Eyjólfur Ármannsson
Eyjólfur Ármannsson
Eftir Eyjólf Ármannsson: "Alþingi ætlar að lögtaka orkustefnu ESB án þess að Ísland hafi eigin orkustefnu. Með fyrirvörum skv. raforkulögum sem falla utan gildissviðs þeirra."

Nú eru fyrir atvinnuveganefnd Alþingis þrjú mál í tengslum við samþykki Íslands á þriðja orkupakkanum. Það fyrsta er mál um breytingar á lögum um Orkustofnun (OS); annað er mál um breytingu á þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku; og þriðja er mál um breytingu á raforkulögum um tilvísun í þá stefnu stjórnvalda.

Fyrsta málið, um breytingar á lögum um OS, lýtur að auknu sjálfstæði raforkueftirlits OS. Einnig hækkun sektarheimilda, sem munu geta numið 10% af veltu fyrirtækja, og hækkun raforkueftirlitsgjalds vegna aukinna skyldna raforkueftirlits OS. Sjálfstæði raforkueftirlits og annarra eftirlitsstofnana hefur ekki verið ábótavant í íslensku stjórnkerfi og er hér um að ræða óeðlileg afskipti af hálfu ESB, sem vega að sjálfstæði íslenskrar stjórnsýslu.

Hin tvö málin snúast um að við innleiðingu þriðja orkupakkans eru stjórnvöld að reyna með íslenskri löggjöf að tryggja að ekki verði lagður sæstrengur til ESB nema með samþykki Alþingis. Þetta er gert með breytingu á raforkulögum, þar sem segir: „Um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fer samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.“ Málið er að innan EES gilda EES-lög, ekki íslensk lög.

Stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku er ákveðin með þingsályktun og því þarf að breyta henni með nýjum tölulið um að sæstrengur verði ekki lagður nema með samþykki Alþingis.

Ekki nægir því að setja lagafyrirvara við innleiðingu á sjálfum þriðja orkupakkanum í íslenskan rétt; það er þriggja ESB-gerða um raforku og einni um Samstarfsstofnunina. Einnig á í íslenskum lögum að kveða á um að sæstrengur til ESB verði ekki lagður nema með samþykki Alþingis. Hér eru notuð bæði belti og axlabönd og farið í lögfræðiloftfimleika. Stóra málið er að til lengri tíma litið er engin öryggisdýna þegar kemur að því að Íslendingar spyrja sig hvort þeir stjórni orkumálum sínum sjálfir eða ekki. Ljóst er að fyrirhugaðar breytingar, á raforkulögum og þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, falla utan gildissviðs raforkulaga. Ástæðan er að gildissvið raforkulaga tekur „til vinnslu, flutnings, dreifingar og viðskipta með raforku á íslensku forráðasvæði“. Millilandatengingar falla utan gildissviðsins. Alþingi getur ekki samþykkt breytingar bæði á raforkulögum og á þingsályktun sem byggist á raforkulögum sem falla utan gildissviðs þeirra laga.

Ísland er án orkustefnu, en ákvörðun um grundvallarmál sem sæstrengur til Evrópu er á ekki heima í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Sú stefna er samkvæmt raforkulögum einungis til fjögurra ára í senn og felur ekki í sér grundvallarstefnumótun í orkumálum.

Þetta hafa stjórnvöld viðurkennt. Haustið 2011 lagði ráðherra fyrir Alþingi skýrslu, „Heildstæð orkustefna fyrir Ísland“, með kafla um sæstreng til flutnings raforku á milli markaða.

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipaði vorið 2018 starfshóp til að vinna orkustefnu fyrir Ísland. Leggja á tillögur hópsins fyrir Alþingi í byrjun árs 2020. Í erindisbréfi ráðherra, dags. 23. apríl 2018, kemur fram að í orkustefnu þurfi áherslur stjórnvalda að ná til ákveðinna þátta, þar á meðal: Hugmynda um útflutning raforku í gegnum sæstreng. Orkustefnan á að vera til 20-30 ára og mun sæta reglulegri endurskoðun (á 4-5 ára fresti). Af hverju sami ráðherra vill að kveða skuli á um ákvörðun um sæstreng í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku sem er til fjögurra ára, þegar hann hefur skipað starfshóp til að fjalla um sama mál í orkustefnu til 20-30 ára er óskiljanlegt.

Orkustefna ESB er forgangsmál framkvæmdastjórnar ESB og er hún gríðarlega umfangsmikil. Aðalmarkmið orkustefnu ESB er einn samtengdur innri raforkumarkaður, en markmiðum orkustefnu ESB er komið í framkvæmd í áföngum með orkupökkum, nú með þriðja orkupakkanum. Evrópuþingið telur að með þriðja orkupakkanum sé lagður hornsteinn að innri orkumarkaði ESB. Pakkinn er að stórum hluta tæknileg markaðslöggjöf en felur í sér grundvallarbreytingu með Samstarfsstofnuninni. Með innleiðingu orkustefnu ESB með orkupökkunum án ákvörðunar þjóðarinnar mun Ísland missa stjórn á orkumálum sínum til ESB.

Alþingi ætlar samtímis að samþykkja þriðja orkupakkann og skuldbinda Ísland að þjóðarétti til að innleiða í landsrétt áfanga í orkustefnu ESB og að setja málsgrein inn í „stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku“ sem gengur gegn orkustefnu ESB. Ekki er bæði samtímis hægt að innleiða áfanga í orkustefnu ESB og ákveða stefnu sem gengur gegn henni.

Alþingi ætlar að lögtaka orkustefnu ESB án þess að Ísland hafi mótað sína eigin orkustefnu. Ekki nóg með það, stefnulaust Ísland varðandi ákvörðun um sæstreng og samtengingu við innri raforkumarkað ESB ætlar að taka upp í landsrétt reglur ESB um raforkuviðskipti yfir landamæri.

Þriðji orkupakkinn tekur við af Landsréttarmálinu í sögu Alþingis, enda er þar ónýtt ráðningarferli. Skal engan undra að þjóðin treysti ekki Alþingi Íslendinga.

Höfundur er lögfræðingur LL.M. eyjolfur@yahoo.com