Steinþór Jónsson
Steinþór Jónsson
Eftir Steinþór Jónsson: "Það er æskilegt að hið opinbera sé búið að draga sig frá rekstri banka, eins og kostur er, þegar næsta kreppa ríður yfir."

Það ríkir mikil tortryggni í garð þess að ríkisvaldið sé að velta því fyrir sér að selja banka. Banka sem það neyddist til að reisa við, eiga og reka. Skiljanlega segja margir, yppta öxlum er eru svo bara á móti því, öryggisins vegna. Þetta er svona þegar spurt er hvort ekki eigi að aflétta einkaáfengissölu hins opinbera, fólk segir „er þetta ekki bara góð þjónusta sem virkar vel fyrir alla“? Tja, vissulega hefur almenningur aðlagað sig því formi sem viðhaft er á áfengissölu og bankaþjónustu hins opinbera. Sementsverksmiðjan sáluga gerði fínt sement sem steypti nú mörg húsin. Dásamleg alveg hreint. Ég er nokkuð klár á að hið íslenska bankakerfi mun ekki komast í þá aðstöðu sem hér var á milli áranna 2003-2008. Einfaldlega vegna þess að mun betur er fylgst með mánuð fyrir mánuð, ár fyrir ár, og varfærni höfð að leiðarljósi. Hið opinbera kerfi, sem e.t.v. má segja að hafi sofið á verðinum, mun ekki láta það gerast aftur. Hins vegar eru engar bankakreppur eins. Sem leiðir okkur að kjarna málsins. Það kemur bankakreppa aftur! Hvenær skal ósagt látið en hún kemur. Og þær kreppur sem bankar áttu við að glíma hér áður er ríkið var eigandi þeirra voru að hluta til ósýnilegar þar sem ríkið sem eigandi þurfti að styðja við reksturinn til að ekki færi illa. Óteljandi dæmi um það frá fyrri tíð.

Breytingar í vændum

Fyrir liggur að á næsta áratug eða svo verða miklar breytingar á eðli bankastarfsemi. Þetta þarf enga völvu til að spá um. Ferlið er hafið og rafræn viðskipti, þvert á landamæri, munu ráða för. Reiðufé verður áfram til þótt til séu þeir er því vilja útrýma en greiðslumiðlar líkt og snjallsímar, örflögur og hvað allt það heitir munu auðvelda og einfalda alla greiðslumiðlun. Líklega og vonandi verður þjónustan ódýrari þegar til lengri tíma er litið. Framtíðarlausnir munu sjá til þess að samkeppni eykst og má ímynda sér að bankinn þinn verði e.t.v. í öðru landi eftir einhver ár. Sé efnahagsástand tiltölulega stöðugt á Íslandi ættu erlendir bankar ekki að víla fyrir sér að hafa hér starfsemi. Það ætti að vera auðvelt að gera fólki kleift að eiga reikninga í erlendum bönkum og í þeirri mynt er það sjálft kýs. Þannig sér maður allt eins fyrir sér að launamaður sem fær greidd laun um mánaðamót geti breytt krónunum sínum yfir í þann gjaldmiðil er hann kýs og geymt sinn sparnað í hverjum þeim banka er hefur starfsleyfi t.d. innan evrópska efnahagssvæðisins, án þess að ég þekki þær reglur í þaula. Hið opinbera þarf einnig að taka til og auðvelda fólki að flytja lán á milli lánveitenda með því að afnema þann kostnað sem því fylgir. Þannig ætti þitt húsnæðislán að lúta sömu eiginleikum og þær tryggingar sem þú kaupir.

Næsta kreppa

Það er æskilegt að hið opinbera sé búið að draga sig frá rekstri banka, eins og kostur er, þegar næsta kreppa ríður yfir. Þá mun ríkisvaldið vera í sterkari stöðu til að grípa inn í, reynslunni ríkari og þá viðbúið. Áratugir geta liðið án vandræða en á meðan situr mikið af bundnu fé og gerir litið annað en að vaxa. Fé sem mætti nýta til greiðslu skulda, uppbyggingar og velferðar almennt. Skoðum það af alvöru að selja banka í eigu hins opinbera, með opnum huga, og látum ekki geðsveiflur úrtölufólks ráða allri umræðu og eðlilegum skoðanaskiptum. Það er ávísun á aðgerðaleysi.

Höfundur er atvinnurekandi. steinthorj@hotmail.com