Það leynist ýmislegt á alnetinu og sjálfsagt misgáfulegt eins og gengur. Víkverja rak í rogastans um helgina þegar hann var að lesa sér til um hinn fornfræga klúbb í enska boltanum, Arsenal.

Það leynist ýmislegt á alnetinu og sjálfsagt misgáfulegt eins og gengur. Víkverja rak í rogastans um helgina þegar hann var að lesa sér til um hinn fornfræga klúbb í enska boltanum, Arsenal. Liðið leikur heimaleiki sína á Emirates-vellinum í Lundúnum og á wikipedia-síðu vallarins má lesa að hann tekur 60.260 í sæti. Á sömu síðu var staðhæft að eigandi vallarins væri Jesse nokkur Lingard. Víkverji vissi ekki betur en sá hefði í sig og á með knattsparki norður í landi, nánar tiltekið hjá Manchester United. Jú, það stóð heima. Í ljós kemur að hér var bara um að ræða sprell einhverra netverja. Lingard á ekkert í vellinum sjálfum en frammistaða hans í leik Arsenal og Manchester United á téðum velli á föstudagskvöld ku hafa verið með þeim hætti að viðkomandi töldu hann geta gert tilkall til vallarins.

Sama hversu ánægjulegur sigur norðanmanna í höfuðstaðnum var þá gekk nú eitt og annað á í öðrum bikarleikjum um helgina. Everton tapaði fyrir Millwall og Tottenham-menn voru sendir í kalda sturtu af Roy Hodgson og Crystal Palace. Um helgina mátti einnig sjá dæmi þess hvernig nútímafótbolti virkar. Chelsea mætti liði Sheffield Wednesday, sem er neðarlega í næstefstu deild. Í lið Wednesday vantaði miðvörðinn Michael Hector, en hann mátti ekki spila þar eð hann er í láni frá Chelsea. Hector hefur aldrei spilað eina einustu mínútu fyrir Chelsea og mun sjálfsagt aldrei gera það. Hann er orðinn 26 ára og lánssamningurinn við Wednesday er sá fimmtándi sem hann gerir á ferlinum. Þátttaka hans hefði að líkindum ekki breytt miklu fyrir úrslitin en þar eð Hector er fastamaður í liðinu er galið að hann hafi ekki mátt spila. Þess má geta að Chelsea á núna 42 leikmenn sem eru í láni hjá öðrum liðum.

Það er margt furðulegt í þessari veröld. Nú heitir til að mynda veðurspá frá Veðurstofu Íslands ekki lengur veðurspá heldur hugleiðingar veðurfræðings.