Jón Ólafur Bjarnason fæddist á Grundum í Bolungarvík 1. október 1925. Hann lést á Hrafnistu Hafnarfirði 14. mars 2019.
Jón Ólafur var sonur hjónanna Friðgerðar Skarphéðinsdóttur (1888-1943) og Bjarna Bjarnasonar (1895-1980). Systkini hans voru Gunnhildur Guðfinna, Jóna Bjarnveig og Skarphéðinn Sigmundur og eru þau öll látin. Seinni kona Bjarna var Jóna Jónsdóttir, þeirra dóttir Friðgerður Elín, f. 1946. Eftirlifandi eiginkona Jóns er Þorgerður María Gísladóttir íþróttakennari, f. 9.9. 1925. Dóttir þeirra er Sigríður, f. 26.5. 1953. Börn hennar eru a) Jón Ólafur Gestsson, kvæntur Katrínu Ástu Stefánsdóttur og eiga þau þrjú börn, b) Þorgerður María Halldórsdóttir. Fyrir átti Jón Ólafur Bentínu, f. 22.12. 1950, hún er gift Halldóri H. Ármannssyni , börn þeirra eru a) Elvar Eyberg, kvæntur Guðbjörgu M. Árnadóttur, eiga þau fjögur börn. b) Linda Sóley, gift Karvel H. Árnasyni og eiga þau þrjá syni. c) Ingvar Búi, f. 1974, d. 2010, eignaðist hann þrjú börn. d) Andri Þór, sambýliskona hans er Dóra M. Hilmarsdóttir og eiga þau einn son.
Jón Ólafur hóf skólagöngu í barnaskólanum í Bolungarvík, síðar fór hann í Héraðsskólann á Reykjanesi 1940. Veturna 1941-1943 var hann í Bændaskólanum á Hólum og útskrifaðist þaðan sem búfræðingur.
Jón Ólafur starfaði við landbúnað og sjávarútveg fyrir vestan. Vorið 1947 hóf hann störf á Keflavíkurflugvelli og síðar sem lögregluþjónn í Hafnarfirði en þar bjó hann frá 1949. Hann var hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði, þá gjaldkeri hjá Grænmetisverslun landbúnaðarins og loks fjármálastjóri hjá Rafveitu Hafnarfjarðar til starfsloka 1995. Hann var í Frímúrareglunni og Lionshreyfingunni, var einn af stofnendum og forvígismönnum Félags óháðra borgara, var um tíma formaður Bolvíkingafélagsins í Hafnarfirði, sat í stjórn Félags eldri borgara og lengi í stjórn Fríkirkjusafnaðarins. Hann sat áratug í stjórn Sólvangs og var í yfirkjörstjórn í Hafnarfirði 1974 til 1994.
Útför Jóns Ólafs fór fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði 28. mars 2019.

Jón Ólafur var af fátæku alþýðufólki kominn. Friðgerður, móðir hans, hafði alist upp hjá afa sínum og síðar föðursystur en hún missti móður sína tveggja ára. Eftir að fóstrinu lauk fór hún í vinnumennsku í Vigur og víðar en í Bolungarvík var hún í Meirihlíð og á Hóli. Bjarni, faðir Jóns Ólafs, var fyrstu árin með móður sinni en eftir sjö eða átta ára aldur var hann á sveitarframfæri hjá vandalausu fólki á Gili í Suðurdal, Bolungarvík, og í Skötufirði. Eftir fermingu var hann í vinnumennsku á nokkrum bæjum í Bolungarvík, m.a. í Meirihlíð og á Hóli þar sem þau Friðgerður hófu sambúð í húsmennsku. Þar fæddist fyrstu tvíburar þeirra í ársbyrjun 1916. Friðgerður og Bjarni eignuðust 11 börn á árunum 1916 til 1927, þrenna tvíbura, en aðeins fjögur börn komust upp en hin létust á fyrstu vikum og mánuðum, þau sem fæddust ekki andvana, en tvær systur lifðu þegar Jón fæddist, Gunnhildur Guðfinna f. 1916 og Jóna Bjarnveig f. 1921. Jón var næstyngstur en yngri bróðir, Skarphéðinn Sigmundur, fæddist 1927.

Friðgerður og Bjarni bjuggu á mörgum stöðum á upp­vaxtar­árum Jóns Ólafs. Þau höfðu búið í nokkrum húsum í Bolungarvík og um tíma í Skálavík en þegar Jón fæddist bjuggu þau á móti tvíburasystur Friðgerðar, Önnu, í húsi á Grundum í Bolungarvík. Þegar Jón var fárra ára bjuggu þau á tveimur Hanhólsbæjum í Syðridal en 1933 fluttu þau í Meirahraun í Skálavík þar sem þau bjuggu til 1939. Á árunum 1941 til 1943 voru þau í svonefndu Jónasínuhúsi í Bolungarvík, sem þau eignuðust, en þar lést Friðgerður úr blóðeitrun. Seinna giftist Bjarni Ólöfu Jónu Jónsdóttur (1907-1992) og eignuðust þau dótturina Friðgerði Elínu f. 1946.

Jón Ólafur var skírður eftir sambýlis­manni Önnu, Jóni Ólafi Jónssyni, sem hafði farist með mb. Ægi frá Bolungavík í september 1923.

Jón Ólafur var hjá foreldrum sínum á framangreindum stöðum þangað til hann fór að sækja barnaskólann inn í Bolungarvík sem hefur líklega verið haustið 1936 og næstu þrjá vetur var hann hjá Önnu, móðursystur sinni, á veturna á meðan skólinn starfaði en Skarphéðinn, yngri bróðir hans, var í vist í næsta húsi. Guðfinna, elsta barn Friðgerðar og Bjarna, hafði farið í fóstur, níu ára gömul, inn í Botn í Mjóafirði þar sem hún var fram á fullorðinsaldur en Jóna, næstelsta barnið sem komst upp, var farin í vinnumennsku í Bolungarvík um það leyti sem foreldrarnir fluttu út í Skálavík.

Um 13 ára aldur fór Jón alveg að heiman þegar hann réði sig í vist yfir sumarið í Meirihlíð. Tveimur dögum fyrir ferminguna 1939 fór hann svo í vist hjá Magnúsi Hákonarsyni og Ingunni Jónasdóttur, sem bjuggu á Ósi í Bolungavík, og hjá þeim var hann næstu árin.

Jón Ólafur átti þess kost að ganga í unglingaskólann í Bolungavík en það hefði þýtt að hann hefði orðið að ganga daglega innan úr Ósi og út í Bolungavík. Í staðinn valdi hann að fara í heimavist í þrjá mánuði á Héraðsskólanum í Reykjanesi haustið 1940 með stuðningi húsbænda sinna í Ósi. Bóklegt nám hans hefur varla verið mikið á þessum fáu mánuðum en í Reykjanesi lærði hann að synda og þá kunnáttu nýtti hann ævina á enda. Það var einmitt í búningsklefa sundlaugarinnar á Hrafnistu sem hann hrasaði með þeim afleiðingum að hann brákaði handlegg og mjöðm sem leiddi hann til dauða fáum dögum síðar eins og oft vill verða um gamalt fólk sem þolir illa smávægilega áverka.

Veturna 1941-1943 var Jón Ólafur á Bændaskólanum á Hólum en Magnús á Ósi greiddi skólagjöldin. Líklega vakti það ekki endilega fyrir Jóni á þessum tíma að gerast bóndi heldur sá hann þarna frekar tækifæri til að menntast og opna sér aðrar leiðir. Engu að síður nýtti hann búfræðina næstu árin því að Magnús og Ingunn fluttu frá Ósi inn í Heimabæ í Hnífsdal 1943 og Jón Ólafur með þeim og var vinnumaður á búi þeirra fyrsta eitt og hálft árið. Hann lét af því að launagreiðslur hefðu verið litlar en hann hefur viljað endurgjalda Magnúsi skólagjöldin á Hólum. Magnús var á þessum tíma fjósamaður á kúabúi Ísafjarðar­kaupstaðar og hafði gert sér vonir um að fá þar bústjórastarf, sem hann fékk ekki, en tekjur af búinu í Hnífsdal dugðu honum ekki til að halda uppi stóru heimili. Jón Ólafur tók hinsvegar að sér að stýra búi Magnúsar í Heimabæ 1. maí 1945 til 1. maí 1946 og hafði Jónu systur sína þar sem ráðskonu. Upp úr því var hann við ýmis störf í Hnífsdal, var m.a. á reknetabátum og í hraðfrystihúsinu.

Sumarið 1946 fór Jón Ólafur til Akureyrar og vann þar á trésmíðaverkstæðinu Skildi hjá Guðmundi Magnússyni trésmíðameistara frá Bolungar­vík. Um sumarið var Guðmundur í vand­ræðum með reksturinn og sagði öllum starfs­mönnum upp. Jón Ólafur sendi þá vinnufötin sín vestur í Hnífsdal en fór í kaupavinnu til Guðfinnu, systur sinnar, og mágs í Garðshorni á Þelamörk og var þar í mánuð áður en hann fór sjálfur vestur. Síðar kom í ljós að ekki hefði verið ætlun Guðmundar að segja Jóni upp störfum en þá voru fötin farin vestur og Jóni fannst rétt að fylgja þeim. Til Akureyrar var á þessum tíma kominn Halldór Kristjánsson glerslípunarmeistari, uppeldisbróðir Guðfinnu frá Botni í Mjóafirði, en hann útvegaði Jóni Ólafi aðgang að mötuneyti verslunarmanna á Akureyri.

Eftir að vestur kom aftur starfaði Jón Ólafur í frystihúsinu í Hnífsdal en síðla vetrar fluttist hann til Keflavíkur og fór að vinna sem lögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli frá 1. apríl 1947. Ári síðar eða haustið 1948 var hann sendur á námskeið í Lögregluskólanum í Reykjavík sem stóð fram í febrúarlok 1949 en hann sneri aldrei aftur til Keflavíkur heldur gerðist lögreglumaður í Hafnarfirði hjá sama embætti og fyrr. Guðmundur Í. Guðmundsson var á þessum tíma sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu og undir hann heyrði Keflavíkurflugvöllur. Fulltrúi Guðmundar, Björn Sveinbjörnsson, síðar sýslumaður og forseti Hæstaréttar, réð Jón Ólaf til starfa hjá embættinu og átti þátt í því að færa hann til í starfi til Hafnarfjarðar. Faðir Björns var þá bóndi í Þingnesi í Borgarfirði og hjá honum var Jón kaupamaður í sex vikur áður en hann fékk starfið í Hafnarfirði. Í Hafnarfirði leigði Jón Ólafur herbergi en fékk fyrst aðgang að mötuneyti sem Alþýðuflokkurinn hafði komið upp í Alþýðuhúsinu en síðar stofnuðu piparsveinar í Hafnarfirði eigið mötuneyti og þar var Jón þangað til hann kvæntist.

Lögreglustarfinu gegndi Jón Ólafur til ársins 1954 en hann var aldrei sáttur við starfið, svaf illa eftir næturvaktir sem voru auk þess ekki borgaðar með álagi á þessum tíma. Þá tóku við ýmis störf næstu tvö árin svo sem byggingavinna og skrifstofustörf á bæjarskrifstofum Hafnar­fjarðar og hjá Skattstofu Hafnarfjarðar. Hann sneri sér aftur að lögreglustörfunum 1956 en 1959 hóf hann störf á skrifstofu útgerðarfyrirtækis í eigu Jóns Kr. Gunnarssonar. Fyrirtækið varð gjaldþrota innan árs og á seinni hluta árs 1960 og fram í febrúar 1961 vann hann fyrst um mánaðartíma hjá Grænmetis­versluninni og síðan við útgáfu blaðs Þjóðvarnarmanna, Frjálsrar þjóðar, en Jón studdi það framboð og var í öðru sæti á lista fyrir það í einmenningskjördæminu Hafnarfirði. Hann var þó að öðru leyti aldrei virkur í flokksstarfinu. Þegar þarna var komið sögu var farið að fjara undan Þjóðvarnar­flokknum og fylgismenn þess væntan­lega margir gengnir til liðs við Alþýðubandalagið sem þá var komið til sögunnar með ákveðna andstöðu við bandarískt herlið á Íslandi. Þessi þátttaka Jóns Ólafs í Þjóðvarnarflokknum varð þó til þess að um færri störf var að velja í Hafnarfirði því að á þeim tíma þótti sjálfsagt að velja fólk til starfa eftir flokkslitum þannig að þar hafa Sjálfstæðismenn og Alþýðuflokksmenn gengið fyrir. Jón fór nú enn til starfa hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði, sem þá var orðinn Björn Sveinbjörnsson. Hjá sýslumannsembættinu vann Jón Ólafur til 1966 en gerðist þá gjaldkeri í Grænmetisversluninni og starfaði þar til 1981. Þá færði hann sig yfir til Rafveitu Hafnarfjarðar þar sem hann var fjármálastjóri til starfsloka 1995.

