Ragnheiður Tryggvadóttir
Ragnheiður Tryggvadóttir
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is „Við erum í grunninn mjög hlynnt svona breytingum,“ segir Ragnheiður Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Rithöfundasambands Íslands (RSÍ), í samtali við Morgunblaðið.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Við erum í grunninn mjög hlynnt svona breytingum,“ segir Ragnheiður Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Rithöfundasambands Íslands (RSÍ), í samtali við Morgunblaðið.

Vísar hún í máli sínu til þess að fjármála- og efnahagsráðuneytið áformar að breyta skattalögum. Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar sem fela það í sér að gerður verður greinarmunur í skattalegu tilliti á höfundarlaunum annars vegar og tekjum af höfundarréttindum hins vegar þar sem lagt verður til að hvers konar endurgjald til höfunda og rétthafa fyrir afnot af hugverki, að undanskildum höfundarlaunum, teljist til eignatekna/fjármagnstekna. Fram kom í Morgunblaðinu í gær að lausleg áætlun gerir ráð fyrir að tekjutap ríkisins vegna þessa nemi allt að 100 milljónum króna.

Vonast eftir samráði

Ragnheiður segist ekki vita nákvæmlega útfærsluna á þessum fyrirhuguðu breytingum.

„Þetta er í sjálfu sér alveg óunnið. Þarna segir bara að áformað sé að höfundargreiðslur sem „viðurkennd rétthafasamtök“ innheimta verði skattlagðar sem eignatekjur. Maður á því eftir að sjá útfærsluna á því. Þannig myndi þetta til að mynda ekki taka til þess þegar viðkomandi selur kvikmyndarétt því það er nokkuð sem maður innheimtir sjálfur. Við myndum því gjarnan vilja sjá þetta tekið enn lengra og væntanlega verðum við kölluð til samráðs í þessari vinnu,“ segir Ragnheiður.

Þá segir Ragnheiður breytingarnar að líkindum koma tónlistarmönnum mjög til góða. „Helsta ástæða þess er sú að stór hluti af þeirra tekjum fer í gegnum STEF [Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar]. Í ritlistinni er aftur á móti ekki til sambærilegt fyrirbæri þannig að við myndum gjarnan vilja sjá frekari útfærslu á þessu þegar kemur að okkar fólki. Og á ég þá meðal annars við þegar verk eru seld til þýðingar erlendis, þegar kvikmyndaréttur er seldur eða leikgerð unnin út frá verki.“