Elín Methúsalemsdóttir fæddist á Bustarfelli í Vopnafirði 10. júlí 1933. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 4. júní 2019 eftir skammvinn veikindi.
Foreldrar hennar voru Jakobína Soffía Grímsdóttir ættuð frá Svefneyjum á Breiðafirði, f. 10. sept. 1893, d. 10. apríl 1965, og Methúsalem Methúsalemsson, Bustarfelli, f. 27. apríl 1889, d. 1. júlí 1969.
Hálfsystir Elínar er Arnfríður Snorradóttir, f. 26. febr. 1925.
Elín giftist 5. júní 1955 Einari Gunnlaugssyni, f. 3. jan. 1932, d. 10. okt. 1980, syni hjónanna Bjargar Jónsdóttur og Gunnlaugs Jónssonar á Felli í Vopnafirði.
Elín og Einar bjuggu á Bustarfelli og ólu þar upp sín börn. Þau eru: 1) Methúsalem, f. 12. febr. 1955, kvæntur Arndísi Álfheiði Hólmgrímsdóttur, f. 25. júlí 1955. Þau eiga tvær dætur og tvö barnabörn. 2) Björg, f. 10. des. 1956, gift Braga Vagnssyni, f. 2. ág. 1946. Þau eiga fimm börn og fimm barnabörn. 3) Birna Halldóra, f. 23. nóv. 1958, gift Gunnari Birni Tryggvasyni, f. 10. okt. 1955. Þau eiga fjórar dætur og fimm barnabörn. 4) Gunnlaugur, f. 16. des. 1960, kvæntur Erlu Sveinsdóttur, f. 29. mars 1962. Þau eiga þrjú börn. 5) Jóhann Lúther, f. 3. júlí 1962, kvæntur Sigríði Elvu Konráðsdóttur, f. 16. júlí 1964. Synir Sigríðar og stjúpsynir Jóhanns eru tveir.
Sambýlismaður Elínar frá árinu 1985 er Baldur Kristinsson, f. 19. febr. 1934, fyrrum bóndi og skólabílstjóri á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Elín ólst upp í föðurhúsum á Bustarfelli. Hún stundaði nám við Gagnfræðaskóla Akureyrar og síðar við Húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði veturinn 1952-53. Elín og Einar hófu búskap í gamla torfbænum á Bustarfelli árið 1954 í samstarfi við foreldra Elínar.
Bustarfellsheimilið var ætíð mannmargt og gestakomur tíðar. Auk þess var bærinn að hluta til sýndur ferðafólki með tilheyrandi álagi á fjölskylduna.
Elín var húsmóðir fram í fingurgóma og kletturinn sem treyst var á. Árið 1966 flutti fjölskyldan í nýtt íbúðarhús sem Elín og Einar byggðu við hlið gamla bæjarins og þar áttu þau nokkur góð ár, en Einar lést langt fyrir aldur fram aðeins 48 ára að aldri.
Elín tók við keflinu af Methúsalem föður sínum og lagði grunn að formlegri stofnun Minjasafnsins á Bustarfelli árið 1982. Hún skráði ómetanlegar upplýsingar um gamla bæinn, staðhætti, muni og minjar og var stoð og stytta næstu kynslóða hverra hlutskipti var að halda merkjum safnsins áfram á lofti.
Elín kynntist Baldri, eftirlifandi sambýlismanni sínum, og flutti í Öngulsstaði árið 1985. Þar stunduðu þau búskap en auk þess vann hún um árabil við Hrafnagilsskóla. Elín starfaði í kvenfélögum frá unga aldri, fyrst í Vopnafirði og síðar í Eyjafirði. Þá var hún einnig í félagi eldri borgara Eyjafjarðarsveitar.
Útför Elínar fór fram frá Vopnafjarðarkirkju 10. júní 2019.

Elsku amma Ella er dáin eftir stutta og óvænta sjúkralegu. Hver einasta minning svo vermandi og dýrmæt, mikið sem ég sakna hennar. Þegar ég hugsa um ömmu dettur mér í hug staðalímynd ítalskrar ömmu; lítil kona með ótrúlega stóran og mjúkan faðm. En amma var svo sannarlega alin upp á Íslandi og mundi tímana tvenna; alin upp í torfbæ, ól jafnframt upp sín eigin börn í torfbæ þar sem hluti heimilisins var þá þegar rekinn sem minjasafn, missti eiginmann sinn og barnsföður ung að árum, sá um foreldra sína í veikindum. En það eru aðrir sem geta betur sagt frá þeim árum sem mótuðu konuna Ellu.
