Þessa dagana er svokölluð „10 ára áskorun“ vinsæl á samfélagsmiðlum. Hún snýst um að birta myndir af sér frá því í dag og fyrir áratug síðan.

Þessa dagana er svokölluð „10 ára áskorun“ vinsæl á samfélagsmiðlum. Hún snýst um að birta myndir af sér frá því í dag og fyrir áratug síðan. Fólk virðist skiljanlega almennt vilja sýna fram á að ásýndin sé hreint ekki verri en fyrir 10 árum síðan, jafnvel bara betri ef eitthvað er. Það er skiljanlegt því öll viljum við jú trúa því að við nýtum í það minnsta eitthvað af tímanum í að verða örlítið betri.

Ef Ísland tæki nú þátt í 10 ára áskoruninni með öllum hinum sæjum við kannski ekki mikinn mun í fljótu bragði, ekki úr lofti a.m.k. Tilfinningin er helst sú að myndin frá deginum í dag sýndi meiri rigningu og rok óháð árstíðum. En myndirnar allar eru auðvitað ekki nema birting á allri þeirri miklu sjálfsvinnu sem við höfum ástundað. Ef grannt er skoðað sjást miklar breytingar.

Fyrir 10 árum var Ísland að reyna að standa af sér storm með lítið annað en íslenska bjartsýni og æðruleysi að vopni. Eitt af því fáa sem þjóðin var sammála um að gleðjast yfir voru landsliðsdrengirnir í handboltanum, sem gerðu sitt til að bæta ástandið með því að færa til landsins eðalmálma. Það er rólegra um að litast á Austurvelli nú en þá. Þjóðin ætti að geta verið sammála um að Ísland kemur nokkuð vel út úr áskoruninni umræddu, við höfum styrkst, efnast, verið skynsöm og dugleg, sett okkur alls kyns markmið, staðið við mörg þeirra og meira að segja grennst.

Það er ekki þar með sagt að Ísland sé alfarið útskrifað úr líkamsræktinni frekar en nokkur annar. Svo eru sumir ósáttir við myndina sem tekin er í dag. Stundaróánægja dagsins þýðir samt ekki endilega að aðferðafræði sjálfsvinnunnar sé ómöguleg. Þess vegna er tíu ára áskorunin svo gagnleg. Hún setur hluti í samhengi og getur sagt okkur hvort aðferðirnar sem við notum séu árangursríkar. Slíkur samanburður getur vísað okkur veginn um það hvort við viljum beygja alfarið út af sporinu eða halda okkur á sömu braut. Þetta á jafnt á við um mataræði og hreyfingu en líka efnahagsstefnu og kjarabaráttu.

Einn af nýju landsliðsdrengjunum okkar, Teitur Örn Einarsson, er einn þeirra fjölmörgu sem tóku þátt í 10 ára áskoruninni. Það er ekki bara af því ég er svo montin að hann sé frændi minn að mér finnst hans áskorun ein sú allra besta. Á báðum myndunum eru hann og franska handboltahetjan Nikola Karabatic; á þeirri fyrri stendur hann lítill snáði með stjörnur í augum við hlið hetjunnar sem hann nær upp í mitti og svo er hin 10 árum síðar þar sem hann sjálfur etur kappi við hetjuna frá forðum daga á vellinum á heimsmeistaramóti í handbolta. Kannski snýst nefnilega heila málið ekki um það hvar við vorum fyrir tíu árum, eða það sem angrar okkur í dag, heldur hvert við getum farið ef við höldum rétt á spöðunum og hvar við viljum vera eftir tíu ár. hildurs@althingi.is

Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.