Trausti Breiðfjörð Magnússon fæddist 13. ágúst 1918 að Kúvíkum í Reykjarfirði í Árneshreppi. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Hrafnistu í Reykjavík 7. mars 2019.
Hann var sonur hjónanna Magnúsar Hannibalssonar og Guðfinnu Guðmundsdóttur. Trausti átti þrjár alsystur og auk þess sex hálfsystkini samfeðra. Trausti ólst upp á Gjögri í sama hreppi og hóf ungur að stunda sjó. Hann var farsæll sjómaður og vann frækilegt björgunarafrek ásamt áhöfn sinni á flóabátnum Hörpu ST 105 er þeir björguðu mótorbátnum Ægi við skerið Barm í byrjun desember 1947. Hann giftist Huldu Jónsdóttur frá Seljanesi 1951 og bjuggu þau í Djúpavík uns Trausti gerðist Vitavörður á Sauðanesi við Siglufjörð 1959. Trausti fluttist ásamt konu sinni til Reykjavíkur árið 1997 þar sem þau hafa búið síðan.
Börn þeirra eru: 1) Bragi, f. 5.10. 1946, giftur Eygló Guðmundsdóttur. Börn þeirra eru Atli Már og Hallur Örn. 2) Sólveig, f. 16.6. 1951, d. 30.11. 2009. Börn Sólveigar eru Magnús Þór, Drífa Þöll, Örn og Lucinda Hulda. 3) Margrét, fædd 24.6. 1952, gift Jósé Moreira. Börn Margrétar eru Stella Mjöll og Hulda Valdís. 4) Magnús, f. 7.5. 1954, giftur Dagbjörtu Matthíasdóttur . Börn Magnúsar eru Þóra Huld, Jón Bjarki og Trausti Breiðfjörð. 5) Vilborg, f. 11.1. 1957, gift Geir Zoëga. Börn Trausti Veigar, Emil, Geir Fannar og Kristján Þór. 6) Jón Trausti, f. 27.1. 1965, giftur Herdísi Erlendsdóttur. Börn þeirra eru Hannibal Páll, Jódís Ósk og Hulda Ellý.
Minningarathöfn um Trausta fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 21. mars 2019, kukkan 13.
Útförin fer fram frá Árneskirkju í Árneshreppi á morgun, 22. mars 2019, klukkan 14.

