Héraðsdómur Maðurinn var fundinn sekur um ærumeiðingar.
Héraðsdómur Maðurinn var fundinn sekur um ærumeiðingar. — Morgunblaðið/Þorkell
Karlmaður hefur verið dæmdur í héraðsdómi í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða fyrrverandi sambýliskonu sinni 300 þúsund krónur ásamt 1,9 milljónum í málskostnað fyrir stórfelldar ærumeiðingar.

Karlmaður hefur verið dæmdur í héraðsdómi í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða fyrrverandi sambýliskonu sinni 300 þúsund krónur ásamt 1,9 milljónum í málskostnað fyrir stórfelldar ærumeiðingar. Hann var hins vegar sýknaður af ákæru um brot gegn blygðunarsemi.

Maðurinn tók mynd af fyrrverandi sambýliskonu sinni þar sem hún var sofandi ásamt öðrum karlmanni og dreifði myndinni til þriggja annarra einstaklinga á Facebook. Hafði maðurinn búið með konunni í umræddri íbúð, en deilt var um hvort sambúð þeirra hefði verið lokið á þessum tímapunkti.

Gekkst maðurinn við því að hafa tekið myndirnar og sent þær á þrjá vini sína. Sagði hann fyrir dómi að ætlun sín hefði ekki verið að móðga konuna. Þá hefði háttsemi hans ekki stjórnast af lostugu athæfi, heldur hefði honum verið brugðið og hann viljað eiga myndina ef konan skyldi þræta fyrir að annar maður hefði gist hjá henni.

Móðgaði og smánaði konuna

Segir í dóminum að með hinni heimildarlausu myndatöku af brotaþola, hálfnakinni, og nöktum karlmanni, þar sem þau lágu sofandi saman í rúmi, og sendingu myndarinnar í kjölfarið hafi maðurinn móðgað og smánað konuna. Hafi manninum hlotið að vera þetta ljóst og telur dómurinn skýringar hans á verknaðinum haldlitlar.

Dómur í málinu féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun ársins, en var fyrst birtur á vef dómstólsins í gærdag.