Árni Sverrir Erlingsson fæddist að Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi 3. júlí 1935. Hann lést 2. júlí 2019 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.
Foreldrar hans voru Guðlaug Jónsdóttir, f. 21.7. 1894, d. 6.5. 1981, og Jón Erlingur Guðmundsson, f. 1.8. 1899, d. 27.5. 1985, bændur á Galtastöðum. Systkini Árna eru stúlka, f. 21.2. 1929, d. 26.2. 1929. Rannveig, f. 18.1. 1930, d. 2.2. 1930. Guðmundur, f. 7.4. 1931, d. 2.12. 2009. Arndís, f. 2.7.
1932, og Sigurjón Þór, f. 12.10. 1933. Eiginkona Árna er Sigríður Sæland íþróttakennari, f. 27.5. 1944, gengu þau í hjónaband þann 8.4. 1967. Foreldrar hennar voru Hulda G. Sæland, f. 24.12. 1926, d. 22.1. 2018, og Eiríkur Ágúst Sæland, f. 28.4. 1922, d. 22.11. 2002, garðyrkjubændur að Espiflöt í Biskupstungum. Dætur þeirra eru 1) Hulda Sæland, f. 19.3. 1966, maki Óðinn Kristjánsson, f. 27.11. 1961. Börn þeirra Árni, f. 1994, maki Frida
Höllgård, f. 1993, Sigríður Sæland, f. 1998, Andri Snær, f. 2003, d. 2003, og Breki Þór, f. 2003. Fyrir átti Óðinn Sveinbjörn, maki Ásta Jóna Jónsdóttir, eiga þau fjögur börn, og Aníta, f. 1987, maki Guðmundur Ingi Guðmundsson, eiga
þau þrjá stráka. 2) Rannveig, f. 23.9. 1967, maki Brynjar Jón Stefánsson, f. 9.7. 1960, sonur þeirra Brynjar Jón, f. 2001. Börn úr fyrra hjónabandi eru Díana Gestsdóttir, f. 1988, maki Árni Páll Hafþórsson, eiga þau tvo syni, og Sverrir Gestsson, f. 1989. Fyrir átti Brynjar Sigrúnu Örnu, f. 1987, maki Hilmar Guðlaugsson, eiga þau tvö börn, og Böðvar Dór, f. 1995. Árni ólst upp og bjó á Galtastöðum þar til hann hóf nám í húsasmíði 1955 hjá Trésmiðju Kaupfélags Árnesinga. Sveinspróf tók hann 1959 og meistararéttindi fékk hann 1963. Vann sjálfstætt með Stefáni Kristjánssyni frá Geirakoti 1959-1965, er Árni og Þorsteinn Sigurðsson iðnmeistari hans stofnuðu Trésmiðju Þorsteins og Árna. Þar starfaði hann til 1980 er hann hóf að kenna við Iðnskólann á Selfossi þegar verkleg kennsla hófst þar. Iðnskólinn sameinaðist svo Fjölbrautaskóla Suðurlands við stofnun hans 1981 og vann Árni þar til sjötugs og var svo stundakennari til 74 ára aldurs, uppáhalds kennslugreinin var viðgerðir eldri húsa. Hann sat í byggingarnefnd skólans mest allan tímann er framkvæmdir stóðu yfir frá 1985-1994. Hann stundaði nám við Kennaraháskóla Íslands og lauk 1982 námi til kennsluréttinda á framhaldsskólastigi. Árið 2001 lauk hann námi sem svæðisleiðsögumaður á Suðurlandi og stundaði þá vinnu nokkuð. Sat í stjórn Landverndar 1993-1995 og í stjórn Ferðafélags Íslands 1996-2002 og vann mikið að sumarlagi
fyrir félagið frá 1985 og á meðan heilsan leyfði. Var það mest við viðhald fjallaskála félagsins. Í stjórn Héraðskjalasafns Árnesinga 1999-
2005. Hann tók virkan þátt í endurreisn Tryggvaskála á Selfossi og sat í stjórn félagsins. Áhugamál voru mörg en íslensk náttúra og verndun hennar voru efst á blaði, og ferðalög innan- og utanlands. Sem ungur maður æfði hann og
keppti í íþróttum og stundaði stangveiði. Hann spilaði brids fram á síðasta dag.
Útför Árna Sverris fer fram frá Selfosskirkju í dag klukkan 13.30.

