Malarvegur Rykstrókur stendur aftur úr bíl á Reykjavegi.
Malarvegur Rykstrókur stendur aftur úr bíl á Reykjavegi. — Ljósmynd/Vegagerðin
Matsnefnd eignarnámsbóta úrskurðaði eigendum Torfastaða í Bláskógabyggð tæplega 8 milljóna króna bætur fyrir land úr jörðinni sem fer undir Reykjaveg við endurbætur á veginum, auk málskostnaðar.

Matsnefnd eignarnámsbóta úrskurðaði eigendum Torfastaða í Bláskógabyggð tæplega 8 milljóna króna bætur fyrir land úr jörðinni sem fer undir Reykjaveg við endurbætur á veginum, auk málskostnaðar. Er það hærra verð en Vegagerðin hafði boðið en aðeins lítið brot af kröfum eigendanna. Ólafur Einarsson, annar eigandi Torfastaða, á ekki von á því að eigendurnir muni una úrskurðinum. Enn hafi þó ekki verið ákveðið að leggja málið fyrir dómstóla.

Vegagerðin er að undirbúa endurbætur á Reykjavegi í Bláskógabyggð, gömlum malarvegi. Verður hann breikkaður og malbikaður. Vegagerðin náði ekki samningum við eigendur Torfastaða sem eiga hluta af landinu og var það tekið eignarnámi.

Kröfðust 87 milljóna

Vegagerðin bauð landeigendum 650 þúsund kr. á hektara. Eigendur Torfastaða kröfðust 4,7 milljóna á hektara, samtals 39 milljóna kr. fyrir þeirra land og spildu sem ágreiningur ríkir um eignarhald á. Miðaðist krafan við söluverð sumarbústaðalands úr jörðinni. Auk þess kröfðust eigendurnir 2,5 milljóna í bætur fyrir tímabundið rask og ónæði vegna framkvæmdanna og nýtingu á vegslóða. Þá yrði Vegagerðinni gert að greiða 46 milljónir kr. vegna nýtingar jarðefna úr landi Torfastaða. Krafan hljóðaði samtals upp á 87,5 milljónir kr. Matsnefndin bendir á að landið sé beitarland í um 100 metra hæð yfir sjávarmáli. Ekki verði séð að lagning vegar hafi neikvæð áhrif á sumarhúsabyggð.

Telur nefndin að hæfilegar bætur fyrir hvern hektara lands séu 800 þúsund krónur, eða alls rúmar 6 milljónir fyrir 7,67 hektara úr landi Torfastaða og tæpar 2 milljónir fyrir 2,18 hektara í hinu umdeilda landi. Bætur fyrir rask og ónæði og afnot af vegslóða eru metnar 1,5 milljónir kr.

Nefndin bendir á að þegar ríkið seldi núverandi eigendum Torfastaða jörðina hafi það haldið eftir rétti til efnistöku umfram heimilisþörf. Ríkiseignir hafi heimilað Vegagerðinni efnistökuna. Er því kröfu um gjald fyrir efnistöku hafnað. helgi@mbl.is