[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Nær öll árleg aukning útgefins reiðufjár Seðlabanka Íslands á árinu 2018 átti sér stað í desembermánuði , samkvæmt upplýsingum frá Stefáni Jóhanni Stefánssyni, ritstjóra á skrifstofu seðlabankastjóra.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Nær öll árleg aukning útgefins reiðufjár Seðlabanka Íslands á árinu 2018 átti sér stað í desembermánuði , samkvæmt upplýsingum frá Stefáni Jóhanni Stefánssyni, ritstjóra á skrifstofu seðlabankastjóra. Aukning reiðufjár í umferð í desember síðastliðnum nam tæpum 4,4 milljörðum króna, sem er svipað og í desember árið 2017, en þá jókst reiðufé í umferð um tæpa 4,3 milljarða. Í desember árið 2016 var um minni aukningu að ræða, eða rúma 3,6 milljarða, og í desember árið 2015 jókst reiðufé í umferð um tæplega 3,2 milljarða króna í mánuðinum.

„Aðalástæðan fyrir þessu útstreymi í mánuðinum er aukið umfang í þjóðfélaginu í desember. Stór hluti útstreymis í desember kemur svo að jafnaði til baka í janúar. Það er einnig reyndin nú það sem af er þessum mánuði,“ segir Stefán í samtali við Morgunblaðið.

Aðeins 375 milljónir hina 11 mánuði ársins

Athygli vekur hve lítið reiðufé í umferð jókst fyrstu ellefu mánuði síðasta árs til samanburðar við aukninguna í desember, eða aðeins 375 milljónir króna. Það er umtalsverð breyting frá árunum á undan, en árið 2017 jókst reiðufé í umferð um tæplega 1,4 milljarða fyrstu ellefu mánuði ársins, um þrjá milljarða fyrstu 11 mánuði 2016 og 2,5 milljarða árið 2015.

Þegar allt er talið saman varð aukningin á milli áranna 2017 og 2018 minni en árin á undan. Í fyrra jókst reiðufé í umferð um tæpa 4,8 milljarða króna, sem er 16% minni aukning á milli ára en árið á undan. Reiðufé í umferð jókst þó um 7% milli ára og voru samtals 72,8 milljarðar í umferð allt árið í fyrra, samanborið við 68,0 milljarða árið 2017.

Ferðamenn ástæða

Eins og kom fram í frétt í Morgunblaðinu síðasta haust eru ferðamenn hluti af ástæðu þess að reiðufé er að aukast en reiðufé meðal Íslendinga hefur einnig aukist.

Þegar seðlar og mynt í umferð eru skoðuð í samhengi við verga landsframleiðslu sést að í nokkuð langan tíma var hlutfallið um 1%, en í kjölfar áfallsins sem íslenskir viðskiptabankar urðu fyrir í októbermánuði 2008 hækkaði hlutfallið og í lok árs 2017 var það um 2,4%, að því er fram kemur á vef SÍ.