Lögreglan Laun lögreglustjóra heyra nú undir ráðherra .
Lögreglan Laun lögreglustjóra heyra nú undir ráðherra . — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Úlfar Lúðvíksson, formaður Lögreglustjórafélags Íslands, segir að stuttur skipunartími lögreglustjóra geti haft áhrif á ákvörðunartöku þeirra. Á þetta er m.a.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Úlfar Lúðvíksson, formaður Lögreglustjórafélags Íslands, segir að stuttur skipunartími lögreglustjóra geti haft áhrif á ákvörðunartöku þeirra. Á þetta er m.a. bent í skýrslu GRECO, samtaka ríkja gegn spillingu, frá árinu 2018. Úlfar segir félagið hafa bent á þetta en ekki fengið viðbrögð frá ráðuneytinu enn sem komið er, en lögreglustjórar eru skipaðir í fimm ár í senn.

„Lögreglustjórar gefa út flest ákæruskjöl á Íslandi. GRECO er að benda á að það er óheppilegt, þegar lögreglustjórar fara jafnframt með ákæruvald, að skipunartími þeirra sé þetta stuttur. Það geti haft áhrif. Ég, sem formaður Lögreglustjórafélagsins, óskaði eftir því að þessi skýrsla yrði birt eins og mælst er til í þessum úttektum. Allt sem þarna stæði yrði birt og kynnt almenningi en það hefur ekki verið orðið við því,“ segir Úlfar.

Lögreglustjórar gætu átt von á að fá bréf um að staða þeirra verði auglýst þegar sex mánuðir eru í lok skipunartíma. Að sögn Úlfars gæti það haft áhrif á störf lögreglustjóra. „Þannig að ef ráðherra tekur ákvörðun um að auglýsa stöðu lögreglustjóra þá gerir hann ekkert sem kemur í veg fyrir það. Það getur leynt og ljóst haft áhrif á sjálfstæða ákvörðunartöku lögreglustjórans.“

Vald ráðherra aukist

Laun lögreglustjóra eru nú ákvörðuð af fjármálaráðuneytinu, eftir niðurfellingu kjararáðs, en ein af ábendingum GRECO-skýrslunnar er að vald stjórnvalda yfir lögreglunni sé of mikið.

Úlfar segir félagið hafa bent á að þetta fyrirkomulag sé óheppilegt. Lögreglustjórar vilji mun frekar heyra undir sjálfstæða nefnd en að pólitískt skipaðir einstaklingar fjalli um laun þeirra hverju sinni.