Brexit Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur staðið í ströngu að undanförnu. Myndin er tekin fyrir utan Downing-stræti 10 í gær.
Brexit Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur staðið í ströngu að undanförnu. Myndin er tekin fyrir utan Downing-stræti 10 í gær. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Unnið er að gerð samnings á milli Íslands, Noregs og Bretlands hvað varðar vöruviðskipti sem myndi fela í sér að núverandi tollkjör héldu í grundvallaratriðum áfram að gilda fyrir inn- og útflutning til og frá Bretlandi. Vinna við gerð samningsins er vel á veg komin og stefnt er á að hægt verði að beita honum ef til þess kemur að Bretland gangi úr ESB án samnings í lok mars. Í framhaldinu yrði unnið að því að bæta markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir til Bretlands enn fremur til langs tíma.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Unnið er að gerð samnings á milli Íslands, Noregs og Bretlands hvað varðar vöruviðskipti sem myndi fela í sér að núverandi tollkjör héldu í grundvallaratriðum áfram að gilda fyrir inn- og útflutning til og frá Bretlandi. Vinna við gerð samningsins er vel á veg komin og stefnt er á að hægt verði að beita honum ef til þess kemur að Bretland gangi úr ESB án samnings í lok mars. Í framhaldinu yrði unnið að því að bæta markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir til Bretlands enn fremur til langs tíma.

Bundnir af EES-regluverki

Þetta er meðal þess sem fram kom í skriflegu svari Sveins Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, er hann var spurður hvort í gangi væru viðræður um slíkan tímabundinn samning. Í svari ráðuneytisins kom jafnframt fram að hafa bæri í huga hagsmuni er vörðuðu heilbrigðisreglur og gagnkvæma viðurkenningu á heilbrigðisvottorðum hvað snerti viðskipti með matvæli og þá sérstaklega sjávarafurðir sem fluttar væru til Bretlands.

„Hvað varðar matvælaöryggisreglur er Ísland bundið af regluverki EES-samningsins og því ekki unnt að semja um það við Breta. Aftur á móti hafa bresk stjórnvöld gefið til kynna að þau muni ekki krefjast heilbrigðisvottorða fyrir vörur frá ESB eða EES-ríkjum eftir útgöngu. Svo kann að vera að reglur í Bretlandi breytist í þessum efnum með tímanum, en það yrði þá gert með fyrirvara sem gæfi útflytjendum færi á að aðlagast. Hvað varðar innflutning frá Bretlandi, mun Ísland aftur á móti þurfa að beita þeim EES-reglum sem gilda um afurðir sem koma utan EES,“ segir í svari ráðuneytisins.

Margvíslegar fyrirspurnir

Þar kemur fram að stjórnvöld eru í nánum samskiptum við hagsmunaaðila vegna Brexit. Fjölmennur upplýsingafundur var haldinn 19. desember 2018 og stefnt er að því að annar verði haldinn síðar í febrúar. Þá hefur fjöldi minni funda verið haldinn um tiltekin málefnasvið m.a. varðandi útflutning á sjávarafurðum.

„Upp úr áramótum og sérstaklega eftir að útgöngusamningur Bretlands úr ESB var felldur á breska þinginu, hefur utanríkisráðuneytið í auknum mæli sinnt fyrirspurnum frá almennum borgurum, fyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum sem tengjast Brexit. Um er að ræða almennar fyrirspurnir um stöðu og rétt fólks og fyrirtækja en einnig atviksbundnar fyrirspurnir sem miðast að sérstökum aðstæðum,“ segir Sveinn aðspurður hvort ráðuneytið hafi heyrt af áhyggjum kaupenda eða seljenda vegna stöðunnar sem gæti komið upp eftir Brexit.

Miðað við þær varúðarráðstafanir sem unnið sé að hafi dregið verulega úr hættu á alvarlegri röskun á viðskiptum við Bretland. Mikilvægt sé þó að hafa í huga að útganga Bretlands úr ESB án samnings mundi hafa ýmsar breytingar í för með sér hvað varði lagalega umgjörð viðskipta Íslands og Bretlands þar sem Bretland yrði ekki lengur aðili að EES-samningnum.

„Þá verður einnig að hafa í huga ytri aðstæður sem gætu haft áhrif,“ segir í svari við spurningu um hvað ráðuneytið ráðleggi sölufyrirtækjum, t.d. í sjávarútvegi.

„Mögulegt er að gengi pundsins veikist og breskt efnahagslíf almennt a.m.k. til skamms tíma. Þá gætu flöskuhálsar myndast við landamæri Bretlands og Frakklands fyrst um sinn sem gæti haft áhrif á flutning íslensks fisks frá Bretlandi yfir á meginland Evrópu. Hér þurfa hagsmunaaðilar og fyrirtæki sem eru í viðskiptum við Bretland að meta stöðuna og bregðast við með viðeigandi hætti en íslensk stjórnvöld eru þó ávallt reiðubúin til að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða og greiða fyrir málum þar sem hægt er.“

Mikil viðskipti

Vöruútflutningur frá Íslandi til Bretlands nam 49 milljörðum króna (£353m) árið 2017. Verðmæti útflutnings þangað náði hámarki 2015, en samhliða styrkingu krónunnar og veikingu pundsins tók útflutningsverðmæti að dragast saman til ársins 2017, og á sama tíma jukust innflutningsverðmæti. Rúmlega 60% af vöruútflutningnum samanstanda af sjávarafurðum en Bretland er stærsti útflutningsmarkaður Íslendinga fyrir sjávarafurðir.

Í svarinu kemur fram að á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2018 sjáist glöggt að útflutningsverðmætin hafi aukist á ný, bæði af sjávarafurðum og iðnaðarvörum. Upplýsingar um heildarvöruviðskipti Íslands og Bretlands árið 2018 liggja ekki fyrir.

Áhyggjur í Noregi

Í Noregi hefur síðustu daga talsvert verið fjallað um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu án samnings, og þá um leið Evrópska efnahagssvæðinu, og samskipti við Norðmenn. Í grein í Aftenposten um helgina var ljósinu varpað á sjávarútveg og þar komu fram áhyggjur af þróun mála í Bretlandi. Þar segir að óvissan sé mikil og skynsamlegt geti verið að tryggja að vörur séu komnar til Bretlands fyrir 29. mars. Hvað varði ferskan fisk séu möguleikarnir þó takmarkaðir eðli málsins samkvæmt.

Auk fyrrnefnds tímabundins fríverslunarsamnings kemur fram í blaðinu að Norðmenn eigi einnig í viðræðum við Breta um sambærilegan samning vegna flutninga- og farþegaskipa, olíustarfsemi og hafnaþjónustu.