Hagsmunaöflum liggur mikið við að koma orkupakka 3 í gegn um þingið. Þetta sést m.a. á því að þingmenn sem ýmist höfðu lýst miklum efasemdum eða harðri andstöðu hafa verið leiddir fram og játað sig sigraða. Þorri Íslendinga er andsnúinn innleiðingu pakkans í íslenskan rétt og mikill meirihluti í öllum stjórnmálaflokkum kýs að afþakka hann.
Í Silfri Egils sl. sunnudag, sem Fanney Birna Jónsdóttir stjórnaði, var gerð hörð atlaga að skoðanafrelsi almennings á orkupakka Evrópusambandsins númer 3. Þessi stjórnandi þáttarins tilheyrir þeim örlitla minnihluta (8%) sem kýs að kalla pakkann yfir þjóðina. Stjórnandanum hafði tekist fyrir þennan þátt að finna og kalla í settið hjá sér fjögur skoðanasystkini sín, sem gáfu fordómum og öfgafullum skoðunum stjórnandans ekkert eftir. Fólkinu vafðist ekki tunga um tönn enda voru af þessum fjórum tveir almannatenglar, sem hafa atvinnu af því að koma sjónarmiðum annarra á framfæri gegn hæfilegri þóknun.
Enginn þeirra treysti sér til að segja eitthvað jákvætt um Orkupakka 3. Aftur á móti treystu þau sér öll til að segja margt misjafnt um innræti þeirra sem hafna þessum pakka. Tilgangurinn RÚV var augljóslega að sverta efasemdafólk um pakkann, til að hræða venjulegt fólk frá því að mynda sér skoðun. Stjórnandi þáttarins var einhverskonar hópeflisstjóri og fólkið reyndi ákaft að trompa hvert annað í svívirðingum um þá sem vilja ekki afsala Íslendingum forræði yfir orkuauðlindunum. Stjórnandinn gaf fyrsta tóninn með því að segja „þetta fólk“ af sama sauðahúsi og þá sem vilja ekki taka á móti flóttamönnum. Eftir það tók kórinn við: „Þetta er sorgleg spegilmynd einangrunarhyggju, sama liðið og styður Trump og Brexit og fólk sem er á móti alþjóðasamvinnu. Þetta eru gamlir hvítir karlar, Frosti Sigurjónsson er þeirra yngstur en samt er hann gamall. Þetta sama lið talar um Ísland fyrir Íslendinga. Við þurfum ekki að fara lengra en til Svíþjóðar til að finna ámóta dæmi um einangrunarhyggju og útlendingaandúð.“ Einhverjum hefði þótt nóg að gert en þá líkti annar almannatenglanna framgöngu grasrótarsamtakanna Orkunnar okkar við uppgang fasískra og semifasískra leiðtoga.
Að þessu sögðu hurfu álitsgjafarnir á braut og stjórnandinn kynnti með mikilli aðdáun konuna með langa nafnið og mörgu ráðherratitlana. Kjarni máls hennar var að hennar hlutverk sem foringja væri ekki að hlusta á kjósendur heldur leiða þá.
Erfitt er að verjast þeirri hugsun að eini tilgangur RÚV sé að hræða almenning frá því að mynda sér skoðun eða a.m.k. því ella megi það undirgangast svipuhögg af þessu tagi. Að lauslega athuguðu máli sýnist mér RÚV hafa í þessum eina þætti brotið nokkrar veigamiklar lagagreinar.
Ekki verður annað séð en talsmenn Orkunnar okkar eigi lögvarinn og siðferðilegan rétt á að manna næsta Silfur, ekki einungis til að bera af sér sakir persónulega heldur leiðrétta afflutt mál sem varðar þjóðarhag.
Höfundur er fv. kaupmaður og sjálfboðaliði í framkvæmdastjórn Orkunnar okkar. siggiginseng@gmail.com