[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Janúar Kristján Jónsson kris@mbl.is Baldri Þór Ragnarssyni þjálfara, og öðrum forráðamönnum Þórs í Þorlákshöfn, tókst vel upp þegar þeir settu saman leikmannahóp karlaliðs félagsins í körfuknattleik á þessu keppnistímabili.

Janúar

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Baldri Þór Ragnarssyni þjálfara, og öðrum forráðamönnum Þórs í Þorlákshöfn, tókst vel upp þegar þeir settu saman leikmannahóp karlaliðs félagsins í körfuknattleik á þessu keppnistímabili. Kinu Rochford frá Bandaríkjunum og Nikolas Tomsick frá Króatíu leika við hvern sinn fingur á nýju ári. Eru þeir báðir í liði mánaðarins hér í blaðinu og Rochford er sá leikmaðurinn sem kastljósinu er beint að eftir janúarmánuð.

Eins og fram kemur hér hægra megin í opnunni þá lagði Þór þrjá sterka andstæðinga að velli í janúar. Tindastól, KR og Grindavík en tapaði naumlega fyrir toppliði Njarðvíkur. Rochford skoraði aldrei minna en 20 stig í leikjunum fjórum og tók á bilinu 8-17 fráköst. Hefur hann tekið flest fráköst allra í deildinni.

„Rochford hafði bæði spilað með Gintautas sem var hjá okkur í upphafi tímabilsins og einnig með Nick (Tomsick). Þannig heyrði ég fyrst af Rochford og þá fór ég að skoða hann og sá strax að þessi leikmaður yrði góður hér á landi,“ sagði Baldur þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær.

„Rochford er mjög góður skorari nærri körfunni en hefur auk þess gott nef fyrir fráköstum, bæði í sókn og vörn. Hann er með langa handleggi og er mjög sterkur. Hann hefur verið flottur hjá okkur.“

Sjóaðir leikmenn

Gjarnan koma bandarískir leikmenn til íslensku liðanna þegar þeir eru að koma beint úr háskóla og að hefja sinn feril sem atvinnumenn. Hafa þá heldur ekki búið utan heimalandsins. Erlendu leikmennirnir þrír hjá Þór eru á aldrinum 26-28 ára og Rochford er orðinn nokkuð sjóaður í boltanum í Evrópu. Spurður út í þetta segir Baldur erlendu leikmennina þrjá vera fagmenn.

„Já já, það skiptir máli að þessir leikmenn séu með ákveðna reynslu og viti svolítið hvað þeir eru að fara út í. Það hjálpar klárlega til. Allir þrír leikmennirnir sem eru hjá okkur eru miklir atvinnumenn,“ sagði Baldur en hann hafði vitað af Tomsick í talsverðan tíma.

„Ég var í samskiptum við hann fyrst fyrir þremur árum. Þá var ég að reyna að fá hann til að spila fyrir Arnar Guðjóns (núverandi þjálfara Stjörnunnar) hjá Svendborg í Danmörku,“ sagði Baldur og hlær. „Síðan þá hef ég fylgst með honum og hann var einn af þessum leikmönnum sem maður vissi af. Þegar ég sá hvernig síðasta tímabil var hjá honum þá datt mér í hug að það gæti verið góður stökkpallur fyrir hann að koma hingað. Nick leist vel á það og var spenntur fyrir því hlutverki sem ég bauð honum hérna.“

Liðsheildin verður æ sterkari

Þór frá Þorlákshöfn er nú í 6. sæti deildarinnar með 16 stig. Hefur unnið átta leiki en tapað sjö. Miðað við slagkraftinn í það á nýju ári þá er útlit fyrir að liðið berjist um að vera á meðal fjögurra efstu liða í deildakeppninni. Liðið virðist vera að smella saman á réttum tíma.

„Við höfum alla vega spilað mjög vel undanfarið. Lykillinn að þessu er að leikmenn vinna vel saman og þá gerist alltaf eitthvað gott. Liðsheildin er að verða sterkari og þá verður liðið betra,“ sagði Baldur en ekki er sjálfgefið að liðsheildin verði sterk þegar talsverðar breytingar verða á leikmannahópnum á milli tímabila. „Þetta er eitthvað sem allir verða að vera samstilltir inn á og hafa sömu sýn á verkefnið. Þá aukast líkurnar á því að það skapist andi innan liðsins.“

Fann að liðið gæti orðið gott

Þegar boltinn byrjaði að skoppa síðasta haust var ýmislegt óljóst varðandi styrkleika liðanna. Ekki síst þar sem margir erlendir leikmenn komu inn í deildina en auk þess þá fóru sterkir íslenskir leikmenn einnig á milli liða síðasta sumar. Hafði Baldur einhverja tilfinningu fyrir því hvar Þórsarar stæðu þegar deildin var að hefjast?

„Ég vissi svo sem alltaf að við gætum strítt öllum liðum í deildinni á góðum degi, að því gefnu að liðið myndi smella vel saman. Ég vissi að ég væri með góða leikmenn í Emil, Dabba, Ragnari og Dóra. Ég var nokkuð viss um að þessir erlendu leikmenn myndu verða góðir hjá okkur miðað við þá reynslu sem þeir hafa,“ sagði Baldur enn fremur við Morgunblaðið.

Dominos-deild karla

Njarðvík 151321344:127126

Tindastóll 151231305:113024

Stjarnan 151141383:123422

KR 151051323:127420

Keflavík 15961270:122218

Þór Þ. 15871340:130716

Grindavík 15781316:134414

ÍR 15781287:132414

Haukar 15691266:135212

Valur 154111369:14418

Skallagr. 152131274:13914

Breiðablik 151141327:15142