Hvað gerir Ófeigur Hrólfsson fjallgöngumaður sem óvænt og skyndilega er staddur á brún hengiflugs? Stekkur hann fram af og vonar það besta?
Nei, hann stígur nokkur skref aftur á bak og hugsar málið; Hvernig hann lenti þarna og hve litlu munaði – að hann hrapaði til bana.
Í dag lifir Ófeigur góðu lífi. Hann fer í leiki og gönguferðir með barnabörnin sín og kennir þeim að þekkja náttúruna. Heima situr hann oft með þau í fanginu og segir þeim sögur – þessa og fleiri. Hann segir þeim líka hvað má læra af sögunum.
Í dag stendur heil þjóð á brún hengiflugs – við, íslenska þjóðin. Málið er að þessa dagana búast margir þingmenn til að taka stóran hluta landgæða þjóðar sinnar – okkar sem þeir eru í vinnu hjá – og stökkva í fang þjóðasamsteypu, afhenda henni þau og vona það besta.
Að afhenda Evrópuþjóðasamsteypunni – undir hvaða nöfnum sem hún kýs að birtast okkur, rafmagnið, sjálft lífæðanet okkar – til notkunar um alla Evrópu, dreifingar, framleiðslustýringar og verðlagningar – m.a.s. hjá okkur Íslendingum sjálfum, þó að það muni við það hækka margfalt í verði. Hækkun ein og sér skekkir rekstrargrundvöll langflestra fyrirtækja og heimila stórlega.
Samkeppnisstaða fyrirtækja versnar mikið, m.a. af því að það þarf að greiða hærri laun svo starfsmenn geti greitt stórhækkaðan rafmagnsreikninginn heima hjá sér og öll aðföng. Meira að segja skattar og afborganir af lánum hækka. Þetta kallast að kynda verðbólgubál. Í stuttu máli sagt, allt hækkar nema ánægjustuðull þjóðarinnar sem byggir þetta land og með hörðum höndum byggði upp raforkukerfið – allt frá fyrstu „túrbínu“
„Heljar“stökk?
Hvers vegna taka stjórnmálamenn heljarstökk út í heim með rafmagnið okkar? Er það satt að þegar erlendir framámenn segja „stökkva“ þá spyrji Íslendingar „hve hátt?“ Og sjaldan átta sumir þingmenn sig á því að oft eru heljarstökk einmitt það: Stökk til Heljar.Hver veit á hverju stjórnmálamenn átta sig og hverju þeir vilja átta sig á...?
Allt byrjaði þetta með því að við gengum í band við þjóðir Evrópu, svona viðskipta- og menningarband. Leikhópar, kórar og Sinfóníuhljómsveitir áttu, til menningarauka, að heimsækjast í kross – sem oft hafði reyndar þegar verið gert. Gagnkvæmt frelsi í skólanámi milli landa átti að vera tryggt – hafði reyndar aldrei verið nein fyrirstaða með það. Þannig var margt lagað sem ekki var bilað! Nú, nú, ýta átti undir viðskipti milli landa með tollaniðurfellingum. Íslendingar fundu reyndar strax ráð við því með nafnabreytingum á vörutollum, sem enn standa það ég best veit. Já, þannig sluppu Íslendingar – að hluta – við hagræði lágra tolla, enda engin ástæða til að þeir sætu, sitji, muni eða mundu sitja í of miklum makindum. Hinar þjóðirnar ætluðu víst að fella niður aðflutningsgjöld á íslenskum fiski, en hafa nú ekki staðið alveg við það, segir utanríkisráðherra okkar enda aðeins liðin um þrjátíu ár frá samningsgerðinni, blekið varla þornað!
Þessi gjörningur er glapræði
Ef málið væri ekki grafalvarlegt gætum haldið áfram að flissa að þessum farsa. En, það er ekki sanngjarnt gagnvart þeim sem upp á horfa, þjást og eiga eftir að flýja land eða borga brúsann – eða hvort tveggja.Nei, það er ekkert nýtt að sumir þingmenn séu hvorki með fæturna á jörðinni né í sambandi fólkið í landinu – því miður.
Nú flykkjast sumir þingmenn til að afhenda ESB rafmagnið okkar, rétt eins og hægt væri að skreppa út í búð og kaupa bara nýtt rafmagn í staðinn! Jú, það verður hægt að kaupa rafmagn á „nýja verðinu“ hjá ESB. Það er að segja, það verður reyndar gamla rafmagnið frá Landsvirkjun sem við (þjóðin) munum reyndar ekki eiga mikið lengur – það, eða ráðstöfun þess, er nefnilega partur af pakkanum.
Ef alþingismenn skilja ekki hve mikið glapræði þessi gjörningur er, hversu ómetanleg stoð ódýra rafmagnið okkar er við búsetu í landinu, ættu þeir að hugsa upp á nýtt. Ef þeir skilja þetta tvennt en ætla samt að samþykkja orkupakka þrjú á þingi, þá er kominn tími til að líta í stjórnarskrána.
Nei, þetta er ekki tíminn til að samþykkja neitt, bara vegna þess að það kemur frá Brüssel. Þvert á móti, við þurfum að læra að segja nei. Orkupakki ESB er eins og spenntur dýrabogi sem bíður þess eins að við tyllum fæti niður á hann. Sama mun gilda um þá pakka sem á eftir koma...
Heimsveldi verða seint södd
Pantaður eftirlaunadómari frá ESB var fenginn til að skrifa skýrslu um stöðu okkar gagnvart ESB. Hann var síðan fenginn til landsins til að segja okkur að ef við ekki segðum já, þá myndi ESB hugsanlega refsa okkur; takmarka réttindi okkar í EES og sýna hörku, m.a. vegna þess að ESB vantar orku – þar höfum við það!Nei, þetta er ekki rétti tíminn til að „lúffa“. Þetta er tíminn til að segja nei og sjá sjá hver „réttur“ ESB raunverulega er. Ef þeir geta, í fullum rétti, hert EES-samninginn um hálsinn á okkur þá viljum við vita það sem fyrst. Ef það er niðurstaða dómstóls, þá er kveðjustund Íslendinga og EES runnin upp. Þannig mun okkur líka best farnast – með frelsi og fullt af ódýru rafmagni til að byggja upp landið okkar og þjóðfélagið.
Ef, já, ef við einhvern tímann sjáum okkur hag í að selja rafmagn til útlanda verður það hugsanlega eftir að Bretar eru farnir úr ESB.
Við framleiðum, og seljum – mælirinn verður á Íslandi, ekki í Brüssel. Við ráðum ferðinni og verðinu, milliliðalaust. Átti þessi strengur annars ekki hvort eð er að liggja til Skotlands?
Höfundur er fv. forstjóri, flugumferðarstjóri og forsetaframbjóðandi 2004. bagustsson@mac.com