Rannsóknir Björn Gunnarsson um borð í Bjarna Sæmundssyni í rannsóknaleiðangri 2016, á töluskjánum má sjá makrílegg á ýmsum þroskastigum.
Rannsóknir Björn Gunnarsson um borð í Bjarna Sæmundssyni í rannsóknaleiðangri 2016, á töluskjánum má sjá makrílegg á ýmsum þroskastigum.
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Í niðurstöðum skýrslu um hrygningu makríls er sýnt fram á að makríll klekst út, vex og dafnar á íslensku hafsvæði þó aðeins sé um lítið brot af heildarhrygningu makríls að ræða.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Í niðurstöðum skýrslu um hrygningu makríls er sýnt fram á að makríll klekst út, vex og dafnar á íslensku hafsvæði þó aðeins sé um lítið brot af heildarhrygningu makríls að ræða. Jafnframt er dregin sú ályktun að ungviði makríls dvelji á Íslandsmiðum yfir vetrartímann og uppvaxtarsvæði makríls séu að stækka. Björn Gunnarsson, sjávarlíffræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir það athyglisvert að einhver ár hafi makríll klakist og vaxið upp innan íslenskrar lögsögu. Mest hefur fundist af makrílungviði undan suðausturströndinni, mest árin 2010 og 2014.

Rannsóknin var unnin af sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar í samvinnu við Háskóla Íslands. Stuðst var við niðurstöður úr fjölþjóðlegum rannsóknarleiðöngrum á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) á hrygningu makríls í Norðaustur-Atlantshafi árin 2010 og 2013.

Nýhrygnd egg suður af Eyjum

Í lok júní 2010 var fjallað um hrygningu makríls í íslenskri lögsögu í Morgunblaðinu. Í eggjaleiðangri 2013 fundust makrílegg í enn meiri mæli í íslenskri lögsögu og mun vestar og norðar en áður hafði sést. Þá fundust nýhrygnd egg um 40 mílur suður af Vestmannaeyjum.

Árið 2016 var á ný farið í eggjaleiðangur og í maímánuði höfðu Færeyingar hafsvæðið suðaustur af landinu á sínu verksviði. Þéttleiki makríleggja var mestur við lögsögumörkin suðaustur af landinu og hrygningin þar meiri heldur en nokkru sinni áður. Færeyingar náðu hins vegar ekki að mæla núllpunkt í vestur, sem þótti benda til að hrygningin hefði teygt sig vel inn í íslenska lögsögu.

Á þriggja ára fresti

Farið er í þessa evrópsku eggjaleiðangra á þriggja ára fresti og er verkefni ársins að hefjast við Spán og Portúgal. Ísland hafði tilkynnt þátttöku og var áætlað að fara í verkefnið með vorinu.„Vegna niðurskurðar hefur verkefnið hins vegar verið slegið af af hálfu Hafrannsóknastofnunar,“ segir Björn.

Hann segir það bagalegt vegna þess að eggjaleiðangrar skili mikilsverðum upplýsingum og breytingar séu að verða á göngum makríls. Þannig hafi minna af makríl gengið inn í íslenska lögsögu í fyrra heldur en árin á undan og síðustu tvö árin hafi ungviði ekki sést í makrílafla.

Beinar veiðar á makríl hófust hér við land árið 2007 og áratuginn á eftir gekk makríll bæði norðar og vestar en áður og magnið jókst. Þetta er talið tengjast hlýnun sjávar og þéttleikaháðum áhrifum samfara stækkun stofnsins.

Makríllinn byrjar að hrygna í febrúar við strendur Spánar og Portúgals og síðan flyst hrygningin smám saman norður með Evrópu fram á vor með hækkandi hitastigi. Hrygningin nær venjulega hámarki í apríl-maí úti fyrir vesturströnd Írlands og suðvesturströnd Englands, en á sama tíma er töluverð en dreifðari hrygning allt frá Biskajaflóa og norður fyrir Færeyjar.

Hafstraumar kortlagðir

Á nyrstu svæðunum hefst hrygningin seinna og stendur fram í júlí. Frá árinu 2004 hefur orðið vart við makrílungviði við suður- og vesturströnd Íslands, segir í kynningu á niðurstöðum skýrslu um hrygningu makríls á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.

Í rannsókninni voru hafstraumar við suðurströnd landsins kortlagðir með aðstoð hafstraumalíkansins CODE sem þróað hefur verið við Háskóla Íslands. Makrílseiði af Íslandsmiðum voru aldursgreind og líkt var eftir reki ungviðis frá veiðisvæði að klak- og hrygningarsvæði með því að reikna út rek með straumum aftur á bak í tíma.