Hjónin Ásdís og Þórarinn við kirkjuna á Súðavík síðastliðið sumar.
Hjónin Ásdís og Þórarinn við kirkjuna á Súðavík síðastliðið sumar.
Ásdís Sigurgestsdóttir kennari á 70 ára afmæli í dag. Hún er úr Litla-Skerjafirði og ólst upp á Fossagötu 4. „Það var alveg dásamlegt hverfi.

Ásdís Sigurgestsdóttir kennari á 70 ára afmæli í dag. Hún er úr Litla-Skerjafirði og ólst upp á Fossagötu 4. „Það var alveg dásamlegt hverfi.“ Hún er menntaður kennari og handavinnukennari og kenndi í nokkur ár en rak svo kvenfataverslunina Svanna í Stangarhyl 5 í 18 ár.

Ásdís fór síðan 57 ára gömul í dönskunám í Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með BA-gráðu árið 2010. Eftir það sinnti hún forfallakennslu í dönsku í fimm framhaldsskólum fram á síðasta ár. Hún sá einnig um hannyrðaþáttinn í tímaritinu Húsfreyjunni í tvö og hálft ár eða frá 2016 til 2018. „Þetta voru tíu síður í hverju blaði, alls voru þetta tíu blöð svo þetta voru í allt 100 síður.“

Áhugamál Ásdísar eru hannyrðir, ferðalög og danska. „Áhugamál mín sameinast í því að þýða prjónabækur úr dönsku, meðal annars barnafatabókina Prjónað af ást , ásamt Guðrúnu Þórsdóttur. Sú bók kom út í október síðastliðnum en fleiri þýðingaverkefni eru í pípunum.“

Eiginmaður Ásdísar er Þórarinn Klemensson viðskiptafræðingur, sem vann lengi í Íslandsbanka. Dætur þeirra eru Vigdís, sem býr í Hollandi og á fjóra stráka, og Árný sem býr í Reykjavík og á þrjár stelpur. Árný á líka stórafmæli í dag eins og fram kemur á næstu síðu.

„Við mæðgur héldum fjölskylduveislu á sunnudaginn og svo ætlar fjölskyldan út að borða í kvöld. Ég á svo von á nokkrum vinkonum mínum um eftirmiðdaginn. Til gamans má geta þess að mágkona mín á sama afmælisdag og við mæðgur og systir mín átti afmæli í gær.“