Kjaraviðræður Fundað var hjá Ríkissáttasemjara í gærmorgun. Á myndinni sjást meðal annars þau Vilhjálmur Birgisson, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Kjaraviðræður Fundað var hjá Ríkissáttasemjara í gærmorgun. Á myndinni sjást meðal annars þau Vilhjálmur Birgisson, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Fundað var í gær hjá ríkissáttasemjara, þar sem fulltrúar VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Grindavíkur og Verkalýðsfélags Akraness ræddu þar við fulltrúa Samtaka atvinnulífsins.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Fundað var í gær hjá ríkissáttasemjara, þar sem fulltrúar VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Grindavíkur og Verkalýðsfélags Akraness ræddu þar við fulltrúa Samtaka atvinnulífsins. Gekk fundurinn vel að sögn Bryndísar Hlöðversdóttur ríkissáttasemjara, en til stóð að funda einnig á miðvikudag og föstudag í þessari viku.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að fundurinn hafi verið eins og búist var við. „Við vorum að kasta á milli okkar atriðum sem lúta að kröfugerðinni og velta ýmsum hlutum fyrir okkur í þeim efnum. Fundurinn var svo sem ágætur hvað það varðar, en það er ljóst að það er heilmikil vinna eftir ennþá,“ segir Vilhjálmur.

Viðræður á hraða snigilsins

Spurður um gang viðræðnanna segir Vilhjálmur það alveg ljóst að þær séu á hraða snigilsins. „Við verðum að átta okkur á því að þessi mánuður er að verða liðinn og það er aldrei gott þegar kjaraviðræður dragast svona.“ Segir Vilhjálmur að það virðist vera lenska hér að kjaraviðræður taki nokkra mánuði á hinum almenna vinnumarkaði, sem sé óþolandi staða. „En menn eru að tala saman og meðan það er verðum við að eygja einhverja von.“

En hvernig sér Vilhjálmur fyrir sér gang viðræðnanna á næstu dögum? „Það er ljóst að því fleiri fundir sem haldnir eru, því nær komumst við að endamarkinu. Hvort endamarkið verður með þeim hætti að menn komist ekki lengra og allt fari í strand verður að koma í ljós, en til að tikka í öll boxin verða menn að funda ótt og títt,“ segir Vilhjálmur og bætir við að á endanum komi einhver niðurstaða í viðræðurnar hvort sem hún verði í formi kjarasamnings eða samningsslita. Tíminn einn muni leiða í ljós hvort verði.

Vilhjálmur segir að lokum ljóst að aðkoma stjórnvalda muni vega þungt í því hvort samningar náist. „Það er hægt að auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks, verkafólks og millitekjufólks með margvíslegum hætti, meðal annars með breytingum á skattkerfi, okurvöxtum, verðtryggingu og svo framvegis.“

Hann bætir við að tillögur átakshópsins í húsnæðismálum sem lagðar voru fram í síðustu viku yrðu mjög jákvætt skref, en að það þyrfti að bíða og sjá hvernig stjórnvöld vilji afgreiða þær 40 tillögur sem þar voru lagðar fram. Þá muni skattamálin einnig skipta máli.

Vinnan er í gangi

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að fundurinn í gær hafi verið ágætis vinnufundur. „Við fórum yfir mörg mál sem tilheyra endurnýjun kjarasamninganna, og að því leytinu til er ég ánægður með að samtalið sé komið á ágætis rekspöl.“ Halldór segir það mikilvægt að búið er að boða til tveggja funda í vikunni til viðbótar. „Á meðan við erum að tala saman, þá er gangur í viðræðum, en þetta þarf einfaldlega að taka sinn tíma.“

Samtök atvinnulífsins eru einnig í viðræðum við Starfsgreinasambandið, iðnaðarmannafélögin og Landssamband verslunarmanna, en þær viðræður eru ekki á borði ríkissáttasemjara. Halldór Benjamín segir að fundað verði með þeim öllum í vikunni, til dæmis hafi hann hitt fulltrúa Starfsgreinasambandsins og iðnaðarmanna í gær og muni hitta þá aftur í dag. Það sé því þétt dagskráin hjá Samtökum atvinnulífsins næstu daga. „Vinnan er í gangi.“