Pabbi var snaggaralegur maður, hann var orðheppinn, glaðsinna, einlægur, skapmikill en ekki langrækinn. Söng mikið. Hann var mikill fjölskyldumaður og fyrirvinna.
Pabbi var ekki lengi í skóla eins og við þekkjum skólakerfið. Hann sagði okkur að hann lærði sjómennsku af Hjálmari gamla á Gjögri. Stundaði sjó með föður sínum. Hann var til sjós öll stríðsárin og sigldi á Bretland.
Tók pungaprófið varð skipstjóri á fiskibátum Örninni og Hörpunni sem var flóabátur.
Skemmtilegast fannst mér þegar ég fékk að vera með í að draga björg í bú.  Man þegar þegar ég fór með að vitja um rauðmaganetin. Þá fann ég fyrir ábyrgð minni að hjálpa til. Róa, taka úr netunum, lenda á þriðju báru, setja bátinn og heim með aflann. Aðstoða við búskapinn, gefa kindum, kúm og hænsnum, geitum, hestum, köttum, hundum og öndum, líka dúfum og dverghænum svo eitthvað sé nefnt. Vaka yfir kindunum í sauðburði, oft með mömmu á næturvakt, reka kýr, mjólka, vinna í heyskap og smala. Bæði til rúnings í júní eins og þá tíðkaðist og svo á haustin af fjalli. Vasast með í vitanum og stundum að sýna hann ferðamönnum. Mín fyrsta launaða vinna var við að skrapa og mála vitann og pabbi var verkstjóri. Þetta er lítil upptalning sem sýnir um leið hve mikið börn lærðu með því að taka þátt í lífsbaráttunni.  Það er skóli sem seint verður metinn að verðleikum.  Skóli sem mótaðist af harðri lífsbaráttu fyrri kynslóða og skilaði sér til okkar afkomendanna.  Á svo margan  þátt.
Okkur skorti aldrei neitt.  Pabbi og mamma sáu til þess.  Stundum, áður en vegurinn kom á Sauðanes gengum við fjölskyldan yfir Herkonugilið, inn á Dalabæ og flatmöguðum í sólinni eða lékum okkur.   Vorum með nesti sem oft var maltöl og hrískex sem komið hafði með vitaskipinu auk einhvers heimagerðs góðgætis sem mamma hafði bakað.
Það gerðust oft ævintýri þar sem pabbi var.  Algengt var að gestir kæmu í sunnudagskaffi á Sauðanes, eftir að Strákagöngin voru lögð til Siglufjarðar.  Einu sinni sem oftar höfðu nokkrir Færeyingar sem voru á skútum við veiðar komið í heimsókn.  Séra Ragnar Fjalar Lárusson sem þá var prestur á Siglufirði kom eining við þann dag og allir voru drifnir í fótbolta.  Pabbi var í liði með Færeyingunum en presturinn í liði með heimamönnum og gestum.  Pabbi sem var mikill keppnismaður hrópaði hvatningarorð til Færeyinganna sem honum fannst láta prestinn komast ansi nærri markinu. Farið í hann, eruð þið hræddir við prestinn?  Nei við erum ekki hræddir við prestinn en við erum hræddir við prestsfótinn, kölluðu þeir á móti. Enda kom á daginn að Ragnar Fjalar var í támjóum spariskóm. Þetta er svo lýsandi fyrir pabba. Hann varðveitti ætíð barnið í sjálfum sér og kallaði það um leið fram hjá öðrum. Líka hjá virðulegum sóknarpresti sem stóðst ekki mátið að taka þátt í stráksskapnum og lét ekki támjóa blankskó stöðva sig.
Margar minningar koma upp í hugann frá daglegum gönguferðum okkar seinni árin. Það var alveg ótrúlegt hvað mikill kraftur var í pabba. Kraftur sem var smitandi og við hreinlega héldum hvert öðru gangandi. Stundum var hann með svo mikla verki í bakinu þegar við lögðum af stað að hann stóð varla í fæturna en fljótlega lagaðist það og er þar eingöngu því að þakka hve hann var óvæginn við sjálfan sig.
Pabbi var æðrulaus maður og tók því sem að höndum bar. Hann var fagurkeri.  Það voru forréttindi að fylgja honum gegn um síðustu mánuðina. Sjá af hve mikilli þrautseigju hann vann sig upp eftir erfið veikindi. Lagði ótrúlega mikið á sig til að ná upp styrk til að komast aftur heim. Hann var stoltur af heimilinu þeirra mömmu og talaði oft um hve það væri fallegt.
Hann fékki inni á Hrafnistu tveim dögum eftir 100 ára afmælið sitt en hann hafði sótt um á Hrafnistuheimilinu svona til að eiga pláss ef á þyrfti að halda. Þar leið honum vel þó hugurinn væri heima.
Einu sinni þegar ég kom til hans í vetur og honum leið mjög illa sagði hann: þú skrifar þá fallega minningargrein um mig.  Ég sagði: það er nú ekki erfitt að skrifa fallega um þig sem hefur lagt okkur öllum svo margt fallegt til í lífinu.
Við hjónin heimsóttum hann daglega. Fórum oft í stuttan bíltúr þegar veður og heilsa leyfðu, keyptum ís, fórum bryggjurúnt, stundum í heimsókn til vina eða gerðum eitthvað annað skemmtilegt. Pabbi og Geir maðurinn minn voru innilegir vinir. Alltaf átti pabbi einhverja lífsspeki sem við nú geymun með okkur og gaukum að öðrum þegar á þarf að halda.
Pabbi var hugulsamur og forsjáll.  Var af gamla skólanum. Þar sem fólk lagði metnað sinn í að eiga fyrir útförinni. Pabbi keypt kistuna fyrir þremur árum.  Hann hafði safnað fyrir útförinni gegn um árin og lagði það inn í Sparisjóð Strandamanna eftir að hann kom á Hrafnistu en hann vildi láta jarða sig á Ströndum.
Páll postuli sagði: Lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur.



Að kunna að lifa er að kunna að deyja.




Lít ég yfir langan veg
létt við hjarta syngur.
Lífsins dýrð er dásamleg
og dauðinn ávinningur.
(Vilborg Traustadóttir)

Sporin hans pabba liggja víða.  Stundum hugsa ég með mér að einhversstaðar í mosaþúfu eða á sæbörðum kletti sé a.m.k eitt sporið hans greipt ennþá.

Við höfum notið samverunnar og erum þakklát fyrir hverja stund pabbi minn.
Það er söknuður í okkur.
Í Guðs friði.


Vilborg Traustadóttir.