Elsku afi óbyggðirnar kalla og ég verð að gegna þeim heyri ég þig raula að morgni örlagadags þíns.
Það er sárt að hugsa til þess að þú sért farinn frá okkur en á móti er gott að vita til þess að núna líður þér vel, laus við alla verki og vanlíðan.
Það eru ekki allir svo heppnir að fá að alast upp að stórum hluta hjá ömmu sinni og afa frá fyrstu vikum ævinnar. Að eiga ömmu og afa sem tóku þátt í þínu lífi af eins mikilli ást og umhyggju og þið amma gerðuð. Algjör forréttindi og mikið sem ég hef notið góðs af ykkar ást.
Að vakna með ykkur á Birkjó við fuglasönginn er ein af þessum ljúfu minningum sem ég mun aldrei gleyma.
Ég var ansi plássfrekur krakki og vildi helst sofa alveg upp við fólk og helst undir því en afa fannst það ekki endilega jafn notalegt og mér, það var ekki lengi vandamál, við sváfum bara öll þversum í rúminu og þá var nóg pláss fyrir alla.
Útivist, ferðalög og göngur eru mínar allra bestu minningar úr æsku og eru það allt minningar sem tilheyra ykkur.
Viskubrunnur, sögumaður, hrekkjalómur, stuðningsmaður, umhyggjusamur, sælkeri, vinur og þolinmæði eru orð sem koma upp þegar ég hugsa um afa.
Var ég búin að nefna þolinmæði? Ég hugsa oft um hvað þið amma höfðuð mikla þolinmæði gagnvart mér og Sverri þegar við vorum lítil. Strax við 3 ára aldurinn voruð þið farin að fara með okkur í göngur og ferðalög. Ég var kannski ekki sú meðfærilegasta, uppátækjasöm með meiru, vel virk og með stórt skap, en alltaf buðuð þið okkur með. Það lýsir ykkur ömmu svo vel. Afi þekkti Ísland eins og lófann á sér, vissi allt og gat svarað öllu.
Tungufellsdalur um versló, aðventuferðir í Galtafell, Skógarfosskóla og Skálholt með ykkur og frábæra félagsskapnum Fjallavinir sem við kynntumst vel og þekkjum ennþá til. Fyrsti leggur Laugavegs þegar við gengum frá Hrafntinnuskeri niður í Landmannalaugar með ykkur og FÍ og haustferð í Þórsmörk með Fí eru ansi eftirminnilegar ferðir. Þegar afi varð sextugur var haldið uppá það með ferðalagi um alla Austfirði. Vinnuferðir og ferðir í Þórsmörk og Landmannalaugar með tilheyrandi fjallgöngum. Ingólfsfjall, Viðeyjarferð, Vestmannaeyjar þar sem við gengum á Helgafell og Eldfell. Hellisheiðarganga þegar amma varð sextug, Mallorca og veiðiferðir með þér á Laugarbakka. Þvílík forréttindi að fá að njóta þessa alls með ykkur.
Þú varst svo mikill grínisti og oft hrekkjóttur sem naut mikilla vinsælda meðal allra langar mig að segja. Mér er mjög minnisstætt ein jólin þegar við settum skóinn okkar út í glugga hjá ykkur og þú ætlaðir sko ekki að missa af jólasveininum, náðir í veiðivöðlurnar þínar og skrifaðir lengsta óskalista sem ég hef séð, daginn eftir kíktum við öll spennt í veiðivöðlurnar þar sem fimm stórar kartöflur biðu þín, að sjálfsögðu voru þær borðaðar um kvöldið með bestu list. Þú áttir líka alltaf til nóg af gátum og bröndurum sem við náðum sjaldan að leysa. Spilagaldrarnir og dansi dansi dúkkan, við trúðum því lengi vel að þú værir hreinlega göldróttur.
