunnudag í opinbera heimsókn í boði utanríkisráðherra. Í gærmorgun átti Marcelino Oreja viðræður við Steingrím Hermannsson utanríkisráðherra og Þorstein Pálsson forsætisráðherra, en síðdegis í gær hitti hann að máli Birgi Ísleif Gunnarsson menntamálaráðherra og Jón Sigurðsson dómsmálaráðherra. Jafnframt heimsótti Oreja Alþingi í boði Þorvalds Garðars Kristjánssonar forseta Sameinaðs þings og ræddi hann þar meðal annars við fulltrúa Íslands á ráðgjafarþingi Evrópuráðsins. Síðdegis í gær átti svo framkvæmdastjórinn viðræður við Vigdísi Finnbogadóttur forseta Íslands.
Í dag mun Marcelino Oreja og kona hans heimsækja Vestmannaeyjar og Þingvelli, en þau munu halda af landi brott á morgun.
Sjá viðtal við Oreja á miðopnu.
Morgunblaðið/Sverrir
Marcelino Oreja framkvæmdastjóri Evrópuráðsins.