Umhyggja, góðvild og örlæti eru orð sem við barnabörnin notum örugglega öll til að lýsa ömmu. Og ís, það var alltaf til ís sem og karamelluhrískaka þegar ég var í sveitinni. Jú og bækur, ætli við myndum ekki öll minnast á bækurnar en amma og afi hafa allt ýtt undir lestur hjá barnabörnum sínum og barnabarnabörnum og gefið okkur bækur öll jól. Það á eftir að ylja næstu ár að opna gamlar bækur sem stendur Frá Ellu ömmu &, jólin 1983 og til ársins 2018. Svo var hún amma ætíð örlát á tímann sinn og eyra, alltaf til í að hlusta. Hvort sem málið snérist um stærðfræði, fótbolta, leikrit eða ungbörn, það var alltaf gott að deila hugsunum sínum með henni; gleði og sorgum. Hún dæmdi aldrei.
Amma flutti 1985 frá Bustarfelli í Vopnafirði, í Öngulsstaði í Eyjafjarðarsveit til Baldurs afa en hjá þeim fékk ég oft að dvelja. Amma hafði einstakt lag á að láta mér líða vel og ég fann aldrei fyrir því að ég væri fyrir á heimili hennar og afa, enda sótti ég í að dvelja hjá þeim. Ég fór með þeim í fjósið á morgnana og fékk að brynna kálfunum og klappa, því næst með afa í traktorinn eitthvað að starfa og hlusta á útvarp, borðuðum tvírétta hádegismat og tókum blund eftir matinn ég hafði reyndar ekki vit á því á þessum árum að leggja mig en hún amma sagði mér sögu með rifu á öðru auganu og hvíldi sig með hinu. Eftir blundinn fór ég gjarnan út á hlað að leika við vinkonu okkar ömmu sem var lítil maríuerla eða þá aftur í fjósið og þá að veiða mýs, sem ég sleppti svo að sjálfsögðu á hlaðinu sem var kannski ekki svo ákjósanlegt en Sigga frænka á neðri hæðinni fylgdist vel með í glugganum og passaði upp á að ég og mýsnar kæmum ekki of nálægt húsinu. Samkomulagið milli okkar ömmu var að mýsnar fengju að lifa en að þær kæmu ekki inn í íbúðarhúsið. Ætli mýsnar hafi ekki alltaf hlaupið af hlaðinu inn í fjós aftur og ég því veitt sömu mýsnar aftur og aftur & þetta hefur því verið fyrirtaks starf og lausn fyrir lítinn dýravin, að hætti ömmu. Eftir miðdagsverkin var að sjálfsögðu kaffiveisla alla daga, annað hvort hjá ömmu eða Deddu og Siggu á neðri hæðinni en þar átti ég líka gott athvarf. Svo fórum við amma saman í vinnuna hennar í Hrafnagilsskóla og hélt þá amma áfram að segja mér sögur á meðan hún sinnti vinnunni. Þegar við komum aftur heim í Öngulsstaði hlustuðum við amma á Köttinn Jáum eða Gosa í græjunum hans afa á meðan hún sinnti heimilisstörfum. Ég fór margoft í gegnum spólurnar en man ekki eftir því að amma hafi nokkurn tíma óskað eftir því að fá að hlusta á neitt annað. Eftir tvírétta kvöldverð og fréttir spiluðum við Löngu vitleysu og ólsen og svo var lesið en afi og amma áttu mikið lesefni fyrir krakkaskott og dettur mér strax í hug Rasmus Klumpur og svo Hrói höttur síðar. Nema ef Hemmi Gunn var í sjónvarpinu, þá var poppað og horft í stað þess að spila. Alveg hreint dásamlegir dagar. Á vorin og haustin snérist lífið um kartöflurnar og það voru sko ekki leiðinlegar vertíðir.
Á menntaskólaárunum bjó ég á Akureyri og þá var auðvelt að skjótast í mat til afa og ömmu. Þá eldaði amma vel og mikið svo ég myndi nú örugglega borða nóg. Matseðillinn var gjarnan kjöt í karrý í aðalrétt, hrísgrjónagrautur með rabbabarasaft í millirétt og svo ís í eftirrétt.
Lýsandi fyrir elsku ömmu og umhyggju hennar fyrir fólkinu sínu var að þó svo hún lægi á dánarbeði sínum, gat hún gert sig skiljanlega til að spyrja um nýjasta langömmubarnið sitt, dóttur mína. Ég er svo þakklát fyrir að hafa getað komið til Akureyrar með dóttur mína til ömmu á sjúkrahúsið og leyft henni að finna hlýju ömmu við vanga hennar og eiga sjálf minningu um lítinn fót og litlar tær í lúnum en kærleiksríkum höndum.
Ég kveð elsku ömmu í hinsta sinn - minningin um hana verður ávallt ljóslifandi þar sem hún hlær með mér og strýkur hár mitt frá andlitinu, kyssir mig og segir mér að koma fljótt aftur. Ég sakna hennar sárt en veit hún vakir yfir okkur ásamt öðrum góðum vættum.



Hildur Halldórs- og Birnudóttir.