Á sjúkralistanum Kári segir forráðamenn Barcelona sjá vel um sitt fólk.
Á sjúkralistanum Kári segir forráðamenn Barcelona sjá vel um sitt fólk. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Kristján Jónsson kris@mbl.is „Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hvenær ég verð leikfær en maður reynir að gera sem mest í endurhæfingunni. Ég þurfti að bíða nokkuð til að leyfa beininu og örinu að gróa. Ég vonast eftir því að geta farið að æfa af krafti eftir tvær vikur eða svo en þá kemur í ljós hvernig fæturnir bregðast við,“ sagði Kári Jónsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, þegar Morgunblaðið tók púlsinn á honum.

Körfubolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

„Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hvenær ég verð leikfær en maður reynir að gera sem mest í endurhæfingunni. Ég þurfti að bíða nokkuð til að leyfa beininu og örinu að gróa. Ég vonast eftir því að geta farið að æfa af krafti eftir tvær vikur eða svo en þá kemur í ljós hvernig fæturnir bregðast við,“ sagði Kári Jónsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, þegar Morgunblaðið tók púlsinn á honum.

Tveir mánuðir eru liðnir síðan Kári fór í aðgerðir á báðum fótum og er nú í endurhæfingu í Barcelona en hann er samningsbundinn Katalóníustórveldinu. Kári segir að læknar og sjúkraþjálfarar hafi búist við því að hann yrði frá keppni í alla vega þrjá mánuði en aðgerðirnar voru framkvæmdar í lok nóvember.

„Ég er nú kominn á það stig að geta hlaupið og fæ að skjóta aðeins á körfuna. Ég er látinn prófa mig smám saman áfram en þetta er þolinmæðisvinna, sérstaklega þar sem um báða fætur er að ræða. En þetta gengur nokkuð vel og ég er á áætlun og mögulega aðeins á undan henni.“

Hafði slæm áhrif á hásinina

Kári varð í raun ekki fyrir meiðslum heldur þurfti að grípa inn í vegna vaxtar hælbeins. Hann æfði og spilaði kvalinn síðasta haust en beinið var farið að hafa áhrif á hásin. Ef ekkert hefði verið gert hefði ferill hans í körfuboltanum orðið stuttur.

„Tekið var af hælbeini sem nuddaðist utan í hásinina og olli bólgum og verkjum. Var í raun beint fyrir aftan hásinafestina. Einnig var fjarlægð sin neðst í hásinafestunni en það er nokkuð merkilegt að mér skilst að ég þurfi ekki á henni að halda. Með þessu er búið að létta álaginu af hásinni auk þess sem hreinsað var í kringum þetta svæði en ekkert var í raun gert við hásinina sjálfa. Var þetta gert á báðum fótum og var nauðsynlegt. Sársaukinn var það mikill.“

Kári samdi við Barcelona síðasta sumar með það fyrir augum að leika fyrir varalið félagsins í spænsku b-deildinni og er samningurinn til eins árs. Tímabilið var nýhafið þegar sársaukinn fór að gera Kára erfitt fyrir. Þótt óheppilegt sé fyrir Kára að vera ófær um að spila þegar hann er að reyna að sanna sig hjá sigursælu liði, þá er lán í óláni að vera í meðhöndlun hjá félagi sem er frægt fyrir að hlúa vel að sínu fólki.

„Það er ástæða fyrir því að þetta er einn virtasti klúbbur í Evrópu. Maður sér hvar sem maður kemur hér að borin er virðing fyrir þeim og orðspor þeirra er gott. Þeir sjá mjög vel um sitt fólk. Ég er mjög þakklátur fyrir hvernig forráðamenn félagsins hafa brugðist við því ég er í svakalega góðum höndum. Þeir hafa sýnt mér þolinmæði og ég hef fengið mikla hjálp. Ég vonast eftir því að geta klárað tímabilið hérna með stæl og svo verður bara að koma í ljós hvað gerist.“

Ekki rokið beint í aðgerð

Kári náði að beita sér á undirbúningstímabilinu hjá Barcelona og í æfingaferð áður en spænsku deildirnar hófust. Var eitt og annað reynt áður en ákveðið var að framkvæma aðgerðina.

„Við vildum ekki fara í aðgerð einn, tveir og bingó. Ég náði gjarnan að jafna mig fyrir næstu æfingu en svo kom að þeim tímapunkti að ég náði því ekki lengur. Þá var þetta orðinn vítahringur. Ýmsar meðferðir voru því reyndar en það gekk ekki upp,“ sagði Kári og hann spilaði til að mynda kvalinn þegar Ísland mætti Portúgal ytra í forkeppni EM. Er það athyglisvert því Kári skoraði 11 stig í röð í síðari hálfleik og stimplaði sig inn fyrir alvöru sem A-landsliðsmaður.

Kári lætur vel af sér í borginni vinsælu og segist hafa ágæta íbúð til umráða sem sé skammt frá æfingasvæði liðsins.