Helgi Seljan
Helgi Seljan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Helga Seljan og Sigmar Guðmundsson: "Hún hefur gefið sér tíma til að setjast niður með forstjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum til að reyna að endurskrifa sjö ára gamalt viðtal Kastljóss við hana. Það er áhugavert."

Í nýlegri grein í Morgunblaðinu gerir Elín Björg Ragnarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fiskútflytjenda, athugasemdir við tæplega sjö ára gamalt viðtal Kastljóss við hana og heldur því fram að einhvers lags blekkingar hafi verið viðhafðar við vinnslu og birtingu viðtalsins. Hinu sama hefur forstjóri Vinnslustöðvarinnar haldið fram, ítrekað.

Þetta er rangt.

Fyrir það fyrsta er alrangt að Kastljós hafi á einhvern hátt notfært sér viðtalið við Elínu eða sett það í samhengi við umfjöllun í sama þætti um þær vísbendingar sem þá lágu fyrir um meinta undirverðlagningu Samherja til dótturfélaga sinna erlendis.

Viðtölin tekin áður en rannsóknin hófst

Í inngangi umfjöllunarinnar var skýrt og greinilega tekið fram að viðtöl í þættinum um verðmyndun fiskafla á Íslandi við Elínu Björgu, Guðmund Þ. Ragnarsson, formann Félags vélstjóra og málmtæknimanna, og Friðrik J. Arngrímsson, þáverandi framkvæmdastjóra LÍÚ, voru öll tekin áður en rannsókn á meintum brotum Samherja á gjaldeyrislögum hófst. Um það átti því enginn að þurfa að velkjast í vafa.

Hin almenna umfjöllun um tvöfalda verðmyndun á fiski var að því leytinu aðskilin umfjöllun um gögn frá Verðlagsstofu skiptaverðs sem sýndu rökstuddan grun um að Samherji seldi dótturfélögum sínum erlendis tiltekinn afla á tilteknu tímabili á lægra verði en í viðskiptum annarra útgerðarfélaga við óskylda aðila. Þau gögn voru eins og fram kom ekki fengin frá Seðlabanka Íslands, heldur Verðlagsstofu skiptaverðs, opinberri eftirlitsstofnun um fiskverð.

Umrædd umfjöllun í Kastljósi snerist því öðru fremur um gagnrýni sjómanna, sjálfstætt starfandi fiskverkana og fleiri, á tvöfalda verðmyndun á fiski. Verð á afla er breytilegt allt eftir því hvort hann er keyptur af sömu útgerð og rekur veiðiskipin eða seldur ótengdum aðila. Þá staðreynd höfðu fyrrgreindir aðilar, ekki síst Samtök fiskútflytjenda, gagnrýnt harðlega. Og gerðu síðast opinberlega í liðinni viku.

Þessa sömu gagnrýni hafði Elín Björg sjálf sett fram í störfum sínum fyrir samtökin og sagt að breytingar á þessu fyrirkomulagi væru helsta baráttumál samtakanna. Þessu var framkvæmdastjóri LÍÚ ekki sammála. Sjónarmið beggja voru reifuð í umræddum Kastljósþætti, meðal annars áhyggjur Elínar Bjargar og samtaka hennar af því að með litlu eftirliti og ríkjandi fyrirkomulagi kæmi fátt ef nokkuð í veg fyrir að útgerðir gætu flutt fisk úr landi til dótturfélaga sinna erlendis og tekið hagnað af viðskiptunum út erlendis. Orðrétt sagði Elín þetta í þættinum:

„Eins og við sjáum oft getur fyrirtækið líka átt erlent sölufyrirtæki og selt áfram á lágmarksverði frá fiskvinnslunni yfir í erlenda fyrirtækið – sölufyrirtækið, og tekið arðinn af allri greininni út í erlenda fyrirtækinu. Og hvort menn eru að leika þennan leik læt ég ósagt en allavega möguleikinn er þarna til staðar. Og auðvitað ættu menn að skoða þetta.“

Elín Björg beðin um rökstuðning

Elín Björg segir í grein sinni, nú sjö árum síðar, að með orðum sínum hafi hún alls ekki verið að lýsa öðru en löglegri leið fyrirtækja sem vert væri að skoða og breyta. Það er einfaldlega ekki rétt hjá Elínu Björgu. Um bann við því að færa hagnað úr landi með þeim hætti sem hún lýsti er sérstaklega fjallað í lögum og hefur verið um langa hríð, samanber ákvæði 57. greinar tekjuskattslaga og sambærileg þágildandi lög um gjaldeyrisviðskipti.

Þess vegna – og eðlilega – var gengið á Elínu í umræddu viðtali og hún krafin um dæmi um þau íslensku fyrirtæki sem léku þann leik sem hún lýsti. Hún fékkst ekki til þess þótt hún hefði gefið í skyn að hún þekkti slík dæmi.

Það var því sjálfsagt og eðlilegt að biðja Elínu Björgu um að rökstyðja mál sitt með dæmum í umræddu viðtali, og þekkist víðast hvar sem fagleg vinnubrögð í blaðamennsku.

Viðtalið var því hvorki tekið né flutt á villandi eða rangan hátt.

Vitaskuld er Elínu Björgu frjálst að leita til siðanefndar RÚV með erindi sitt nú, nærri sjö árum eftir að viðtalið birtist. Spurningin er hins vegar sú hvers vegna hún gerði það ekki mun fyrr? Erindið sem hún segist hafa sent daginn eftir umfjöllunina var athugasemd sem krafðist frekari skýringa af hennar hálfu og henni fylgdi hvorki ósk um birtingu né leiðréttingu. Eftir að Elín sendi umrædda athugasemd var árangurslaust reynt að ná sambandi við hana til að óska frekari skýringa.

Lýsing hennar á málavöxtum er því ekki sannleikanum samkvæm.

Grein Elínar má skilja svo að umrætt viðtal, sem tekið var nokkru áður en umfjöllunin var birt, hefði verið einu samskipti hennar við fréttamenn Kastljóss og birting umfjöllunarinnar því komið henni í opna skjöldu. Það er einnig rangt.

Fréttamaður átti í samskiptum við Elínu um efnið fyrir og ekki síður eftir að viðtalið var tekið, í því skyni að afla frekari upplýsinga.

Elínu var allan tímann ljóst að viðtalið sem tekið var við hana yrði birt í umfjöllun um gagnrýni á tvöfalda verðmyndun á fiski og það samkeppnisforskot sem útgerðir, sem einnig áttu eigin sölufyrirtæki erlendis, hefðu af þeim sökum.

Og nákvæmlega þannig birtist viðtalið.

Snerist um deilur milli áhafnar skips og Vinnslustöðvarinnar

Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að í umfjöllun Kastljóss um verðmyndun sjávarafla og vísbendingar um undirverðlagningu sjávarafla úr landi var því aldrei haldið fram að Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum sætti rannsókn eða lægi undir grun um slík brot hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands. Þær fullyrðingar og samsærisbrigsl forstjóra Vinnslustöðvarinnar í ítrekuðum viðtölum hans við sjálfan sig á vef Vinnslustöðvarinnar og í greinum í Morgunblaðinu undanfarinn mánuð eru annaðhvort hugarburður eða furðulegur misskilningur hans.

Kastljós hafði aldrei upplýsingar um að Vinnslustöðin sætti neinni slíkri rannsókn og hélt því aldrei fram.

Umfjöllun um gagnrýni sjómanna á verðmyndun Vinnslustöðvarinnar snerist um deilur sem komið höfðu upp milli áhafnar skips og Vinnslustöðvarinnar vegna uppsjávarafla sem Vinnslustöðin keypti og seldi áfram til dótturfélags síns í Rússlandi.

Aldrei var fjallað um viðskipti Vinnslustöðvarinnar með ufsa, eins og forstjórinn hefur haldið fram, heldur snerist sá þáttur um verðmyndun og skort á gegnsæi í viðskiptum Vinnslustöðvarinnar eins og kom fram í viðtali við forystumenn stéttarfélaga sjómanna, í Eyjum og á landsvísu, og forstjóri Vinnslustöðvarinnar svaraði.

Deilur um fyrirkomulag fisksölu Vinnslustöðvarinnar standa í raun enn, samanber forsíðufrétt Morgunblaðsins frá því stuttu fyrir jól, og frásögn fyrrverandi stjórnarmanns í fyrirtækinu af árangurslausum tilraunum sínum til að afla svara við þeim.

Lýsing sem fer þvert á raunveruleikann

Að þessu sögðu er athyglisvert að verða vitni að því samráði sem Elín Björg Ragnarsdóttir og forstjóri Vinnslustöðvarinnar virðast hafa haft um greinarskrif sín, eins og þau lýsa bæði. Forstjórinn hafði enda, viku áður en grein Elínar Bjargar birtist, boðað að stór og mikil tíðindi væru væntanleg. Einkum er samráðið forvitnilegt í ljósi þess að grein Elínar Bjargar birtist sama dag og til stóð að birta skýrslu um skoðun Ríkisendurskoðunar á eftirliti Fiskistofu með veiðum, löndun og vinnslu sjávarafurða. Skýrslu sem beinlínis gefur stofnun sem treyst hefur verið fyrir mikilvægu hlutverki algjöra falleinkunn.

Elín Björg Ragnarsdóttir er ekki bara lögmaður úti í bæ eins og ætla má af grein hennar heldur hefur hún starfað sem verkefnastjóri hjá þessari sömu Fiskistofu og meðal annars komið fram og haldið ræður um meint öflugt starf sitt og stofnunarinnar við eftirlit. Lýsing sem fer þvert á raunveruleikann sem nú blasir við.

Á sama tíma hefur hún þó gefið sér tíma til að setjast niður með forstjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum til að reyna að endurskrifa sjö ára gamalt viðtal Kastljóss við hana.

Það er áhugavert, svo ekki sé fastar að orði kveðið. En þó kannski svo lýsandi.

Helgi er fyrrverandi fréttamaður Kastljóss. Sigmar er fyrrverandi ritstjóri Kastljóss.