[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Kinu Rochford, bandaríski framherjinn í liði Þórs í Þorlákshöfn, er besti leikmaður Dominos-deildar karla í körfuknattleik í janúarmánuði að mati Morgunblaðsins.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Kinu Rochford, bandaríski framherjinn í liði Þórs í Þorlákshöfn, er besti leikmaður Dominos-deildar karla í körfuknattleik í janúarmánuði að mati Morgunblaðsins.

Rochford hefur átt mjög góða leiki með Þórsliðinu sem hefur unnið þrjá af fjórum leikjum sínum eftir áramótin, gegn Tindastóli, KR og Grindavík, og tapaði naumlega fyrir Njarðvík.

Rochford er 28 ára gamall, fæddur í Brooklyn og kom til Þórsara í haust frá breska úrvalsdeildarliðinu Plymouth Raiders. Hann hefur áður leikið í sömu deild með Cheshire Phoenix en einnig með Boncourt í efstu deild í Sviss, Le Portel í frönsku B-deildinni, Elitzur Yavne í ísraelsku B-deildinni og Aris Leeuwarden í efstu deild í Hollandi en þar hóf hann atvinnuferilinn árið 2013.

Rochford, sem er 1,97 m á hæð, hefur í vetur skorað 20,5 stig og tekið 12 fráköst að meðaltali í leik með Þór.

Hlynur bestur Íslendinga

Hlynur Bæringsson, fyrirliði Stjörnunnar og íslenska landsliðsins, var besti íslenski leikmaðurinn í deildinni í janúar að mati Morgunblaðsins. Hlynur hefur átt jafna og góða leiki fyrir Garðabæjarliðið sem hefur verið á mikilli siglingu, og er að vanda í hópi frákastahæstu leikmanna deildarinnar, ásamt því að skila stöðugt sínu í öðrum þáttum leiksins.

Hilmar öflugur með Haukum

Hilmar Smári Henningsson úr Haukum er besti ungi leikmaðurinn og þetta er í annað skiptið á fjórum mánuðum sem hann verður fyrir valinu. Hilmar, sem er 18 ára bakvörður, lék sérstaklega vel í tveimur síðari leikjum Hauka í janúar, sigurleikjum gegn Tindastóli og Breiðabliki. Hann leikur sem bakvörður og hefur í vetur skorað 12,7 stig, tekið 4,1 fráköst og átt 3,2 stoðsendingar að meðaltali í leikjum Hafnarfjarðarliðsins.

Úrvalslið Morgunblaðsins fyrir janúarmánuð má sjá hér að ofan en að vanda eru valdir fimm leikmenn í byrjunarliðið og sjö á bekkinn. Hlynur Bæringsson og Michael Craion eru í liðinu annan mánuðinn í röð en hinir þrír eru í fyrsta sinn í byrjunarliðinu. Bakvörðurinn Brandon Rozzell hefur komið afar sterkur inn í lið Stjörnunnar og átt drjúgan þátt í velgengni þess að undanförnu.