Tækifærisgjafir og afmæli, alltaf myndskreyttir þú svo fallega og oftar en ekki fylgdi vísa með. Alla konudaga fengu konurnar í þínu lífi rós. Mér er mjög minnisstætt þegar ég kom eitt sinn heim af pæjumótinu í eyjum og þú komst færandi hendi með rósabúnt, ein rós fyrir hvert mark sem ég skoraði, þú varst alltaf svo áhugasamur um allt sem barnabörnin þín voru að fást við.
Afi var líka mikill dýravinur og þegar við Sverrir veiddum flugur og fiðrildi og báðum þig að stinga gat á lokið á krukkunni þá stakkstu alltaf ,,óvart of stórt gat. Allir fuglar sem flugu á glugga voru jarðaðir og samband ykkar Sígós var einstakt og undrast ég aldrei af hverju Tumi laðaðist svona að þér. Þú varst góður við alla og gerðir ekki upp á milli neins.
Fram á síðasta dag nutu strákarnir mínir góðs af allri þinni ást og hæfileikum. Ég er svo þakklát fyrir ykkar vináttu sem þeir munu búa að alla ævi. Þú smíðaðir hvolpasveitarhús fyrir Elmar Snæ, hesthús fyrir Elimar Leví ásamt öllum fiskunum og teikningunum sem þú gerðir fyrir þá í alla leikina sem voru búnir til heima hjá ykkur. Langafa strákarnir þínir elskuðu að fara á Birkjó að leika. Þar var sko leikið. Hlutverkaleikir, feluleikir, lesið, unnið í garðinum, vísur, sungið og margt fleira skemmtilegt. Sjónvarp, iPadar og símar voru aldrei til staðar og öll athygli var á fólkinu ykkar. í hraða nútímasamsamfélagsins er það ómetanlegt. Að koma heim til ykkar var eins og að koma í annan ,,heim. Mikið skil ég strákana mína vel og er þeim hjartanlega sammála um að á Birkjó sé gott að vera.
Þið amma eruð mínar helstu fyrirmyndir og hvatning í lífinu. Ég ætla að reyna mitt besta í uppeldinu á mínum börnum að kenna þeim að njóta náttúrunnar, útivistar og kynna þeim nýja staði fara í göngur. Alveg eins og þið amma gerðuð með okkur.
Þið voruð og eruð mínar fyrirmyndir í flestu í lífinu. Sambandið ykkar var svo fallegt og öll ykkar lífsgildi. Ég á ykkur ömmu svo margt að þakka og núna þegar þú ert farinn lofa ég að hugsa vel um elsku ömmu, hvort sem það er að halda í við hana í göngum, vinna í garðinum, laga tölvuna, baka kleinur og laufabrauð eða bara spjalla um allt og ekkert. Ég ætla svo sannarlega að halda minningu þinni lifandi svo lengi sem ég lifi með öllum skemmtilegu sögunum af þér.
Elsku afi hjartað mitt er brotið en jafnframt svo þakklátt, mér finnst ég heppnasta og ríkasta stelpa í heimi fyrir að hafa átt þig sem afa. Núna tekur nýtt ferðalag við sem inniheldur fullt af vellíðan, gríni og nóg af rjóma

Góða ferð

Hoppa kátur út um dyrnar
við blasir himininn,
himinblár er bláminn
himneskur jökullinn.


Óbyggðirnar kalla
og ég verð að gegna þeim,
ég veit ekki hvort eða hvernig
eða hvenær ég kem heim.

(Magnús Eiríksson)

Ég elska þig, þín

Díana.