Margrét Sigríður Karlsdóttir fæddist í Reykjavík 27. september 1931. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 7. mars 2019.
Foreldrar hennar voru hjónin Karl Óskar Sigmundsson, f. 25.3. 1910, d. 4.8. 1937, og Jóna Gíslína Sigurðardóttir, f. 2.9. 1910, d. 6.4. 1998. Margrét ólst upp hjá föðurforeldrum sínum, Sigmundi Rögnvaldssyni fisksala og Margréti Jónsdóttur. Systur Margrétar eru: 1) Guðríður Lillý Karlsdóttir, f. 3.9. 1930, d. 18.5. 1988. 2) Karlotta Ósk Karlsdóttir, f. 18.2. 1935, d. 8.12. 1935. Hálfbróðir Margrétar sammæðra er Sigurður Brynjólfsson, f. 11.12. 1942, d. 25.2. 2013. Hinn 31.12. 1958 gekk Margrét að eiga Herbert Sædal Svavarsson húsasmíðameistara, f. 21.4. 1937, d. 28.9. 2007. Börn þeirra eru: Svavar, f. 5.6. 1959. 2) Jóna Karlotta, f. 11.5. 1960. Fyrri eiginmaður hennar er Guðbergur Guðnason, þau slitu samvistum. Dætur þeirra eru Ásta María, f. 18.3. 1983. Eiginmaður hennar er Brynjar Valgeir Steinarsson, f. 26.12. 1978, og dóttir þeirra er Karlotta Karitas, f. 17.6. 2009. Margrét Ósk, f. 20.5. 1985. Synir hennar eru Herbert Snær, f. 1.12. 2007, og Alexander Berg, f. 28.12. 2016. Barnsfaðir er Númi Finnur Aðalbjörnsson. Seinni eiginmaður Jónu er Guðbjartur Karl Ingibergsson, þau slitu samvistum. Dóttir þeirra er Karen Ösp, f. 27.3. 1992, í sambúð með Eggerti Sveini Jóhannssyni. 3). Sigmundur Már Herbertsson, f. 1.8. 1968, kvæntur Sigurbjörgu Eydísi Gunnarsdóttur, f. 3.6. 1970. Synir þeirra eru Herbert Már, f. 20.6. 1992, í sambúð með Kristínu Gerði Óladóttur. Gunnar Már, f. 10.9. 2001, kærasta Indíana Dís Ástþórsdóttir.
Margrét ólst upp í Reykjavík hjá föðurforeldrum sínum og frændsystkinum. Hún útskrifaðist ljósmóðir 30.9. 1956 og var ljósmóðir á Hvammstanga. Eftir að hún flutti til Njarðvíkur var hún frá árinu 1963 ljósmóðir á sjúkrahúsinu í Keflavík og vann þar síðustu starfsárin sem sjúkraliði. Þegar hún lét af störfum sökum aldurs tók hún að sér sjálfboðaliðastörf hjá Suðurnesjadeild Rauða krossins.
Margrét verður jarðsungin frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 19. mars 2019, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það eru margar minningar sem koma upp í huga okkar þegar við minnumst þín elsku mamma, tengdamamma og amma. Það er dýrmætt á þessum erfiðu tímum að eiga og rifja upp ýmsar góðar og skemmtilegar minningar sem við eigum um þig. Sem móðir þá hugsaðir þú vel um örverpið þitt hann Simma, barst hag hans fyrir brjósti og varst afar stolt af honum.  Þegar Sibba kom 17 ára í fjölskylduna þá tókst þú henni opnum örmum frá fyrsta degi.  Þegar ömmustrákarnir síðan fæddust kom aldrei annað til greina en þú sem ljósmóðir værir viðstödd fæðingar þeirra. Það gaf okkur styrk að finna öryggið, umhyggjuna og hlýjuna sem fylgdi nærveru þinni. Herbert Már og Gunnar Már voru svo heppnir að alast upp í næsta nágrenni við ömmu og afa. Þú elskaðir að fá að passa þá þegar þeir voru litlir, umvafðir þá kærleika og tungumálinu því þú elskaðir að tala við þá, þó þeir ómálga gætu ekki svarað þér.  Þeir nutu góðs af því að geta alltaf leitað til ykkar, hvort sem það var að kíkja í heimsókn, koma í hádegismat í matarhléum í skólanum eða gista. Það var alltaf gott að kúra í hlýjunni hjá ykkur. Ef þeir voru veikir fannst þeim fátt betra en að fara í pössun til þín og vera í ömmudekri. Enda elskaðir þú að stjana við þá þegar þeir voru hjá þér. Þú fylgdist alltaf vel með þeim og varst afar stolt af þeim. Ef foreldrarnir voru uppteknir þá sóttir þú þá eða keyrðir í skóla og á æfingar. Þú varst alltaf tilbúin til að rétta hjálparhönd og það var aldrei veisla án þess að þú mættir með þína víðfrægu brúnköku sem öll börn í fjölskyldunni voru sólgin í. Við eigum líka margar góðar minningar úr sumarbústaðnum við Þingvallavatn þar sem þið áttuð ykkar sælureit. Bátsferðir á vatninu, rennt fyrir fiski, gönguferðir, mokað í sandinum, sólböð á pallinum og tekið í spil á kvöldin. Þú áttir ekki í vandræðum með að töfra fram dýrindis veitingar þegar gesti bar að garði, í bústaðnum og heima á Holtsgötunni. Alltaf höfðuð þið nóg fyrir stafni og hlutverkaskiptin voru skýr á báðum stöðum. Þú sást um öll inniverkin af miklum myndarskap meðan Hebbi sá um að smíða og ditta að öllu úti við, enda var hann þúsundþjalasmiður.

