Bandaríkin Dagný Brynjarsdóttir er á ný hjá einu besta liði heims.
Bandaríkin Dagný Brynjarsdóttir er á ný hjá einu besta liði heims. — Ljósmynd/Reimund Sand
Bandaríska knattspyrnufélagið Portland Thorns staðfesti í gær að búið væri að semja við Dagnýju Brynjarsdóttur landsliðskonu um að leika með því á ný á keppnistímabilinu 2019.

Bandaríska knattspyrnufélagið Portland Thorns staðfesti í gær að búið væri að semja við Dagnýju Brynjarsdóttur landsliðskonu um að leika með því á ný á keppnistímabilinu 2019.

Dagný lék með Portland árin 2016 og 2017 og varð bandarískur meistari með liðinu seinna árið. Hún var síðan í barneignarfríi á árinu 2018.

„Við vonuðum að Dagný yrði með okkur á síðasta tímabili. Þegar það gekk ekki þá vildum við vera vissir um að geta fengið hana 2019,“ sagði Mark Parsons, þjálfari Portland, við vef félagsins í gær.

Þar með verða tvær íslenskar landsliðskonur í þessari sterku deild í ár því Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir leikur áfram með Utah Royals en hún er nýbúin að ljúka lánsdvöl hjá Adelaide United í Ástralíu.

Keppni í bandarísku deildinni hefst um miðjan apríl og stendur fram í miðjan október. Níu lið eru í deildinni og leika þrefalda umferð, 24 leiki á lið, og síðan spila fjögur efstu liðin til úrslita um titil. vs@mbl.is