Hluthafafundur Spalar 2019 Unnið er að því að leggja félagið niður.
Hluthafafundur Spalar 2019 Unnið er að því að leggja félagið niður. — Ljósmynd/Spölur
Áður en langt um líður verður lokið við að gera upp við þá sem skilað hafa veglyklum og afsláttarmiðum til Spalar. Reiknað er með að um leið verði allar inneignir á áskriftarreikningum greiddar út. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Spalar.

Áður en langt um líður verður lokið við að gera upp við þá sem skilað hafa veglyklum og afsláttarmiðum til Spalar. Reiknað er með að um leið verði allar inneignir á áskriftarreikningum greiddar út. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Spalar.

Búið var að gera upp við tæplega 23 þúsund viðskiptavini Spalar þann 18. janúar síðastliðinn og endurgreiða þeim samtals um 330 milljónir króna. Þá höfðu 72% inneigna hjá félaginu verið greidd út. Viðskiptavinirnir höfðu ýmist átt inneign á áskriftarreikningum hjá Speli eða fengu endurgreitt fyrir veglykla og afsláttarmiða.

Þeir sem enn eru með veglykla eða afsláttarmiða eiga áfram kröfu á Spöl. Tilkynnt verður um formlegan kröfulýsingar- og innköllunarfrest síðar á árinu í tengslum við ákvörðun og tilkynningu um að slíta Speli ehf.

Hlutafélagið Spölur var stofnað 25. janúar 1991 á Akranesi. Speli hf. var breytt í eignarhaldsfélag 1995 sem síðan hafði það hlutverk að eiga eina hlutabréfið í Speli ehf. Þetta var gert til að auðvelda veðsetningu hlutafjár. Hluthafar héldu upp á 28 ára afmæli Spalar með því að renna eignarhaldsfélaginu inn í einkahlutafélagið Spöl. Eitt Spalarfélag verður því starfandi þar til yfir lýkur. Hluthafar í eignarhaldsfélaginu eignast allt hlutafé í einkahlutafélaginu í sömu hlutföllum.

Umferð um göngin hefur aukist

Umferð í Hvalfjarðargöngum hefur aukist frá því að gjaldheimtu var hætt. Þetta kom fram í skýrslu stjórnar Spalar á hluthafafundinum. Alls fóru liðlega tvær milljónir ökutækja í gegnum göngin á fyrstu níu mánuðum ársins 2018, þ.e. til loka rekstrartíma Spalar, og var 2% meiri en sömu mánuði 2017. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni um umferðina í október-desember 2018 var heildarumferðin í fyrra 2.625.206 ökutæki en var 2.545.625 ökutæki árið 2017. Umferðin í fyrra var því um 3,1% meiri í fyrra en í hittifyrra. Ljóst er að umferðin jókst þegar gjaldheimtu var hætt um mánaðamót september og október 2018. Það þótti vera fyrirsjáanlegt, að sögn Spalar, og í samræmi við reynsluna t.d. frá Noregi. gudni@mbl.is