Það gat stundum gustað af þér þegar mikið lá við. Sérstaklega þegar jólin nálguðust þá var allt á fullu. Húsið þrifið í krók og kima, bakað með tónlistina í botni og sungið með. Við vorum í rólegri kantinum með allan svona undirbúning og fengum alveg að heyra það frá þér hvað það væri skrýtið hvað við hefðum lítið að gera fyrir jólin. Enda varstu hreinskilin og sagðir skoðanir þínar umbúðarlaust. Við vorum ekki alltaf sammála en vorum sammála um að geta verið ósammála um ýmislegt. Þú varst frekar íhaldssöm þegar t.d. kom að hlutverkum kynjanna og áttir oft líflegar umræður um þau mál við jafnréttissinnan tengdadóttur þína.

Áhugamál þín voru íþróttir og þú hafðir yndi af því að fylgjast með körfuboltanum og þá sérstaklega þínu liði, Njarðvík. Í mörg ár fórstu á alla þeirra heimaleiki, varst í stuðningsmannaklúbbnum og áttir þitt fasta sæti í stúkunni. Eftir að þú hættir að geta farið á leiki þá fylgdist þú með leikjunum í sjónvarpinu. Í NBA deildinni var Boston liðið þitt og þú varst svo heppin að komast þangað að sjá liðið þitt spila. Í fjölda ára klipptir þú út alla umfjöllun í blöðum um liðin þín, uppáhalds leikmenn og þjálfara. Þetta límdir þú inn í bækur og safnið er orðið stórt. Þú fylgdist alltaf með þegar Gunnar Már var að keppa í körfuboltanum og þegar Simmi var að dæma í körfunni. Hvort sem það var hér heima eða erlendis.

Þú áttir afar farsælan feril sem ljósmóðir, hafðir oft orð á því sjálf hversu heppin þú hafir verið í starfi. Sem nýútskrifuð ljósmóðir, fórst þú borgarbarnið til starfa á Hvammstanga og sveitunum í kring. Þar þurftir þú oft að ferðast á slæmum vegum á öllum tíma sólarhringsins með lækninum til að taka á móti börnum á bæjunum, við frumstæðar aðstæður.  Síðan kynnist þú Hebba þínum þegar hann kemur til að byggja nýtt sjúkrahús á Hvammstanga og flytur með honum til Njarðvíkur. Þar ferð þú að vinna á sjúkrahúsinu í Keflavík. Enn heyrum við frásagnir kvenna sem tala um þig af miklum hlýleika og þakklæti. Hversu vel þú reyndist þeim í fæðingunni og á sængurlegunni.

Það breyttist svo margt þegar afi Hebbi lést árið 2007. Þú saknaðir hans alltaf svo mikið og áttir erfitt með að komast yfir sorgina. Enda ætluðuð þið að fara að njóta þess að vera meira saman eftir að hann hætti að vinna. Þú varst vanaföst og lítið fyrir breytingar og því vildir þú halda þínu striki og búa áfram í húsinu ykkar sem hann byggði. Það reyndist þér erfitt þegar þú fékkst heilablæðingu fyrir nokkrum árum síðan. Þá hættir þú að geta lesið og keyrt bílinn. Þá var ákveðið frelsi tekið frá þér því þú varst alltaf á ferðinni um bæinn á rauðu Hondunni. Það lagðist ekki vel í þig og má segja að heilsu þinni hafi smám saman hrakað frá þessum tíma. Við svona blæðingu verður líka oft persónubreyting og það reyndist þér og þeim sem þér næst standa oft á tíðum erfitt. En þú varst dugleg og fórst þetta á þrjóskunni. Þú varst lánsöm að geta farið í dagdvölina á Nesvöllum á virkum dögum. Þar leið þér vel og vel var hugsað um þig. Þér þótti sérstaklega gaman þegar börnin frá leikskólanum Gimli komu í heimsókn til að hitta ykkur eldri borgara. Einnig komuð þið reglulega í heimsókn í leikskólann. Þá spjallaðir þú við börnin og fannst svo gaman þegar þau sungu fyrir ykkur. Þessar gagnkvæmu heimsóknir voru ómissandi þáttur í þínu lífi. Alltaf hrósaðir þú starfi leikskólakennaranna og hvað börnin væru sjálfsörugg, dugleg og kurteis.

En núna hefur þú fengið hvíldina þína og við vitum að afi Hebbi hefur tekið þig í faðm sér. Hjartans þakkir fyrir allt.


Þín tengdadóttir Sigurbjörg Eydís, þinn sonur Sigmundur Már og ömmustrákarnir þínir Herbert Már og Gunnar Már.