Tímaritið Gripla XXIX er komið út. Ritstjórar eru Emily Lethbridge og Rósa Þorsteinsdóttir.
Gripla er ritrýnt tímarit sem kemur út einu sinni á ári og er alþjóðlegur vettvangur fyrir rannsóknir á sviði íslenskra og norrænna fræða, einkum handrita- og textafræða, bókmennta og þjóðfræða. Birtar eru útgáfur á stuttum textum, greinar og ritgerðir og stuttar fræðilegar athugasemdir.
Í Griplu 2018 eru m.a. níu ritrýndar greinar og útgáfur, fjórar á íslensku, fjórar á ensku og ein á frönsku. Heimir Pálsson fjallar um tvær gerðir Skáldskaparmála Snorra-Eddu, Anders Winroth um íslenskan kirkjurétt hvað varðar skemmri skírn og hjónaband, og Brynja Þorgeirsdóttir um ritgerðina „Af náttúru mannsins og blóði“ í Hauksbók. Meðal annars efnis veltir Þórhallur Eyþórsson fyrir sér merkingu orðsins „aldrnari“, Árni Heimir Ingólfsson dregur fram tvö íslensk söngbókarbrot frá 16. öld sem varðveitt eru í Konungsbókhlöðu í Stokkhólmi og Sverrir Jakobsson ber norrænar heimildir um Aðalstein Englandskonung saman við aðrar.