— AFP
Þúsundir Dana hylltu nýkrýnda heimsmeistara í handknattleik á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. Danska landsliðið lenti á Kastrup-flugvellinum síðdegis og var ekið í strætisvagni að Ráðhústorginu.

Þúsundir Dana hylltu nýkrýnda heimsmeistara í handknattleik á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. Danska landsliðið lenti á Kastrup-flugvellinum síðdegis og var ekið í strætisvagni að Ráðhústorginu. Danir og Þjóðverjar voru gestgjafar mótsins en úrslitaleikurinn var í Herning á sunnudag og þar burstuðu Danir öflugt lið Norðmanna. Danir höfðu einnig burstað Frakka í undanúrslitum og unnu alla leiki sína í mótinu.

Á myndinni má sjá hinn síðhærða Mikkel Hansen á sviði með danska fánann og mannhafið í baksýn. Hansen var valinn besti leikmaður HM og var auk þess markakóngur mótsins. Danska karlalandsliðið hafði aldrei fyrr orðið heimsmeistari en liðið hefur tvívegis orðið Evrópumeistari og einu sinni Ólympíumeistari. Kvennalandslið Dana hefur einnig unnið öll stórmótin í íþróttinni. kris@mbl.is