Við störf Viðræður ASÍ-félaga við ríki og sveitarfélög eru að hefjast til viðbótar við viðræðurnar við SA.
Við störf Viðræður ASÍ-félaga við ríki og sveitarfélög eru að hefjast til viðbótar við viðræðurnar við SA. — Morgunblaðið/Eggert
Yfirstandandi kjaraviðræður eru mjög flóknar að sögn Guðbrands Einarssonar, formanns Verslunarmannafélags Suðurnesja og Landssambands íslenskra verslunarmanna, en hann býr að langri reynslu af samningagerð á vinnumarkaði.

Yfirstandandi kjaraviðræður eru mjög flóknar að sögn Guðbrands Einarssonar, formanns Verslunarmannafélags Suðurnesja og Landssambands íslenskra verslunarmanna, en hann býr að langri reynslu af samningagerð á vinnumarkaði. ,,Ég held að þetta hafi sjaldan verið eins flókið og núna vegna þess að það er svo mikið undir í þessu. Þetta snýst ekki eingöngu um prósentu- eða krónutöluhækkanir, heldur eru menn að ræða húsnæðismál, verðtryggingarmál, vaxtamál og skattamál o.fl. Það er allt undir,“ segir hann.

Samningafundur var að hans sögn haldinn sl. mánudag og annar er boðaður á fimmtudag. „Þessu miðar hægt en miðar þó. Menn eru bara að taka þetta í einhverjum skrefum, oft á tíðum mjög stuttum skrefum þessa dagana en svona er kjarasamningsgerð. Menn setja fram sínar kröfur og svo er bara reynt að pota þeim áfram,“ segir hann.

Óráðlegt að vísa deilunni meðan engu hefur verið hafnað

Ekki ber enn mikið á kröfum innan stéttarfélaga sem eiga í viðræðum án milligöngu sáttasemjara um að komið sé að þeim tímapunkti að vísa beri kjaraviðræðunum til ríkissáttasemjara. Af samtölum má ráða að margir samningamenn séu þeirrar skoðunar að rétt sé að gefa þessu einhverjar vikur í viðbót og óráðlegt að vísa til sáttasemjara á meðan hvorugur viðsemjandinn hefur hafnað framkomnum kröfum. Fram kom þó í máli Flosa Eiríkssonar, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins, á mbl.is í gær að samninganefnd SGS kæmi saman á morgun til að endurmeta stöðuna, ræða hvað hægt væri að gera til þess að flýta viðræðunum, hvort ástæða væri til þess að vísa þeim til ríkissáttasemjara eða taka upp eitthvert annað vinnulag.

omfr@mbl.is