Staðan er þessi: Ríkisstjórnin ásamt fylgifiskum vill staðfesta orkupakkann en telur það ekki óhætt nema með lagalegum fyrirvara.

Staðan er þessi: Ríkisstjórnin ásamt fylgifiskum vill staðfesta orkupakkann en telur það ekki óhætt nema með lagalegum fyrirvara. Málinu fylgir loðin yfirlýsing utanríkisráðherra og framkvæmdastjóra orkumála hjá Evrópusambandinu um sameiginlegan skilning á gildi pakkans gagnvart Íslandi. Vandinn er sá að óljóst er um gildi einhliða fyrirvara gagnvart hinni þjóðréttarlegu skuldbindingu sem samþykki leiðir af sér. Óvíst er hvaða hald yrði í hinni sameiginlegu yfirlýsingu ef á málið reyndi fyrir dómstólum.

Fyrir Alþingi liggja í málinu lögfræðilegar álitsgerðir færustu manna en þeim ber ekki að öllu leyti saman. Skylt er þegar uppi eru spurningar tengdar auðlindum að stíga gætilega til jarðar. Í margnefndri álitsgerð Friðriks Árna og Stefáns Más liggja sem rauður þráður varnaðarorð af ýmsu tagi. Meginniðurstaða þeirra er að „verulegur vafi“ leiki á því hvort framsal ákvörðunarvalds rúmist innan ákvæða stjórnarskrárinnar. Þeir segja ekki „fordæmi fyrir slíku valdframsali“ sem hér um ræðir „til alþjóðlegra stofnana á grundvelli EES-samningsins“. Þá segja þeir enga heimild til þess „að taka í lög ákvæði sem ekki fá staðist íslenska stjórnarskrá þó að svo standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn“.

Ein möguleg lausn, segja Friðrik og Stefán Már, gæti falist í að Ísland fari fram á undanþágur frá tveimur reglugerðum sem ekki eiga við hér á landi meðan ekki liggur hingað sæstrengur. Þyrfti þá að taka málið upp í sameiginlegu EES-nefndinni á grundvelli ákvæða í EES-samningnum.

Í álitsgerðinni nefna höfundar að „möguleg lausn gæti falist í því að þriðji orkupakkinn verði innleiddur í íslenskan rétt en með lagalegum fyrirvara“ sem lýtur að hugsanlegum sæstreng. „Þessi lausn er þó ekki gallalaus,“ segja þeir í lokin.

Síðarnefnda lausnin er nú í boði af hálfu ríkisstjórnarinnar. Um hana er fjallað í sjö og hálfri línu í 43 síðna áliti Friðriks og Stefáns Más. Fyrir Alþingi liggur engin álitsgerð um þessa lausn; hvort lögfræðilegi fyrirvarinn dugi til að vega upp á móti þjóðréttarlegum skuldbindingum sem fylgja samþykki við pakkann. Ekkert liggur fyrir um hverjir eru helstu gallar á þessari viðbótarlausn. Samt virðast stuðningsflokkar málsins á Alþingi tilbúnir að samþykkja orkupakkann sem felur í sér ákvörðunarvald erlendrar stofnunar sem tekur „a.m.k. óbeint til skipulags og ráðstöfunar á mikilvægri orkuauðlind þjóðarinnar“.

Kjarni málsins er einfaldur: Það ríkir óvissa um hvort við séum að opna dyr að orkuauðlindum þjóðarinnar sem seinna verður hugsanlega læðst inn um. Við erum að minnsta kosti að skilja dyrnar eftir ólæstar. Hver er munurinn?

Höfundur er þingmaður Miðflokksins. olafurisl@althingi.is