Sit hér í þingflokksherbergi Flokks fólksins og hlusta á umræður sem fram fara í þingsal á meðan ég bíð eftir að röðin komi að mér í ræðustólinn. Rædd er fimm ára samgönguáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á árunum 2019-2023.

Sit hér í þingflokksherbergi Flokks fólksins og hlusta á umræður sem fram fara í þingsal á meðan ég bíð eftir að röðin komi að mér í ræðustólinn. Rædd er fimm ára samgönguáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á árunum 2019-2023. Nauðsyn þess að stórefla samgöngukerfið sem við erum öll sammála um að er gjörsamlega í molum. Uppsafnaður vandi í boði fyrri ríkisstjórna. Það er í raun nöturlegt að fylgjast með því hvernig samgönguráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson hefur algjörlega snúist upp í andhverfu sína á ótrúlega skömmum tíma hvað varðar vegtolla/skatt.

Vísa hér í orð ráðherrans í viðtali sem Haukur Hólm, fréttamaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins, átti við hann þann 5.12. 2017 en þar segir samgönguráðherra engar áætlanir uppi um veggjöld á helstu leiðum til og frá Reykjavík. Nei, það er ekki stafkrókur um veggjöld í stjórnarsáttmálanum, segir Sigurður Ingi. Fréttamaður: Þannig að það eru engar áætlanir um slíkar aðgerðir? Nei, þær voru lagðar til hliðar sem og ýmsar aðrar álögur sem stóð til að leggja á bíla, þó svo við séum að taka upp græna skatta eins og kolefnisskatta.

Forveri hans í starfi, Jón Gunnarsson, var með áætlanir um að leggja á vegtolla á helstu samgönguleiðir við höfuðborgina, en Sigurður Ingi sagði á þeim tíma að slíkt væri ekki inni í myndinni.

Það tók fyrirrennara Sigurðar Inga ekki langan tíma að sannfæra hann um að ekkert væri í stöðunni annað en að auka skattbyrði á landsmenn. Fyrst skyldi taka tugmilljarða erlent lán til að flýta framkvæmdum við uppbyggingu samgöngukerfisins. Síðan senda afborganirnar á landsmenn alla eftir að framkvæmdum lyki. Já, nú er verið að undirbúa vegtolla á alla landsmenn í Alþingishúsinu við Austurvöll í boði Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra.

Forgangsröðun fjármuna

Á árinu 2019 verður ríkissjóður af 7 milljörðum króna vegna 63% lækkunar á bankaskattinum. Á árinu 2019 mun lækkun veiðigjalda rýra tekjur ríkissjóðs um 4,3 milljarða króna. Lækkun sem sérstaklega mun nýtast stórútgerðinni. Er furða þótt landsmönnum sé misboðið. Bara þetta tvennt skerðir tekjur ríkissjóðs um 11,3 milljarða króna á árinu. Þetta fé mátti nota í þágu allra landsmanna til uppbyggingar á hinu niðurnídda samgöngukerfi í stað þess að taka erlent lán og senda reikninginn síðan á almenning. Flokkur fólksins segir nei við vegasköttum. Hættið að kúga þá sem ekkert eiga. Sækið fjármagnið þangað sem það er að finna. Það er hin eina rétta forgangsröðun. Flokkur fólksins mótmælir harðlega þeirri grímulausu hagsmunagæslu sem ríkisstjórnin rekur til verndar þeim sem allt eiga á kostnað þeirra sem eiga ekkert. Bankarnir hafa efni á að greiða bankaskattinn, stórútgerðin hefur efni á að borga fullt verð fyrir aðgang að auðlindinni okkar. Fátækt fólk hefur ekki efni á að borga vegaskatta/tolla/gjöld eða nokkuð annað sem eykur við greiðslubyrðina sem er þeim óyfirstíganleg nú þegar.

Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins.