Örn Egilsson fæddist 15. nóvember 1937. Hann andaðist 13. apríl 2019.
Útför hans fór fram 23. apríl 2019.

Elskulega yndislega fjölskylda, vinirnir góðu, bræður mínir og góðir gestir.

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin í þetta fallega Guðshús sem Fella- og Hólakirkja er, til þessarar stundar  þegar við hér í dag kveðjum föður okkar Gunnhildar hann Örn Egilsson, sem ævinlega leit á þetta helga hús sem sína kirkju enda starfaði hann hér í sóknanefnd á uppbyggingarárum hennar.

Er völlur grær og vetur flýr
og vermir sólin grund,
kem ég heim og hitti þig,
verð hjá þér alla stund.

Að ferðalokum finn ég þig
sem mér fagnar höndum tveim.
Ég er kominn heim,
já ég er kominn heim.



Þetta fallega lag á vel við í dag þegar skoðaður er ljúfur textinn, fullur af tilhlökkun um endurfundi og ferðalokin góðu. Pabbi hafði fulla vissu um þá endurfundi sem hans biðu enda var það svo að þegar hann kvaddi yngri systkini sín þau Höskuld bróður sinn og systurnar Ragnheiði og Margréti Þórdísi og foreldra þeirra Egil afa og Arnleifi ömmu, þá hafði hann það fyrir siðu að kveðja þau með því að segja: Við sjáumst síðar. Og þessi fullvissa pabba er sótt í fyrirheitin sem frelsarinn gaf honum líkt og okkur öllum:  Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. (Jóh. 11:25-26)

Eftir langvinn en hægvirk veikindi og erfiða baráttu undir það síðasta hófst lokaferðin til grænna valla þar sem sól vermir grund og þar fagnandi biðu komu hans með höndum tveim ástvinirnir sem á undan gengu. Ekki kæmi mér nú á óvart að hún Ragnheiður langamma mín yrði fyrst til að faðma pabba að sér enda var alveg sérlega kært millum þeirra og þegar hann pabbi var lítill drengur þá var það einmitt þessi litla, fíngerða en hjartstóra kona sem lagði grunn að trú pabba. Arnleif  amma sem kom að austan frá Höskuldarstöðum við Djúpavog  átti líka þessa sterku trúarfestu og þær tvær kenndu pabba bænirnar góðu sem áfram lifðu með honum og hann síðan sjálfur byggði ofan á. Þessar hlýju og gefandi stundir rétt fyrir svefninn þegar drengurinn litli fór með sínar bænir og samhljómur þeirra beggja reis ofan af sænginni upp til himna gaf alveg sérstakan frið fyrir nóttina og man ég sjálfur slíkar stundir með Arnleifi ömmu sem hafði þessa ljúfu rödd og mikinn bænahita. Slíkar voru konurnar sem urðu áhrifavaldar í lífi pabba enda dýrkaði hann þær báðar og dáði og þreyttist aldrei á því að segja mér af þeim ómælda kærleik sem hann fann í öruggum faðmi þeirra beggja.

En sú kona sem átti eftir að hafa mestu og stærstu áhrifin í lífi pabba var þessi unga fallega mannvera sem hann sá fyrst þegar hann var staddur í sumarblíðunni úti á dekki sem ungur þjónn á Gullfoss þar sem skipið lá við hafnarbakkann í Kaupmannahöfn. Þar í mannhafinu sá hann unga konu ásamt móður sinni og brosti til þeirra beggja. Margt löngu seinna heyrði ég þá sögu að þá hafi móðir stúlkunnar og síðar tengdamóðir pabba sagt við hana mömmu þú skalt passa þig á þessum unga manni

Ráðin voru til lítils og veit ég fyrir víst að hún amma mín Else var fegin eftir á fyrir ákveðni pabba í þessum málum, enda varð þetta rómantíska augnablik upphaf að ástarævintýri sem lifir enn.  Á gamlársdagskvöldi árið 1959 voru hringarnir settir upp og þráðurinn ofinn sem þrátt fyrir lífsins veðrabrigði hélt fast og ávöxtur þeirrar hamingju birtist í Gunnhildi sem fæddist 1960 og svo tveimur árum síðar í mér.

Pabbi var alla tíð alveg sérlega ræktarsamur við fjölskyldu sína og hafði unun af því að grúska í ættfræði, áum sínum og finna tengingar við sitt samferðafólk. Hann vildi að fjölskyldan héldi vel utan um uppruna sinn og sína forfeður. Hann gaf sjálfur út lítil rit sem hann síðan gaf til allra, svona til að tryggja að við yngri kynslóðin vissum til fulls hvaðan við kæmum. Og ekki þótti honum nú slæmt að geta rakið sínar ættir til frægra víkinga og norrænna konunga.