Jón Ólafur giftist Þorgerði Maríu Gísla­dóttur íþróttakennara á afmælisdegi hennar 9. 9. 1952. Þorgerður (f. 1925) er dóttir hjónanna Sigríðar Guðmundsdóttur (1892-1981) og Gísla Gíslasonar (1890-1974) en hann var trilluútgerðarmaður í Stykkishólmi áður en þau fluttust til Hafnarfjarðar þar sem hann var sjómaður og verkamaður. Jón Ólafur og Þorgerður stofnuðu heimili á Hring­braut 5 í Hafnarfirði og bjuggu þar 1952-1967. Þar fæddist Sigríður Jónsdóttir 26. 5. 1953 en áður hafði Jón eignast Bentínu f. 22. 12. 1950 með Gyðu Ingibjörgu Guðvarðar­dóttur (f. 1927).

Sigríður starfaði hjá Búnaðarbankanum, Sparisjóði Hafnarfjarðar (síðar Byr) og starfar  nú hjá Hafnarfjarðarbæ, hún á Jón Ólaf Gestsson hagfræðing f. 1979 og Þorgerði Maríu Halldórs­dóttur mann­fræðing f. 1983.

Bentína ólst upp hjá móður sinni og stjúpföður á Hvalnesi á Skaga. Hún er gift Halldóri Hermanni Ármannssyni bifvéla­virkja og leigubílstjóra en þau eiga Elvar Eyberg f. 1970, starfsmann hjá Ölgerðinni Agli Skalla­grímssyni, Lindu Sóleyju f. 1972, húsmóður, Ingvar Búa f. 1974, d. 2010, en hann vann sem leigubílstjóri og við plastpökkun og Andra Þór f. 1985, tölvunarfræðing. Barnabarnabörn Jóns eru 14.

Árið 1967 fluttu Jón Ólafur og Þorgerður í  einbýlishús að Klettahrauni 23 í Hafnarfirði og þar bjuggu þau til 1996 er þau minnkuðu við sig og fluttu á Hjallabraut 37. Árið 2018 fluttu þau svo á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem Jón lést 94 ára gamall eftir stutt veikindi. Þorgerður hafði þá verið heilsulítil um árabil. Þau hjón lögðu metnað sinn í fallegt heimili og fengu viðurkenningar fyrir umhirðu lóðar bæði á Hringbraut og í Klettahrauni. Jón Ólafur taldi þau garðyrkjustörf með því merkasta sem hann hafði fengist við um dagana og kom hann þó víða við.

Jón Ólafur var mikill félagsmálamaður. Hann gekk í Frímúrarastúkuna Eddu í Reykjavík 1960 og saman stofnuðu nokkrir reglubræður svo Frímúrarastúkuna Hamar í Hafnarfirði 1963 þar sem hann sótti fundi fram undir nírætt. Það segir sína sögu um atorku Jóns Ólafs og áhuga á félagsmálum að samhliða starfinu með frímúrurum var hann í Lionsklúbbi Hafnarfjarðar á árunum 1965-1987 og gegndi þar ýmsum embættum, m.a. formennsku 1971-1972 og 1983-1984, og átti þátt í stofnun tveggja Lionsklúbba, annars­vegar Lionsklúbbs Garðabæjar og hinsvegar Lionsklúbbsins Ásbjarnar í Hafnarfirði. Þá var Jón Ólafur for­maður Bolvíkingafélagsins í Reykjavík á árunum 1985 til 1994 en hann sýndi sínum gömlu heimaslóðum alltaf mikla ræktarsemi. Hann sat í stjórn Hjúkrunar­heimilisins Sólvangs á árunum 1975-1986 og hann var gjald­keri í Félagi eldri borgara  á árunum 1993-1996.

Jón var einn af stofnendum og forvígismönnum Félags óháðra borgara í Hafnarfirði (H-listans) í 20 ár frá 1966 og átti einu sinni sæti neðarlega á listanum. Ástæðan fyrir stofnun félagsins var að ýmsum þóttu ráðandi flokkar í bæjar­pólitíkinni ekki líklegir til stórræða. Greinilega var þetta talsvert útbreidd skoðun þegar félagið var stofnað því að í fyrstu kosning­unum, sem H-listinn bauð fram í Hafnarfirði, fékk hann þrjá bæjarfulltrúa af níu. Eftir það átti félagið fulltrúa í bæjarstjórn til 1986. Jón Ólafur var í framtalsnefnd Hafnarfjarðar 1966-1970 fyrir H-listann, í kjörstjórn 1966 til 1986, fyrst sem varamaður Jóns Finnssonar, og í yfirkjörstjórn 1974-1994. Þá sat hann í stjórn Eftir­launasjóðs Hafnar­fjarðarkaup­staðar 1966-1974.

