Hilmar Gunnlaugsson
Hilmar Gunnlaugsson
Eftir Hilmar Gunnlaugsson: "Lögfesting eða höfnun þriðja orkupakkans mun engu breyta um þá stöðu. Við búum við þetta frelsi hvernig sem þriðja orkupakkanum reiðir af."

Þegar menn sjá tilefni til að gera viðmælendum sínum upp afstöðu, þá er umræðan farin að snúast um tilfinningar. Það virkar stundum. Sérstaklega þegar menn hafa áunnið sér virðingu í störfum sínum og eiga því málefnalega inneign.

Tómas Ingi Olrich var einn tólf þingmanna sem stóðu bæði að setningu laga um að meginmál EES-samningsins skyldi hafa lagagildi hér á landi árið 1993 og um innleiðingu frelsis í raforkuviðskiptum árið 2003. Það er því eðlilegt að hlustað sé, þegar hann mælir.

Það hryggir mig því að Tómas Ingi Olrich hafi í grein sinni í þessu blaði þann 23. janúar sl. séð tilefni til að gera mig að sérstökum Evrópusambandssinna, þegar hann á að vita betur. Hryggir mig meira en að hann hafi í reynd sagt mig latan eða í það minnsta verklausan.

Tómas Ingi tekur útgangspunkt í orðum mínum í grein sem birtist í Bændablaðinu um garðyrkjubændur og „fjórða“ orkupakka Evrópusambandsins.

Nú er ekki víst að lesendur Morgunblaðsins hafi lesið Bændablaðið. Í grein minni sagði: Ég hygg að vetrarpakkinn svokallaði, sem einnig er kallaður hreini orkupakkinn og er í raun fjórði orkupakki Evrópusambandsins, komi með vísa að reglum sem henti garðyrkjubændum. Geri kröfur til dreifiveitna vegna þeirrar þróunar að samblöndun hugtakanna neytandi og framleiðandi er orðin að veruleika með nýju hugtaki, sem er á ensku: producer + consumer = prosumer. Geri ráð fyrir smáum orkusamfélögum. Nái utan um tækninýjungar um geymslu rafmagns. Sú byltingarkennda þróun sem virðist yfirvofandi í orkumálum felur í sér tækifæri. Evrópa er í forystu þessarar þróunar. Forystuhlutverk Evrópu er afleiðing af þeirri þróun sem orðið hefur í regluverki Evrópu í orkumálum síðustu áratugina. Ég tel líklegt að fyrir garðyrkjubændur og landeigendur almennt, sé yfirvofandi þróun Evrópuréttarins í orkumálum tækifæri miklu frekar en ógnun. Þeir hafi því sérstaklega mikla hagsmuni af málefnalegri umræðu um þessi mál.

Með þessu var hvatt til málefnalegrar umræðu og kannast ég ekki við að hafa setið aðgerðarlaus á biðstofunni í þeim efnum. Kom meðal annars að stofnun ÁORKU, félags lögfræðinga með áhuga á orkurétti, á síðasta ári og gegni nú formennsku í því félagi. Tilgangur félagsins er m.a. að efla málefnalega umræðu um orkurétt. Þar er af mörgu að taka. Þriðji orkupakkinn er bara eitt þeirra atriða. Það er erfitt að sitja hjá, þegar ítrekað er logið upp á hann og hann sagður snúast um eitthvað allt annað en hann gerir í reynd. Þess vegna steig ég fram í þessa umræðu með skrifum í Bændablaðið.

En aftur að málefninu.

Ef hafna á þriðja orkupakkanum, gerum það þá vegna raunverulegs hagsmunamats.

Í umræðum á Alþingi 1992-93 rökstuddi Tómas Ingi lögfestingu EES-samningsins með því að hann teldi ávinninginn meiri en ágallana. Þá fór fram valdframsal sem svo sannanlega reyndi á stjórnarskrá okkar. Síðan þá hefur nokkrum sinnum farið fram valdframsal sem teygir enn frekar á stjórnarskrá okkar, s.s. í tengslum við Schengen-samkomulagið, lögfestingu núgildandi samkeppnislaga árið 2005, þátttöku okkar í Flugöryggisstofnun Evrópu árið 2011, innleiðingu reglna um fjármálamarkaðinn árið 2012 og við innleiðingu persónuverndarlöggjafarinnar árið 2018. Er þetta óheillaþróun eða óhjákvæmileg afleiðing þess að vera þátttakandi í samfélagi þjóðanna? Sú umræða er mikilvæg. Tökum hana.

Slík umræða hefur vissulega eitthvað með orkumál að gera, enda eru þau hluti af EES-samningnum. En það er ómálefnalegt að spila á tilfinningar þjóðarinnar til orkuauðlinda sinna og gera þriðja orkupakkann að vopni í þeirri umræðu. Það sjáum við þegar við gefum okkur tíma til að íhuga hvað raunverulega felst í þriðja orkupakkanum.

Í honum er einkum verið að breyta reglum um eftirfarandi atriði: 1) sjálfstæði landsbundinna eftirlitsaðila (Orkustofnun), 2) eftirlit með raforkuflutningi milli landa (ACER/ESA), 3) uppskiptingu raforkufyrirtækja (og Ísland hefur samið sig frá þeim kröfum), 4) valkosti við kröfuna um sjálfstæð flutningsfyrirtæki raforku, sem ekki eiga við á Íslandi.

Ef andstaða við þriðja orkupakkann snýst í reynd um að vinda ofan af ákvörðunum sem teknar voru við innleiðingu fyrsta orkupakkans árið 2003, viðurkennum það þá. Eins og fram kemur í frumvarpi er varð að raforkulögum árið 2003, þá byggðist frumvarpið á tilskipun Evrópusambandsins og vinnu stjórnvalda frá 1996. Á árinu 1998 var samþykkt þingsályktunartillaga um framtíðarskipan orkumála (122. löggjafarþing) þar sem Alþingi fól iðnaðarráðherra að ráðast í vinnu með það að markmiði taka upp að evrópskri fyrirmynd markaðsumhverfi á sviði raforkuviðskipta. Það var vandað til verks og meðvitað verið að innleiða frelsi í viðskiptum með raforku. Lögfesting eða höfnun þriðja orkupakkans mun engu breyta um þá stöðu. Við búum við þetta frelsi hvernig sem þriðja orkupakkanum reiðir af.

Úr biðstofu 2009 gerðanna liggja nokkrar leiðir. Sumar troðnar, aðrar ekki. Sjálfstæði og fullveldi snúast um að geta tekið ákvörðun sem hentar okkar hagsmunum best. Tökum ákvörðun á grundvelli staðreynda og hagsmunamats. Ræðum málefnin. Ekki fólkið.

Höfundur er lögmaður og LLM í orkurétti.