Shooters-mál Saksóknari fer fram á nokkurra ára fangelsi yfir Wisock.
Shooters-mál Saksóknari fer fram á nokkurra ára fangelsi yfir Wisock. — Morgunblaðið/Eggert
Saksóknari í Shooters-málinu svonefnda fór fram á að Artur Pawel Wisock, sem er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás og að hafa hrint dyraverði á skemmtistaðnum Shooters 26. ágúst, yrði dæmdur í nokkurra ára fangelsi. Sagði saksóknari í samtali við mbl.

Saksóknari í Shooters-málinu svonefnda fór fram á að Artur Pawel Wisock, sem er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás og að hafa hrint dyraverði á skemmtistaðnum Shooters 26. ágúst, yrði dæmdur í nokkurra ára fangelsi. Sagði saksóknari í samtali við mbl.is í gær að hann hefði ekki nefnt ákveðinn árafjölda heldur vísað til fyrri dómafordæma varðandi refsingu.

Þá var farið fram á sex til níu mánaða fangelsi að lágmarki yfir Dawid Kornacki fyrir þátt hans í árásinni á dyravörðinn. Aðalmeðferð í máli Wisocks og Kornacki lauk í gær, en þeir voru ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa í félagi við tvo óþekkta karlmenn veist með ofbeldi að dyraverði á Shooters, en hann lamaðist fyrir neðan háls eftir árásina.

Saksóknari vísaði meðal annars til fordæmis í máli frá árinu 2015, þar sem tveir árásarmenn voru dæmdir í fjögurra ára fangelsi fyrir að hafa greitt fórnarlambi sínu þrjú hnefahögg sem höfðu varanlegar afleiðingar og sagði saksóknari að miðað við þann dóm ætti refsing Wisocks að vera þyngri, miðað við þær afleiðingar sem árásin á dyravörðinn hafði.