Já pabbi taldi það ekki eftir sér að fara árlega hringinn í kringum landið til þess að treysta fjölskylduböndin meir og meir, hvort sem um var að ræða Gljúfraborgina við Breiðdalsvík, Raufarhöfn fyrir norðan, Höfn í Hornafirði eða Hellu fyrir austan. Eftir því sem æ fleiri úr fjölskyldunni fluttust suður fækkaði ferðum út á land, en að sama skapi var hann alla tíð ötull í því að halda uppi Ættarmótum og var hrókur alls fagnaðar svona fram yfir miðnættið og að þeim ákveðna tíma þegar honum fannst þetta bara orðið gott. Þá áttu bara allir að drífa sig í háttinn

Tónlist skipaði mikinn sess í lífi pabba. Hann var góður söngmaður, hafði einstakt lag á því að spila á kassagítarinn en hans bestu stundir með þann grip voru þó með Höskuldi bróður sínum og á öllum mannamótum í fjölskyldunni var uppáhaldslag þeirra spilað, All of Me, og lifir það lag áfram með fjölskyldunni. Hann spilaði sem áhugamaður í hljómsveitum sem ungur maður en síðasta bandið var hljómsveit hússins í Maríuhúsi þar sem hann var í dagvistun í upphafi veikinda sinna og þá byrjaður að tapa veruleika líðandi stundar. Til er glettin og ljúfsár saga sem sýnir áráttu pabba til að hafa allt bjútífúl í þessu sem öllu öðru en þegar hann á gítarinn og tveir aðrir á píanó og ígildi trommu byrjuðu að spila þá stoppaði pabbi allt í einu flutninginn og sagði ákveðinn: Strákar. Ef þið getið ekki haldið takti þá verð ég að reka ykkur úr bandinu

Pabbi var alla tíð frá ungra aldri virkur í félagsstörfum og hafði knýjandi þörf til þess að takast á við menn og málefni. Fyrir vikið var það því oft svo að hann átti erfitt með að koma að einhverju sem hann gat ekki haft áhrif á eða beint eða óbeint stjórnað. Hann var nákvæmur, fylginn sér, ýtinn og gerði kröfur sem æði mörgum fundust stundum ósanngjarnar en þó voru það á endanum reyndar alltaf sömu kröfurnar og hann gerði til síns sjálfs.

Þörf pabba til félagsstarfa, tækifæri til að auðga sitt samfélag og til að bæta sig sjálfan sem persónu fann loks frjósaman svörð í bræðralagi Frímúrarareglunnar á Íslandi.  Þar hóf hann sína ferð til aukins vaxtar og þroska í St. Jóhannesarstúkunni Glitni. Í þessu samfélagi fann pabbi góð fræði sem heilluðu, kallið til góðra verka en umfram allt bræðraþel og vináttu þeirra sem hann þar kynntist og bast órofa böndum við.  Í hópi þeirra lifði hann og starfaði undir kjörorðinu: Sannleikur Réttlæti. Og það er í anda þessa samhug bræðranna sem þeir nú í dag standa hér við kistu látins bróður og gæta hans meðan við fjölskyldan og vinirnir allir kveðjum.

Já trú pabba var sterk eins og barnabörnin og barnabarnabörnin seinna meir upplifðu þegar afi tók fram bókina góðu og flutti Jólaguðspjallið áður en sest var að borðum. Eigi skyldi jólin halda nema sagan af fæðingu Jesú væri sögð fyrst og þótti þeim ekki amalegt þegar afi leitaði til þeirra eftir svörum og skilningi á frásögninni. Samfylgdin með Krist var auðveld og vinskapur þeirra tær. Með hann sér við hlið var allt gott og allt var hægt.  Marteinn Lúther orðaði hug pabba vel í þessum efnum:

Vor Guð er borg á bjargi traust,
hið besta sverð og verja,
hans armi studdir óttalaust
vér árás þolum hverja.


Pabbi vissi að hin jarðlega vist væri aðeins tímabundin og fengin að láni. Frá upphafi skapara síns hefði hann komið og til hans færi hann því aftur. Því bæri að lifa lífinu vel, lifa því gefandi og ríkulega í samfylgd annarra, reyna sitt besta til að gera betur í dag en í gær, á morgun betur en í dag og reyna að lifa í samræmi við þau kærleiksríku gildi sem trúin krafði hann um og krefur okkur öll um sem viðurkennum Krist sem leiðtoga lífsins.  Á dánardægri afa Egils orti pabbi litla vísu sem í dag á við um hann sjálfan:

Slitinn er strengur,
slokknaður þeyr.
Horfinn er drengur,
góður sem deyr.



Við fjölskyldan gleymum ekki því marga góða fólki sem í gegnum veikindi pabba komu að hans umönnun, fólkinu í Maríuhúsi, hinu kærleiksríka starfsfólki í Skógarbæ þar sem hann bjó síðustu árin en sérstakar þakkir færum við þó þeim sem hjálpuðu okkur með vökuna undir það síðasta. Guð launi ykkur öllum ómælt fyrir þann mikla kærleika sem þið svo ríkulega veittuð til hans og til okkar.

Við fjölskyldan minnumst þessa góða drengs nú í dag með hljóðu þakklæti fyrir allt það sem hann okkur gaf, fyrir allar stundirnar sem skilja eftir ríkulegar minningar, fyrir alla umhyggjuna, kærleikann góða og fyrir vináttuna einstöku.

Það er gott að sjá ykkur öll samankomin hér í dag til að fagna lífi hans en kveðja þó um leið. Hann pabbi taldi sig ævinlega með ríkari mönnum vegna þeirra sem voru í hans lífi og eruð Þið hvert og eitt vitnisburður um þetta ríkidæmi. Hafið hjarthlýjar þakkir fjölskyldunnar fyrir vináttuna og samveruna hér í dag.

Guð blessi þig pabbi minn fyrir allt og allt og skilaðu kveðju okkar Gunnu til allra okkar í Sólarlandinu blíða. Drottinn geymi þig ávallt og hafðu góða ferð.

Pabbi. Við sjáumst síðar.

Egill Örn Arnarson Hansen.