Foreldrar Þorgerðar og hún sjálf höfðu verið í Fríkirkjusöfnuðinum í Hafnarfirði þegar þau Jón og Þorgerður kynntust sem varð til þess að Jón sagði skilið við Þjóðkirkjuna og gekk í Fríkirkjusöfnuðinn. Í Fríkirkjusöfnuð­inum sat Jón Ólafur í stjórn nær samfellt á árunum 1964 til 1990, fyrst sem gjaldkeri frá 1964, síðar safnaðar­formaður 1971-1976 og loks ritari en stjórnarsetu hans lauk 1990. Hann sat þó sem fulltrúi Fríkirkjunnar í Kirkju­garðsstjórninni í Hafnarfirði á árunum 1986 til 1996. Á meðan Jón Ólafur sat í stjórn safnaðarins voru uppi nokkur átök um hvort slíta ætti söfnuðinum en Jón lagðist eindregið gegn því.

Meðal áhugamála Jóns Ólafs var ættfræði enda var hann hafsjór fróðleiks um þau efni. Hann var lengst af afar minnugur, a.m.k. á allt sem tengdist ættum hans sjálfs og stað­háttum fyrir vestan, en hann sagði við mig sl. haust, þegar ég heimsótti hann á Hrafnistu, að hann væri farinn að finna fyrir því að hann ætti erfitt með að muna nöfn. Það undrar ekki fólk sem margt er farið að finna fyrir nafna­gleymsku 30-40 árum yngra.

Ættfræðiáhugi hans endur­speglaði eins og gengur almennt viðhorf hans til lífsins og tilverunnar. Þannig tók hann saman þó nokkrar handskrifaðar síður sem hann nefndi Framætt föðurættar eða Framætt okkar þar sem hann hafði rakið ættir föður síns til sýslumanna, biskupa og annarra stórmenna langt aftur í aldir. Öðrum leggjum ættarinnar sinnti hann minna enda var þar dýpra á stórmennunum. Þessi samantekt er hinsvegar hin merkasta, svo langt sem hún nær, og hefur nýst mér ómetanlega í grúski mínu í forfeðrum og -mæðrum Bjarna afa á 19. öld og síðar. Það er hinsvegar athyglisvert að Jón Ólafur var örvhentur en var, eins og títt var á árum áður, neyddur til að skrifa með hægri hendinni. Engu að síður var rithönd hans einstaklega skýr og falleg.

Ekki voru miklir kærleikar milli Jóns Ólafs og Bjarna, föður hans, enda stórt í báðum. Jón sinnti honum þó eftir að Bjarni missti sjónina, m.a. með því að fara með hann í heimsóknir til Matthildar hálfsystur Bjarna á Suðureyri og til Kristínar móðursystur hans eftir að hún flutti suður í Hafnarfjörð.

Jón og Gerða heimsóttu okkur í Garðshorn á hverju sumri um langt árabil og þær heimsóknir voru alltaf tilhlökkunarefni. Sigríður dóttir þeirra var hjá okkur á sumrum á þessum tíma og lærði norðlensku.

Fáum árum áður en Jón Ólafur lést bað hann mig að skrifa um sig, hann orðaði það þannig. Hugsanlega átti hann við að ég ætti að skrifa um hann minningargrein í Morgunblaðið, sem ég hef ekkert dálæti á, en niðurstaðan varð sú að ég skrifaði eftir honum nokkuð nákvæma skýrslu um æviferil hans sem framangreindur texti byggir á. Ég átti svo von á að aðrir, sem þekktu hann betur en ég, skrifuðu minn­ingargreinar í Morgunblaðið. Það olli mér vonbrigðum og undrun að engar slíkar greinar skyldu birtast, svo mikill félags­mála­maður sem hann var og búinn að starfa með mörgum, en líklega eru fyrrum samstarfs­menn hans og félagar ýmist komnir undir græna torfu eða orðnir ófærir um greinaskrif. Svo er orðið langt síðan hann lét af opin­berum störfum og fyrir vikið gleymdur á þeim stöðum þar sem hann lét mest að sér kveða áður. Eftir á að hyggja hefði ég átt að gera útdrátt úr æviferli hans og bæta einhverju við svarta letrið sem fylgir minningargreinunum. Nú er það um seinan og svarti bletturinn á samvisku minni bætist við aðra sem fyrir voru.


Gunnar Frímannsson.