Jón Þór Þorvaldsson
Jón Þór Þorvaldsson
Eftir Jón Þór Þorvaldsson: "Það fólk þraukaði þegar ákveðið var að samþykkja Icesave, þegar neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar var lokað."

Núverandi ráðherrar leggja mikla áherslu á að Ísland innleiði 3. orkupakka Evrópusambandsins. Fáir hafa þó reynt að benda á neinn kost við orkupakkann fyrir Íslendinga. Áköfustu talsmenn hans segja að hann skipti engu máli. Brjóti hann stjórnarskrána sé það í lagi af því að stjórnarskrárbrotin muni aðeins vera í gildi, en „ekki virk“. Skoðanakannanir sýna að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem afstöðu taka er á móti því að orkupakkinn verði innleiddur á Íslandi. Það finnst orkupakkasinnum vera fáfrótt fólk sem er að hafa skoðanir á því sem það veit ekkert um. Ráðherrarnir hafa hins vegar fengið álit „sérfræðinga“ og þá skiptir andstaða almennings engu máli. Landsfundarsamþykktir og miðstjórnarsamþykktir eigin flokka, gegn orkupakkanum, eru að mati ráðherranna byggðar á misskilningi svo ekki þarf að fara eftir þeim.

Bergmálshellirinn

Síðastliðinn laugardag var orkupakkamálið rætt í Ríkisútvarpinu í þættinum Vikulokunum og gestir þáttarins voru aðstoðarmaður fjármálaráðherra, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi aðstoðarmaður formanns Viðreisnar. Aðstoðarmaður fjármálaráðherra hafði þennan skilning á úthaldi Miðflokksmanna í baráttunni gegn innleiðingunni: „Svo er kannski ekki alveg hægt að vanmeta bergmálshellinn sem fólk býr í, vegna þess að sá sem er í þessari stöðu hann er væntanlega mest að tala við fólk sem finnst þetta mjög gott hjá honum, og þeir eru örugglega að fá mikið klapp á bakið frá allskonar fólki sem, þú veist, er mjög mikið á móti Evrópska efnahagssvæðinu, er mjög mikið á móti orkupakkanum, er mjög mikið á móti kannski ríkisstjórninni, og bara svona lífinu yfir höfuð, og ég geri ráð fyrir að það fólk setji sig í samband við þá og hvetji þá áfram...“

Á móti lífinu

Samkvæmt könnunum er sáralítill stuðningur við orkupakkann meðal almennings. En ráðamenn, sem eru búnir að tala við sérfræðinga, trúa því að aðrir séu í bergmálshelli. Við Miðflokksmenn höfum fengið mikinn stuðning við baráttu okkar, ekki síst frá fólki sem tilheyrir tveimur af stjórnarflokkunum þremur. Það fólk þraukaði þegar ákveðið var að samþykkja Icesave, þegar neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar var lokað, og nú síðast þegar fóstureyðingar voru undir klappi og blístri á þingpöllum leyfðar fram að 23. viku meðgöngu, við atkvæðagreiðslu þar sem forsætisráðherra sagðist vilja leyfa fóstureyðingar allt fram að fæðingu. Nú horfir þetta fólk á kröfuna um innleiðingu orkupakkans og veit að næst ætla fulltrúar þess að opna fyrir innflutning á ófrosnu kjöti og eggjum, þvert gegn alvarlegum ráðleggingum lækna. Í því máli verður nákvæmlega jafn lítið gert með andstöðu eigin flokksmanna eða alls almennings. Þetta fólk er byrjað að skilja hvað mörgum ráðamönnum finnst um það í raun og veru. Það er bara á móti ríkisstjórninni og lífinu.

Höfundur er varaþingmaður Miðflokksins.