Mannskæður bruni Eldur logar í fjölbýlishúsi í sextánda hverfinu í París í fyrrinótt. Einn íbúa hússins var handtekinn vegna gruns um íkveikju.
Mannskæður bruni Eldur logar í fjölbýlishúsi í sextánda hverfinu í París í fyrrinótt. Einn íbúa hússins var handtekinn vegna gruns um íkveikju. — AFP
París. AFP. | Að minnsta kosti tíu manns létu lífið í eldi í fjölbýlishúsi í París í fyrrinótt og einn íbúanna var handtekinn vegna gruns um íkveikju. 30 manns voru fluttir á sjúkrahús vegna brunasára eða reykeitrunar, þeirra á meðal sex...

París. AFP. | Að minnsta kosti tíu manns létu lífið í eldi í fjölbýlishúsi í París í fyrrinótt og einn íbúanna var handtekinn vegna gruns um íkveikju. 30 manns voru fluttir á sjúkrahús vegna brunasára eða reykeitrunar, þeirra á meðal sex slökkviliðsmenn.

Eldur logaði í efstu hæðum fjölbýlishússins sem er átta hæða og í sextánda hverfi Parísar. Birt voru myndskeið þar sem slökkviliðsmenn sáust klífa stiga til að bjarga skelfingu lostnum íbúum sem voru sumir aðeins klæddir náttfötum.

„Kona sem býr í byggingunni hefur verið handtekin. Hún er fertug og hafði áður átt við geðræn vandamál að stríða,“ sagði Remy Heitz, saksóknari í París. Hafin hefur verið sakamálarannsókn vegna gruns um að konan hafi gerst sek um íkveikju og manndráp.

Nokkrir íbúanna röktu íkveikjuna til deilu milli nágranna í fjölbýlishúsinu.

Erfitt að komast að húsinu

Eldurinn kviknaði klukkan eitt í fyrrinótt og um 200 slökkviliðsmönnum tókst að ráða niðurlögum hans rúmum fimm klukkustundum síðar.

„Við héldum í fyrstu að þetta væru slagsmál, við heyrðum konu hrópa mjög hátt,“ sagði einn íbúanna. „Hún hélt áfram að hrópa, við fórum út og húsið var þegar í ljósum logum. Slökkviliðsmennirnir voru nýkomnir en það sem mér fannst furðulegast var að þeir gátu ekkert aðhafst. Þeir voru með slökkvibíla, stóra stiga, en gátu ekkert gert.“

Hermt er að slökkviliðsmenn hafi ekki getað hafið slökkvistarfið fyrr en þeir höfðu lengt brunastiga með framlengingum sem þeir þurftu að bera að byggingunni. „Það var mjög erfitt að komast að húsinu,“ sagði Emmanuel Gregoire, aðstoðarborgarstjóri Parísar.

Fjölbýlishúsið er í grennd við leikvang fótboltafélagsins Paris Saint-Germain, og tennisvelli þar sem Opna franska tennismótið fer fram. Margar bygginganna í hverfinu eru gamlar, þær elstu frá sextándu öld, en húsið sem brann var reist á áttunda áratug aldarinnar sem leið.

Þetta er mannskæðasti bruni í París frá árinu 2005 þegar íkveikja í þrettánda hverfi borgarinnar kostaði sautján manns lífið, þar af fjórtán börn.