Tveir fulltrúar af þremur sem sitja í siðanefnd Alþingis hafa óskað eftir því að fjalla ekki um hið svonefnda Klausturmál.

Tveir fulltrúar af þremur sem sitja í siðanefnd Alþingis hafa óskað eftir því að fjalla ekki um hið svonefnda Klausturmál. Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, hefur ákveðið að hætta í nefndinni, en sú ákvörðun tengist málinu ekki. Hinn fulltrúinn, Salvör Nordal, ákvað að koma ekki að málinu vegna anna í embætti sínu sem umboðsmaður barna.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, staðfesti þetta í samtali við mbl.is í gær, en fyrst var greint frá ákvörðununum í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær. Ljóst er að Margrét Vala Kristjánsdóttir, varamaður Hafsteins, tekur sæti hans í siðanefndinni. Þá liggur fyrir tillaga um staðgengil Salvarar en forsætisnefnd Alþingis mun ræða hana á fundi sínum í dag.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis, mun áfram sitja sem formaður siðanefndarinnar og fjalla sem slíkur um Klausturmálið þegar því verður vísað til nefndarinnar.