Guðmundur Ólafsson
Guðmundur Ólafsson
Eftir Guðmund Ólafsson: "Nú eru komnir fram rithöfundar sem fjalla um fólk og innra líf þess."

Lengi vel var ekki fjallað um fólk í íslenskum bókmenntum, hugsanlega voru menn búnir að fá nóg af fólki í Íslendingasögum en með sjálfstæðisbaráttu hófst goðgerð landsins. „Hver á sér fegra föðurland“ stóð upp úr hverju skáldinu á fætur öðru í 200 ár. Dálítið hallærislegt af því landið er ekkert sérstaklega fagurt, miðað við önnur lönd, ef marka má sjónvarpið, YouTube og ferðalög. Á þessu eru auðvitað mikilvægar undantekningar á borð við Guðberg Bergsson og fleiri, en hávaðinn af rithöfundum sem voru/eru náttúrulífsjarmarar flokkast undir hin „væmnu alþýðubandalagsskáld“, eins og einn vinur minn nefnir það. „Náttúran njóti vafans“ en ekki fólkið var og er dagskipunin, hvað svo sem meint er með orðinu náttúra.

Nú eru komnir fram rithöfundar sem fjalla um fólk og innra líf þess. Það er því sérstaklega við hæfi að Guðrún Eva Mínervudóttir skuli hljóta fagurbókmenntaverðlaun. Hún fjallar um fólk, örlög þess og vitund. Hún fjallar meðal annars um leiðina í náðarfaðm trúarinnar og í hinum „Sjóreknu píanóum“ er rakin mögnuð ættarsaga.

Í annan stað eru nú merkir þættir í RÚV á laugardögum, Guðmundarkviða, fluttir og samdir af Guðmundi Inga Þorvaldssyni frá Brekkukoti í Reykholtsdal, þar sem hann rekur sögu forfeðra sinna aftur um sjö liði. Flettir upp í heimildum og ræðir við fólk. Hugmyndin er að áföll erfist kynslóð af kynslóð í sjö liði; til þess að botna í sjálfum sér verður maður að þekkja forna áa, en ekki gapa yfir fjöllum og dölum þótt góð séu.

Höfundur er hagfræðingur og lektor emeritus. gol@gol.is