[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er magnað hvað tiltölulega einföld athöfn eins og hér um ræðir nær að vekja margar spurningar.

Af listum

Nína Hjálmarsdóttir

ninahjalmars@gmail.com

Gjörningurinn Mengi Takeover: Konulandslag fór fram síðastliðið föstudagskvöld í listarýminu Mengi og var hann hluti af gjörningaröð rannsóknarverkefnis Önnu Kolfinnu Kuran. Anna er menntaður dansari en það var í meistaranámi hennar í performansfræðum við New York-háskóla sem hugmyndin að Konulandslagi kviknaði og hefur verkefnið tekið á sig ýmis form síðan með mismunandi gjörningum. Með verkefninu spyr Anna spurninga um kvenlíkamann og rými, hvar er rými fyrir konur og hvar þurfa þær að gera innrás til að fá pláss? Rannsóknir sýna að konur eru félagsmótaðar til að taka minna pláss en karlmenn í almenningsrými, líkamlega og andlega. Sem dæmi þá víkja þær frekar undan karlmönnum á troðnum gangstéttum. Lokaverk Önnu í skólanum tengist þessu, en það fólst í því að hún fékk hóp af ólíkum konum til að mynda fylkingu úti á breiðgötu og ganga síðan hægt og þétt saman eftir götunni. Gjörningurinn var síðan endurtekinn á götum Rio de Janeiro í Brasilíu. Hugmyndin um hvernig konur skapa sér pláss í almannarými vekur áhugaverðar spurningar.

Minnti á upphafinn englakór

Í Mengi á föstudaginn kom fram hópur kvenna á öllum aldri, en þó í meirihluta ungir dansarar. Þær voru klæddar í rautt, sem kallar fram tengsl við blóð, blæðingar, eld, reiði, byltingu, Rauðahafið, o.s.frv. Gjörningurinn fór þannig fram að konurnar leiddu áhorfendur með sér í eins konar hugleiðsluathöfn með seiðandi söng sem magnaðist í gegnum verkið. Í fyrstu minnir söngurinn á upphafinn englakór en þegar á líður vekur hann hjá manni nostalgíu eða söknuð, eins og um sé að ræða bergmál úr fortíðinni. Þar sem konurnar ganga á milli áhorfenda eru þær blíðar og kurteisar gagnvart okkur áhorfendum, og minna á sírenur Ódysseifskviðu, fljótandi um rýmið með dreymandi augnaráð. Afstaða þeirra er þannig fremur óræð, persónuleikalaus, sem skapar tilfinningu fyrir heild og samstöðu þeirra á milli.

Allt tempóið í gjörningnum er hægt og flæðið samfellt frá upphafi til enda, kærkomin tilbreyting í heimi hraða og áreitis. Í athöfn sem þessari skapast tími til að spyrja sig ótal spurninga: hvernig eru þær að taka pláss núna, voru áhorfendur ekki þegar búnir að gefa þeim plássið með því að mæta á gjörninginn – og í ljósi fyrri verka Önnu Kolfinnu vaknar sterkt spurningin um hvernig áhrifin núna í lokuðu listarými eru öðruvísi en þau væru í almenningsrými á götu í stórborg.

Óður til samstöðu kvenna

Í umfjöllun um verkið kemur fram að bak við það búi hugmyndin um samstöðu og systraást.

Í því samhengi vakna enn fleiri spurningar: hvað þýðir það að leika hlutverkið „kona“, eða að vera tákn fyrir „systur“, undir því yfirskini að þær eigi að þurfa að taka pláss, hvað eru konurnar að líkamna með því að búa til svona persónuleikalausa heild, er systraheild kannski enn önnur staðalímynd yfir konur, – og ekki síst: ef flytjendur og áhorfendur upplifa valdeflingu kvenna, hvers vegna?

Það er magnað hvað tiltölulega einföld athöfn eins og hér um ræðir nær að vekja margar spurningar. Kannski er það einmitt ætlunarverk höfundar að með fagurri nærveru og blíðum söng, sem oft er tengt við „hið kvenlæga“, myndu flytjendurnir valdeflast í rýminu. Í staðinn fyrir að leita í „aggressjon“ sé hægt að endurheimta hið blíða, og notfæra sem kraft til breytinga. Konulandslag er óður til samstöðu kvenna, og óður til femínisma og byltinga, og fjallar um efni sem er samfélaginu öllu afar hugleikið á þessum tímum, eins og á fyrri tímum og í framtíðinni.