Kristbjörg Kristjánsdóttir fæddist 15. ágúst 1924 í Ólafsvík. Hún lést 13. janúar 2019.

Foreldrar hennar voru Ágústa Ingibjörg Sigurðardóttir og Kristján Þórðarson símstjóri. Systur: Marta Kristjánsdóttir, f. 5.3. 1923, d. 18.12. 2016, og Sigríður Hallbjörg Kristjánsdóttir, f. 17.12. 1929.

Maki Friðrik Benóný Sigurbjörnsson, f. 7.10. 1921, d. 14.7. 2010. Dóttir hans er Svana.

Útför Kristbjargar fór fram í kyrrþey 25. janúar 2019.

Okkur langar að minnast móðursystur okkar, Kristbjargar Kristjánsdóttur, sem fædd var 15. ágúst 1924, önnur í röð þriggja dætra Ágústu Ingibjargar Sigurðardóttur og Kristjáns Þórðarsonar símstjóra í Ólafsvík. Hún ólst upp í Útgörðum, eða á Stöðinni eins og húsið var kallað, þar sem símstöðin var til húsa. Aðeins fáein hús í þorpinu voru þá með síma og því komu margir á stöðina til að hringja í vini og ættingja.

Systurnar Marta, Kristbjörg og Sigríður byrjuðu snemma að vinna á símanum og varð það starf meira eða minna að ævistarfi þeirra allra. Eftir nám í barnaskólanum í Ólafsvík fór Kiddý í Héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði og flutti síðan til Reykjavíkur um tvítugt, í lok seinni heimsstyrjaldarinnar, og hóf störf í versluninni Ólympíu á Laugavegi en fékk svo vinnu á Landsímanum. Það var fjölmennur vinnustaður og undi Kiddý hag sínum vel þar alla tíð þar til hún hætti 70 ára gömul. Vann hún lengst af á langlínunni 02 sem kallað var, þá þurfti fólk að panta símtöl út á land og voru þau afgreidd gegnum landsímann, 03 var upplýsingar um símanúmer, 04 var klukkan, 05 talsamband við útlönd, og 06 ritsíminn ef við munum þetta rétt. Við þessa afgreiðslu vann stór hópur kvenna á vöktum. Þetta þekktu allir í þá daga áður en síminn varð sjálfvirkur. Hún leigði húsnæði hjá móðurbræðrum sínum, Ingimundi á Ljósvallagötunni í mörg ár og síðan risíbúð hjá Antoni og Huldu á Fornhaga. Það var mikil gleði þegar hún gat keypt sér nýja íbúð á Reynimel, sem hún bjó á afar smekklegan hátt með nýtísku mublum.

Hún var mjög smekkleg kona, fylgdist vel með tískunni og alltaf fín til fara, lagði mikið upp úr því að kaupa sér falleg föt og fallega hluti. Hún var vel lesin og fylgdist grannt með þjóðfélagsumræðunni.

Hún giftist Friðriki B. Sigurbjörnssyni, sem var lengst af verkstjóri hjá Landsímanum og Rafmagnsveitu ríkisins og vann m.a. við að setja upp síma- og rafmagnslínur um allt land. Þau fluttu skömmu síðar á Bárugötu 23, æskuheimili Friðriks, hús sem faðir Friðriks hafði byggt. Þar bjuggu þau alla tíð þar til Friðrik lést hinn 14. júlí 2010. Kiddý flutti til Hafnarfjarðar skömmu síðar og síðan á Hjúkrunarheimilið Ísafold. Hún hafði yndi af ferðalögum og ferðaðist víða um heim, oft með Grétu vinkonu sinni og Friðriki, þekkti vel London, París og Róm eins og sagt var og fannst fjölskyldunni mikill ævintýraljómi yfir þessum ferðalögum, sem voru ekki svo algeng í þá daga. Við ferðuðumst líka með henni víða um Evrópu og sáum hversu vel hún naut sín.

Heimili hennar stóð ævinlega opið fyrir ættingja og vini utan af landi og var oft gestkvæmt. Það var alltaf gott að koma í heimsókn til Kiddýjar og Friðriks á Bárugötu. Kiddý eignaðist ekki börn sjálf en var einstaklega barngóð og sinnti okkur systurbörnum sínum og barnabörnum af kostgæfni og hvatti okkur óspart áfram til náms og reyndist sem hin besta frænka og amma.

Að leiðarlokum viljum við öll þakka henni samfylgdina og biðjum Guð að blessa minningu elsku Kiddýjar frænku.

Vigdís, Kristján, Kristbjörg og fjölskyldur.

Kærleikur og réttlætiskennd, það eru þeir eðliskostir sem prýddu Kristbjörgu Kristjánsdóttur eða Kiddý frænku eins og hún var alltaf kölluð. Kiddý var Snæfellingur, alin upp í pósthúsinu í Ólafsvík. Pósthúsið var miðstöð mannlífsins í bænum og þar dugði best að láta sér þykja vænt um alla. Kiddý var ung að árum þegar hún fluttist til Reykjavíkur og starfaði ætíð hjá Pósti og síma.

Í áratugi reyndi á þessa eðliskosti Kiddýjar í þessu stóra fyrirtæki.

Í Reykjavík kynntist hún manni sínum Friðriki Sigurbjörnssyni og áttu þau heima á Bárugötu 23. Heimili þeirra var öllum opið í frændgarðinum og gestirnir svo leystir út með hinum frægu lopapeysum Kiddýjar. Kiddý var einstaklega barngóð og þegar þurfti að fá pössun þá var hringt í Kiddý, eplakökur og pönnsur voru alltaf bestar hjá Kiddý frænku.

Kiddý ferðaðist til útlanda, heimsótti meðal annars Vatíkanið og hlíðar Vesúvíusar, þess magnaða eldfjalls sem minnir á Snæfellsjökul.

Kiddý studdi börn og barnabörn systra sinna af mikilli alúð, hvatti þau til náms og var kjölfestan í lífi þeirra margra. Sumt fólk er þannig að það er einfaldlega mannbætandi að kynnast því, þannig var Kiddý, hún hafði skoðanir á mönnum og málefnum, hún fann til í stormum sinnar tíðar.

Að leiðarlokum eru yndislegri frænku og vinkonu færðar þakkir, allgóður guð blessi minningu Kiddýjar.

Bjarni Karl Guðlaugsson,

Guðný Marta Guðlaugsdóttir,

Guðlaugur Tryggvi Karlsson.