[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og meirihlutaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur sameinuðust um bókun um rekstur bílastæðahúsa borgarinnar.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og meirihlutaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur sameinuðust um bókun um rekstur bílastæðahúsa borgarinnar. Umhverfis- og skipulagssviði er falið að skoða bestu leiðir í rekstri þeirra sjö bílastæðahúsa sem Bílastæðasjóður rekur í miðborg Reykjavíkur, þar með talið rekstrarútboð, með það fyrir augum að bæta nýtingu, efla þjónustu og auka hagkvæmni.

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, flutti tillögu flokksins um að einkaaðilum yrði falinn rekstur bílastæðahúsanna. Valgerður segir að sjálfsagt hafi verið að verða við beiðni fulltrúa meirihlutans um að breyta orðalagi til að ná breiðari stuðningi við málið. Tillagan var samþykkt með 20 atkvæðum gegn þremur á fundi borgarstjórnar í gær.

„Það er góð viðbót að skoða hvað borgin geti gert betur í þessum rekstri. Ég er mjög sátt við hana. Þetta skilar mér meiri gögnum til að vinna með þegar umhverfis- og skipulagssvið skilar tillögum 1. ágúst,“ segir Valgerður.

„Við erum opin fyrir því að skoða breytingar. Einstaka bílastæðahús, eins og Vitatorg og Stjörnutorg, hafa ekki verið nægjanlega vel nýtt. Það er alltaf áhugavert að gera breytingar þegar hlutirnir ganga ekki nógu vel,“ segir Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, þegar spurt er um afstöðu meirihlutans í borgarstjórn.

Hún segir að eitt af markmiðum tillögu Sjálfstæðisflokksins hafi verið að auka tekjur borgarinnar. Meirihlutinn hafi viljað skoða hvaða rekstrarleiðir væru fýsilegar. Borgin geti haft margvíslega aðra hvata af rekstri bílastæðahúsa en að auka tekjurnar. Mikilvægt sé að nýta húsin sem best.

Skila tillögum fyrir 1. ágúst

Í samþykktinni er kveðið á um að auk athugunar á rekstrarútboði verði fyrirkomulag rekstrarins rýnt út frá markmiðum borgarinnar um stýringu bílastæða, bætta nýtingu borgarrýmis, bílastæðastefnu og stefnu aðalskipulags. Sviðið á að skila tillögum til skipulags- og samgönguráðs fyrir 1. ágúst nk.