Ráðherra Samfélagið getur ekki horft upp á að sjá ungmenni fara út af sporinu, segir Ásmundur Einar.
Ráðherra Samfélagið getur ekki horft upp á að sjá ungmenni fara út af sporinu, segir Ásmundur Einar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Mál barna og ungmenna sem eru í vanda og fá ekki aðstoðina sem þarf, eru erfiðustu málin sem hafa komið inn á mitt borð hér,“ segir Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Mál barna og ungmenna sem eru í vanda og fá ekki aðstoðina sem þarf, eru erfiðustu málin sem hafa komið inn á mitt borð hér,“ segir Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra. „Fyrstu mánuði mína í embætti ræddi ég við fulltrúa fjölda samtaka sem vinna að velferð barna til þess að fá innsýn í málaflokkinn. Einnig komu hingað til mín foreldrar barna í neyslu og stundum líka ungt fólk sem hafði náð tökum á neyslu sinni og vildi segja sína sögu. Þetta voru lærdómsrík samtöl sem reyndu verulega á, en sögðu mér líka að samfélagið þarf að gera betur í stuðningi við börn og fjölskyldur þeirra.“

Ráðuneyti til fyrra horfs

Nú um áramót var sú breyting gerð að velferðarráðuneytinu var skipt upp og til fyrra horfs; annars vegar ráðuneyti heilbrigðismála og hins vegar félagsmála. Til að skerpa á málum er síðarnefnda ráðuneytið einnig kennt við barnamál og þar stendur nú yfir vinna þar sem reglur og umgjörð alls starfs og þjónustu við börn er í endurskoðun.

Í þessu tilliti eru lög er varða börn og barnavernd til endurskoðunar í ráðuneytinu. Til að fá heildstæðari nálgun á málaflokkinn þá er þessi vinna undir forystu nefndar þingmanna sem í sitja fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Þá verður myndaður stýrihópur fulltrúa allra ráðuneyta sem fjalla um málefni barna, sem ásamt sveitarfélögum og fleiri er ætlað að tryggja samræmda framkvæmd og þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra á öllum sviðum og markvissa eftirfylgni með þeim aðgerðum.

Brjóta niður múra

Fyrstu tillagna frá þessum hópum er að vænta á vordögum og gert er ráð fyrir því að frumvörp til breytinga á lögum ásamt stefnu Íslands í málefnum barna, verði lögð fram á Alþingi á haustþingi í ár. Í ráðuneytinu sjálfu verða málefni barna svo rauður þráður í allri stefnumörkun.

„Ég tel mikilvægt að brjóta niður þá múra sem eru í kerfinu og á milli stofnana. Hvarvetna í vestrænum samfélögum eru félagsleg velferðarmál ofarlega á baugi og þegar börn eiga í hlut er mikilvægt að taka sem fyrst á þeirra málum. Hvort sem barn glímir við líkamleg veikindi, er að dragast aftur úr í skólanum, er í vímuefnaneyslu eða annað. Kerfið þarf að geta tekið á svona málum sem fyrst; ella getur vandinn undið upp á sig. Valdið barninu og aðstandendum þess þjáningu og samfélaginu miklum kostnaði á síðari stigum,“ segir Ásmundur Einar og heldur áfram:

„Almennt talað þá er gott að vera vera barn á Íslandi, sé litið til þátta eins og lágrar tíðni ungbarnadauða, aðgengis að heilbrigðisþjónustu, menntun og annarra þátta. Þessi jákvæðu atriði breyta samt ekki því að gera má betur. Mér finnst jafnframt mikilvægt að börn fá betri tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þannig var fyrsti fundurinn sem ég tók á nýja árinu með tveimur ungum stúlkum sem eru í ráðgjafarhóp umboðsmanns barna og höfðu svo sannarlega margt til málanna að leggja.“

Vilji til góðra verka

Í útvarpsprédikun á jóladag sagði sr. Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands að öll börn ættu að eiga greiðan aðgang að fagfólki þegar vandi steðjaði að. Í ávarpi sínu á gamlárskvöld vék Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að réttindum barna og í tölu sinni á nýársdag gerði Guðni Th. Jóhannsson forseti Íslands kvíða, kulnun og streitu að umtalsefni. Einnig að sjálfsvíg eru helsta dánarorsök ungra karlmanna og mörg ungmenni háð fíkniefnum og ávanalyfjum.

„Já, ég veitti þessum ávörpum athygli og tek undir þau sjónarmið um málefni barna sem þar komu fram. Það er ánægjulegt að finna mikinn stuðning og vilja til samvinnu og góðra verka í þágu barna sem til staðar er í samfélaginu, hjá almenningi, fagfólki sem og í stjórnmálunum. Við verðum og viljum gera betur; samfélagið getur ekki horft upp á að sjá ungmenni fara út af sporinu svo sem að í viku hverri látist einn af völdum neyslu lyfja eða fíkniefna eins og gerðist á síðasta ári.“