Fróðleiksfús Hinn franski Macron og Brigitte kona hans kynntu sér menningarminjar í Egyptalandi um helgina.
Fróðleiksfús Hinn franski Macron og Brigitte kona hans kynntu sér menningarminjar í Egyptalandi um helgina. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimur á fleygiferð! Marserandi hermenn í St. Pétursborg minntust tímamóta í stríðssögunni. Hans heilagleiki er hins vegar friðelskandi maður, og sama gildir um Friðrik krónprins og Frakklandsforseta.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Í Danmörku var þjóðhátíðarstemning á sunnudaginn eftir að karlalandslið Dana í handknattleik hafði lagt Norðmenn að velli í úrslitaleik HM í handbolta. Leikurinn var háður í Herning á Jótlandi og urðu lokatölur 31:22. Danir brostu breitt að leik loknum, svo sem Friðrik krónprins sem með sinni fjölskyldu kom á leikinn og hafði gaman af. Sætir sigrar í íþróttum eru vítamínsprauta nú um hávetur, auk heldur sem þeir vekja heilbrigt þjóðarstolt.

Í vöggu heimsmenningar

Stundum er sagt að vagga heimsmenningarinnar sé í Egyptalandi. Þar má víða sjá og finna mörg þúsund ára gamlar menningarminjar, sem vekja með fólki mun fleiri spurningar en nokkru sinni verður svarað. Emmanuel Macron Frakklandsforseti er þessa dagana á ferðinni í Egyptalandi og skoðaði þá meðal annars pýramídana í Giza; þau undraverðu mannvirki sem enginn veit hvernig reisa mátti. Í erlendum fréttaskeytum er tekið fram að þarna hafi Macron verið á meðan bullsýður á öllu í Frakklandi – og gulvestungar krefjast réttlætis.

Austur í Rússlandi sýndi herinn mátt sinn og megin um helgina, og þar var efnt til sýningar í tilefni af því að 75 ár voru liðin frá því umsátrinu um Leníngrad lauk. Í dag er reyndar talað um St. Pétursborg, sem er vinsæll áfangastaður ferðalanga frá Íslandi.

Áhrifamikill páfi

Að lokum segir hér af ferðum Frans páfa, sem var í Panama til þess að kynna sér kristindóminn þar í landi. Sannarlega er páfinn ekki valdamaður en um áhrifamátt hans á mannlíf og málefni verður þó ekki deilt. Er þekktur fyrir að tala beint inn í aðstæður á hverjum stað og tíma – og blanda geði meðal alþjóðar. Í Panama heimsótti páfinn meðal annars heimili fyrir HIV-smituð ungmenni. Vakti þessi húsvitjun hans heilagleika mikla athygli, meðal annars hjá ljósmyndurum fréttaveitunnar AFP en myndirnar hér á síðunni eru úr þeirra ranni.